Algengar spurningar varðandi barnavernd

Hér má finna algengar spurningar og svör um tilkynningar til barnaverndarnefnda og vinnslu barnaverndarmála.

Hvernig tilkynni ég til barnaverndar?

Hér má finna lista yfir allar barnaverndarþjónustur á Íslandi

Tilkynnt er til barnaverndarþjónustu þar sem barnið býr. Á daginn getur þú hringt í sveitafélagið þar sem barnið býr og beðið um að fá að tala við barnaverndarstarfsmann. Þá færð þú að tala við barnaverndarstarfsmann um áhyggjur þínar eða þá að það eru tekin skilaboð frá þér og haft samband síðar. Þú getur líka sent tölvupóst með áhyggjum þínum til barnaverndarinnar. Á kvöldin og um helgar getur þú hringt í 112 en það er neyðarnúmer sem alltaf er opið og starfsmenn þar koma áhyggjum þínum áfram til barnaverndarinnar í sveitafélaginu þar sem barnið býr.

Á ég að tilkynna til barnaverndar?

Ef þú hefur áhyggjur af barni og telur að foreldrar þess séu ekki færir um góða umönnun þess, ættir þú að tilkynna til barnaverndar.

Í 16. gr. barnaverndarlaga kemur fram að öllum er skylt að tilkynna til barnaverndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:
a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.
Þá er hverjum manni skylt að gera barnavernd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi eða ef ástæða er til að ætla að þunguð kona sé beitt ofbeldi, eða um hvert það tilvik sem telja má að barnavernd eigi að láta sig varða. 

Ef þú ert í vafa skaltu hafa samband við barnavernd.

Hvernig veit ég hvort það er nægilega alvarlegt?

Ef þú hefur áhyggjur, ættir þú að tilkynna málið. Þín tilkynning getur verið mjög mikilvæg fyrir barnið/börnin sem um ræðir. Það er eðlilegt að óttast að maður sé kannski að gera úlfalda úr mýflugu, eða oftúlka aðstæður eða atburð. Margir hafa áhyggjur af því að aðstæður séu ekki nægilega alvarlegar eða að tilkynning geti búið til óþarfa vandamál. Það er verkefni barnaverndarinnar að meta áhyggjur og hvort þörf sé á aðstoð. Þitt verkefni er að tryggja að barnaverndarstarfsmenn fái upplýsingar um börn sem kunna að búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu.

Get ég tilkynnt án þess að gefa upp nafn mitt?

Þú verður alltaf að gefa upp nafnið þitt við starfsmenn barnaverndar (svo hægt sé að hafa samband við þig ef þörf er á frekari upplýsingum) en þú getur óskað nafnleyndar gagnvart öllum öðrum, þannig að sá sem þú ert að tilkynna viti ekki hver þú ert. Ef þú ert óviss um hvort þú ættir að segja frá áhyggjum þínum, getur þú hringt og haft samráð við barnaverndarstarfsfólk þar sem þú býrð.

Nafnleyndin nær eingöngu til einstaklinga sem tilkynna til barnaverndar samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga. Hér er oftast um að ræða ættingja, nágranna eða aðra sem þekkja til aðstæðna barnsins og mikilvægt er að þeir geti notið ákveðinnar verndar samanber það sem að framan segir. Í þeim tilvikum sem tilkynnandi tilkynnir undir nafni verður vinnsla málsins oft auðveldari vegna þess að upphaf málsins liggur ljóst fyrir. Áréttað er að hér er aðeins átt við nafnleynd gagnvart aðilum máls en ekki barnaverndinni en hún þarf ávallt að hafa nafn tilkynnanda skráð hjá sér.

Ég vinn með börnum, á ég að tilkynna og hvernig geri ég það?

  • Í 17. gr. barnaverndarlaga kemur fram að hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum barna eða þungaðra kvenna er skylt að tilkynna til barnaverndar ef grunur leikur á að barn:    

    a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
    b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
    c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

    Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum, náms- og starfsráðgjöfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnavernd viðvart ef þörf er á. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

    Hér má nálgast verklagsreglur skóla og heilbrigðisstarfsfólks þar sem nánari upplýsingar eru um verklag varðandi tilkynningar til barnaverndarlaga.

Hvað gerist þegar tilkynnt er til barnaverndar?

Eftir að barnavernd hefur fengið tilkynningu eða upplýsingar á annan hátt um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, áreitni eða ofbeldis af hendi annarra eða eigin hegðunar, þarf hún að meta hvort um rökstuddan grun sé að ræða. Skal sú ákvörðun tekin eins fljótt og hægt er og eigi síðar en 7 dögum eftir að upplýsingarnar berast sbr. 21. gr. barnaverndarlaga. Enginn greinarmunur er hér gerður á tilkynningu sem berst utan frá eða upplýsingum sem barnaverndinni geta borist á annan hátt, t.d. vegna könnunar á öðru barnaverndarmáli eða við vinnslu máls samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sömu ákvæði gilda einnig um málefni þungaðrar konu sem barnaverndin hefur fengið vitneskju um að geti stofnað heilsu eða lífi ófædds barns síns í voða.

Þegar tekin er ákvörðun um hvort hefja eigi könnun máls skal barnaverndin láta foreldra vita um tilkynninguna og ákvörðun starfsmanna um könnun. Tilkynna á foreldrum um þetta innan 7 daga frá því ákvörðun er tekin og geta því liðið allt að 14 dagar frá því tilkynning berst og þangað til foreldrar fá vitneskju um að tilkynning hafi borist. Ef barnavernd telur að könnun málsins, og möguleg rannsókn lögreglu, gæti á einhvern hátt eyðilagst eða barnið verið í hættu fái foreldrar vitneskju um tilkynninguna, er heimilt að fresta því að láta foreldra vita. Þau tilvik sem hér um ræðir eru fyrst og fremst tilkynningar er varða ofbeldi gegn barni þar sem meintur gerandi er á heimili barnsins og því hætta á að hann gæti haft áhrif á vitnisburð barnsins og/eða beitt það enn frekara ofbeldi eða hótunum. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða vanrækslu eða annað er eðlilegt að foreldrum sé strax skýrt frá tilkynningunni og innihaldi hennar. Meginreglan er því að tilkynna foreldrum strax (innan 7 daga) um ákvörðun um könnun.

Sá aðili sem tilkynnir til barnaverndar á ekki rétt á upplýsingum um framgang málsins hjá barnavernd nema hann sé aðili að málinu. Sjá spurningu um hver á rétt á aðgangi að gögnum frá barnavernd.

Ef tekin er ákvörðun um að kanna ekki málið er því lokað og foreldrar upplýstir um að tilkynning hafi borist og að málinu sé lokið. Þetta getur m.a. verið gert ef tilkynning er metin ótrúverðug af einhverju orsökum, að upplýsingarnar bæti engu við það sem til er um málið (þegar mál er þegar til meðferðar hjá barnavernd) eða að um lítilvægar aðfinnslur er að ræða, t.d. fyrstu afskipti lögreglu af unglingi vegna brota á útivistarreglum. 

Hvernig er mál kannað hjá barnavernd?

Ef tekin er ákvörðun um að kanna mál er mál stofnað hjá barnavernd. Könnun máls á að taka eins stuttan tíma og hægt er eða ekki lengri tíma en 3 mánuði (í undantekningatilvikum 4 mánuði, ef könnunin er umfangsmikil). Hins vegar þarf að gæta þess að afla nægilega mikilla upplýsinga til að hægt sé að taka ákvörðun að könnun lokinni hvort og hvaða stuðningsúrræði þurfa að koma til svo bæta megi aðstæður viðkomandi barns. Við könnun máls er oftast byrjað á að ræða við foreldra barns og barnið sjálft en síðan helstu þjónustu- eða stuðningsaðila barnsins og fjölskyldunnar, t.d. leikskóla, skóla, lögreglu, heilsugæslu og fleiri sem þekkja vel til barnsins. Í 44. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um upplýsingaskyldu til barnaverndar, þ.e. ef barnavernd óskar eftir upplýsingum um barn og aðstæður þess þá ber þeim sem búa yfir slíkum upplýsingum skylda til að veita barnavernd þær.

Að könnun lokinni er gerð greinargerð um könnun máls og þar kemur fram hvað könnun málsins leiddi í ljós, skilgreint hvaða vandi er til staðar og hvort talin er ástæða til að gera meðferðaráætlun í máli barnsins þar sem kveðið er á um stuðningsúrræði eða hvort málinu sé lokið af hálfu barnaverndar. 

Hvernig vinnur barnavernd?

Flest barnaverndarmál eru unnin í samvinnu starfsmanna og foreldra og eftir atvikum barns. Sameiginlega er reynt að komast að niðurstöðu um hvað þurfi að bæta í aðstæðum og líðan barns og hvernig sé best að gera það. Meðferðaráætlun á þannig að vera skjal sem unnið er í samvinnu barnaverndar og fjölskyldunnar. Meðferðaráætlun er tímasett (oft 3-9 mánuðir, stundum styttri og stundum lengur) og skal endurskoðuð reglubundið eða að lágmarki við lok áætlunar og er þá metið hvort markmiðum er náð, hafa aðstæður barns batnað nægilega til að barnavernd geti lokað málinu eða þarf áframhaldandi stuðning og mögulega önnur eða fleiri úrræði.

Í undantekningatilvikum næst ekki samkomulag við foreldra (eða barn sem náð hefur 15 ára aldri og telst þá sjálfstæður aðili máls) en barnaverndin telur samt sem áður nauðsynlegt að grípa til úrræða. Þá er málið unnið með svokallaðri einhliða áætlun og lögð til úrræði sem nauðsynleg eru talin til að tryggja hagsmuni barnsins. Það getur verið allt frá því að mæla fyrir um að barn skuli sækja leikskóla, gangast undir rannsókn hjá lækni og til þess að barn sé tekið af heimili. Þessar ákvarðanir þarf að bera undir barnaverndarnefnd/umdæmisráð til úrskurðar og er hægt að skjóta slíkum úrskurði, ýmist til úrskurðarnefndar velferðarmála eða dómsstóla. Þá er rétt að geta þess að barnaverndarnefnd/umdæmisráð getur einungis úrskurðað um töku barns af heimili í fjóra mánuði, til að ákveða lengri vistun án samþykkis málsaðila þarf að bera málið undir héraðsdóm.  

Hvað geta barnaverndaryfirvöld gert til að hjálpa börnum, unglingum og fjölskyldum?

Í samvinnu við barn og foreldra gerir barnaverndarstarfsmaðurinn áætlun í málinu - áætlun er einhversskonar samningur um hvaða ráðstafanir þurfi að grípa til og hvaða stuðning fjölskyldan eða barnið þurfi til að bæta ástandið. Flestar ráðstafanir eiga sér stað meðan barnið er heima hjá foreldrum sínum. Hægt era ð beita ýmiss konar stuðningsúrræðum til að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Í sumum tilvikum þarf barnið að fara af heimili sínu til að geta fengið hjálp. Í flestum tilvikum býr barnið eða unglingurinn þá á fósturheimili. En einhver geta þurft á því að halda að fara í meðferð vegna neyslu eða hegðunarerfiðleika og búa þá á meðferðarheimilum.

Barnavernd reynir einnig að auðvelda samskipti við aðra hjálp fyrir börn s.s. barna- og unglingageðdeild (BUGL), fræðsluþjónustur sveitarfélaga, viðtalsþjónustu hjá ýmsum fagaðilum s.s. félagsráðgjöfum, hjúkrunarfræðingum og sálfræðingum.

Fæ ég að vita af því ef málið er fellt niður?

Nei. Barnaverndaryfirvöld hafa þagnarskyldu um samskipti sín við einstaklinga eða fjölskyldur, og getur þess vegna ekki gefið upp neinar persónulegar upplýsingar um einstök mál nema við þá sem eru aðilar málsins sem oftast eru barnið og foreldrar þess.

Tíminn líður og ég hef enn áhyggjur: Ætti ég að hringja aftur?

Já, þú ættir að gera það. Það að hafa einu sinni tilkynnt mál á ekki að hindra að tilkynnt sé aftur. Málin geta tekið tíma, geta breyst og stundum er erfitt að fá samvinnu við foreldra og þess vegna getur verið gott að fá sem mestar upplýsingar í málið.

Trúnaðar er gætt við fjölskyldur sem fá hjálp frá barnaverndaryfirvöldum. Þess vegna kemur þú ekki til með að fá að vita hvað barnavernd hefur gert síðan þú hringdir síðast. Engu að síður er mikilvægt að þú hafir samband ef þú hefur áhyggjur, og útskýrir hvers vegna.

Verð ég málsaðili ef ég tilkynni til barnaverndaryfirvalda?

Þú verður ekki málsaðili ef þú tilkynnir. Málsaðilar eru einungis þeir sem málið hefur bein áhrif á, þ.e.a.s. yfirleitt foreldrar og barn.

Hvað gerist ef tilkynnt er um barnið mitt?

Tilkynning til barnaverndaryfirvalda er ekki kæra heldur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn/fjölskyldu, sem tilkynnandi telur hjálparþurfi. Samkvæmt barnaverndarlögum er foreldrum eða þeim sem barnið dvelst hjá skylt að veita liðsinni sitt til að könnun málsins geti gengið greiðlega fyrir sig, enda skulu starfsmenn barnaverndar sýna þeim er málið snertir nærgætni. Könnunin skal ekki vera umfangsmeiri en þörf krefur. Sjálfsagt er að spyrja starfsmenn um rétt foreldra og hvernig könnun fer fram enda ber starfsmönnum að leiðbeina foreldrum og barni um rétt þeirra. Um heimildir og skyldur starfsmanna við könnun máls er fjallað í 22. gr. og VIII. kafla barnaverndarlaga. Rétt er að hafa í huga að í langflestum barnaverndarmálum eru foreldrar og starfsmenn sammála um að leita þeirra leiða sem bestar eru fyrir barnið.

Hvað er gert í barnaverndarmálum?

Þegar barnavernd fær tilkynningu eða berast upplýsingar með öðrum hætti um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess geti verið hætta búin, skal hún taka afstöðu til þess án tafar og eigi síðar en innan sjö daga frá því að henni barst tilkynning eða upplýsingar, hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu.

Lögð er áhersla á að fá ítarlegar upplýsingar um tilefni tilkynninga í upphafi. Tilkynning þarf að vera trúverðug og vel rökstudd. Starfsmenn barnaverndar taka ákvörðun um hvort tilefni sé til að hefja könnun máls. Foreldrar eru ávallt látnir vita að tilkynning hafi borist og hvaða ákvörðun hafi verið tekin í framhaldinu.

Ef tilefni tilkynningar felur í sér þörf á frekari athugun á aðstæðum barns er ákveðið að kanna málið. Könnun máls skal að öllu jöfnu ekki vara lengur en í þrjá mánuði og er þess gætt að könnunin sé ekki umfangsmeiri en þörf krefur en markmið hennar er að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi og aðstæður barnsins.

Upplýsinga er leitað eftir atvikum hjá ungbarnaeftirliti, á leikskóla, í skóla, hjá ættingjum, barninu sjálfu o.s.frv. Lögð er áhersla á að hitta börn og ræða við þau með hliðsjón af 12. gr. Barnasáttmálans um rétt barns til þátttöku.

Í vissum alvarlegum málum s.s. grun um ofbeldi foreldra gegn barni sinu er heimilt að tala við börn án þess að láta foreldra vita fyrst. Svo eru þeir látnir vita þegar búið er að tala við börnin.

Framvinda málsins veltur síðan á því hvað upplýsingaöflun hefur leitt í ljós. Ef ekki þykir ástæða til frekari afskipta á grundvelli barnaverndarlaga er málinu lokað með formlegu bréfi til foreldra/forráðamanna. Þegar þörf er á áframhaldandi aðstoð barnaverndar er í samstarfi við foreldra eða forráðamenn gerð meðferðaráætlun með tilheyrandi stuðningsúrræðum eftir því hvernig málum er háttað.

Mál er í vinnslu hjá barnavernd. Á ég rétt á lögfræðingi?

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarþjónusta veita foreldrum og barni sem er aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð áður en kveðinn er upp úrskurður. Í einhverjum tilvikum velja foreldrar að leita aðstoðar lögmanns fljótlega eftir að barnaverndarmál fer í gang og spurning getur vaknað um rétt til að fá styrk ef ekki er gripið til þvingunarúrræðis í málinu. Þótt foreldri geti þótt stuðningur af því að hafa lögmann sér til aðstoðar meðan mál er í könnun eða við gerð áætlunar um stuðningsúrræði, er ekki skylt að veita styrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð í þessum tilvikum. Ef niðurstaða könnunar felur hins vegar í sér tillögu um beitingu þvingunar eða gerð er einhliða áætlun um beitingu þvingunar, þá er alla jafna rétt að gera ráð fyrir að unnt sé að sækja um styrk, jafnvel þó máli ljúki svo síðar með því að samvinna takist um stuðningsúrræði. Styrk skal veita í samræmi við reglur sem barnaverndarþjónustur setja og í reglunum skal taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins. 

Hver á rétt á aðgangi að gögnum frá barnaverndarnefnd?

Meginreglan er að aðili máls á rétt á öllum gögnum. Aðilar máls í barnaverndarmáli eru foreldrar sem fara með forsjá barns og barn sem er orðið 15 ára. En barnaverndin getur með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Barnaverndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.

Forsjárlausir foreldrar geta átt rétt á gögnum ef gögnin varða þann aðila. Foreldri sem fer ekki með forsjá barns hefur rétt til þess að fá munnlegar upplýsingar um hagi barnsins sjálfs, t.d. heilsu og skólagöngu. Hann á þó ekki rétt á að fá upplýsingar er tengjast forsjárforeldri.

Foreldri sem hefur verið svipt forsjá á ekki rétt á neinum upplýsingum um barn sitt.

Þá geta aðrir aðilar einnig verið taldir aðilar máls undir einhverjum kringumstæðum, t.d. ömmur og afar eða aðrir sem telja sig nákomna barninu og sækjast t.d. eftir umgengni við barn sem er vistað utan heimilis. Þá eru fósturforeldrar einnig aðilar að vissum þáttum máls þegar barn er í fóstri.

Hvað gerir barnavernd ef málið varðar umgengni við barn?

Barnavernd hefur ekki ákvörðunarvald er varðar umgengni við barn, nema ef barn er vistað utan heimilis á grundvelli barnaverndarlaga. Ef málið varðar umgengni skal leita til sýslumanns í því umdæmi sem barnið býr. Hægt er að skjóta úrskurði sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins.

Ef málið er hins vegar komið í þann farveg að engu að síður sé um barnaverndarmál að ræða ber að tilkynna til barnaverndar í því umdæmi sem barnið býr. Hafa má samband við starfsmenn barnaverndar ef spurningar vakna um það hvort tilkynna skuli til barnaverndar.

Ef barn er vistað utan heimilis á grundvelli barnaverndarlaga:

Barn í fóstri á rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti. Þegar barn er vistað utan heimilis á vegum barnaverndar á barnaverndin að gera tillögur um umgengni barns við kynforeldra og aðra nákomna þegar það á við. Leitast skal við að ná samkomulagi við þá sem umgengni eiga að rækja og ganga frá skriflegum samningi um fyrirkomulag umgengninnar. Ef ekki næst samkomulag úrskurðar barnaverndin um ágreiningsefni er varða umgengnina, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengni eða framkvæmd.

Við ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná markmiði sem stefnt er að með ráðstöfun barnsins í fóstur.

Hvað gerir barnavernd ef málið varðar forsjárdeilur foreldra?

Barnavernd hefur ekki ákvörðunarvald í forsjárdeilum foreldra. Leita skal til sýslumanns í því umdæmi sem barnið býr. Hér má nálgast upplýsingar um sýslumannsembættin.

Dómsmálaráðuneytið veitir einnig ráðgjöf varðandi forsjármál.  Hér má nálgast heimasíðu dómsmálaráðuneytisins.

Ef málið er hins vegar komið í þann farveg að engu að síður sé um barnaverndarmál að ræða ber að tilkynna til barnaverndar í því umdæmi sem barnið býr. Hafa má samband við starfsmenn barnaverndar ef spurningar vakna um það hvort tilkynna skuli til barnaverndar.

Ég er ósátt/ur við hvernig barnavernd vinnur, hvað geri ég?

Mögulegt er að leita til yfirmanna hjá viðkomandi barnaverndarþjónustu en hver sem er getur einnig komið kvörtun á framfæri við Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála vegna starfshátta barnaverndar. Lögð er áhersla á að fá kvartanir skriflega. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Úrskurðum og tilteknum ákvörðunum barnaverndar er hægt að skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála og er kærufrestur fjórar vikur frá því að aðila máls barst vitneskja um ákvörðun. Hér má nálgast heimasíðu úrskurðarnefndar í velferðarmálum.

Þegar ekki næst samkomulag um vistun barns utan heimilis en barnavernd telur slíkt úrræði nauðsynlegt getur barnaverndarnefnd/umdæmisráð úrskurðað um slíkt úrræði í allt að 4 mánuði. Slíka úrskurði er hægt að bera undir dómstóla. Ef vistunin á að standa yfir í lengri tíma og forsjáraðilar eða barn sem náð hefur 15 ára aldri samþykkja það ekki heyrir það sömuleiðis undir dómstóla. 

Hef hug á því að ættleiða barn, hvert leita ég?

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fjallar um erindi vegna ættleiðinga á landsvísu. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica