Málskot og kæruleiðir í barnavernd

Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála

Heimilt er að skjóta úrskurðum og einstökum ákvörðunum barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu til úrskurðarnefndar velferðarmála og er kærufrestur fjórar vikur frá því að aðila máls barst vitneskja um ákvörðun.

Samkvæmt 6. gr. barnaverndarlaga er m.a. hægt að skjóta til úrskurðarnefndar ákvörðunum samkvæmt eftirtöldum greinum barnaverndarlaga:

19. gr. um nafnleynd tilkynnanda, 23. gr. um áætlun um meðferð máls, 25. gr. um úrræði utan heimilis með samþykki foreldra og barns, 26. gr. um úrræði án samþykkis foreldra, 67. gr. b. um val á fósturforeldrum, 74. gr. um umgengni í fóstri og 74. gr. a. um brotaþola. Hægt er að lesa nánar um málskotsréttinn í 51. gr. barnaverndarlaga.

  51. gr. Málskot.

  • Aðilar barnaverndarmáls geta skotið úrskurði eða ákvörðun skv. 1. mgr. 6. gr. til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun.
  • Úrskurðarnefnd getur ákveðið að formaður nefndarinnar fari einn með mál og kveði upp úrskurð ef mál þykir ekki varða mikilsverða hagsmuni barns.
  • Úrskurðarnefnd skal innan tveggja vikna frá því að henni berst kæra taka mál til meðferðar og úrlausnar. Úrskurðarnefnd skal kveða upp úrskurð í máli svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að úrskurður barnaverndarnefndar var kærður til hennar.
  • Úrskurðarnefnd velferðarmála getur metið að nýju bæði lagahlið máls og sönnunargögn. Nefndin getur ýmist staðfest úrskurðinn að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur kærunefndin einnig vísað málinu til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju.

Heimasíða Úrskurðarnefndar velferðarmála

Málskot til héraðsdóms:

Foreldrum eða barni sem náð hefur 15 ára aldri er heimilt að bera úrskurð barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis skv. 27. gr. barnaverndarlaga undir héraðsdómara. Krafa þess efnis skal berast dómara innan fjögurra vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp. Málskot til dómstóla kemur ekki í veg fyrir að úrskurður barnaverndarnefndar komi til framkvæmda.

Styrkur til að greiða fyrir lögmannsaðstoð

Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd veita foreldrum og barni sem er aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Í einhverjum tilvikum velja foreldrar að leita lögmannsaðstoðar fljótlega eftir að barnaverndarmál fer í gang og spurning getur vaknað um rétt til að fá styrk ef ekki er gripið til þvingunarúrræðis í málinu. Þótt foreldri geti þótt stuðningur af því að hafa lögmann sér til aðstoðar meðan mál er í könnun eða við gerð áætlunar um stuðningsúrræði er barnaverndarnefnd ekki skylt að veita styrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð í þessum tilvikum. Ef að niðurstaða könnunar felur hins vegar í sér tillögu um beitingu þvingunar eða gerð er einhliða áætlun um beitingu þvingunar þá er alla jafna rétt að gera ráð fyrir að unnt sé að sækja um styrk, jafnvel þó máli ljúki svo síðar með því að samvinna takist um stuðningsúrræði.

Styrk skal veita í samræmi við reglur sem barnaverndarnefnd setur og í reglunum skal taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins. Markmið þessa ákvæðis er að fjárhagur manna hindri þá ekki í að njóta lögmannsaðstoðar og verður mat á fjárhag viðkomandi að ráða mestu um hvort styrkur sé veittur og einnig hversu hár hann skuli vera. Þannig er óheimilt við ákvörðun styrks að meta hvort barnaverndarnefnd telji málarekstur þjóna hagsmunum barns eða ekki. Í reglum barnaverndarnefndar er óheimilt að takmarka rétt aðila til að fá styrk með því að krefjast þess að samið sé um fjárhæð fyrirfram eða með því að setja reglur um hámarksfjárhæðir styrks. Í reglunum skal einungis setja fram viðmið sem leiða til samræmis í framkvæmd og skilvirkni, svo sem um hvaða gögn eiga að fylgja umsókn um styrk. Barnaverndarnefnd verður svo að fjalla um hvert mál fyrir sig en grundvallaratriði við ákvörðun um fjárhæð styrks er mat á hæfilegu vinnuframlagi lögmanns við að gæta hagsmuna aðila í tilteknu máli. Við mat á því má kalla eftir rökstuðningi fyrir kröfu um ákveðinn styrk og almennum upplýsingum um í hverju vinnuframlag lögmannsins hafi verið fólgið. Rétt er að taka fram að styrkur er svo veittur aðilanum sjálfum sem sér um að greiða þann reikning sem lögmaður gerir aðila.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica