Fréttir


Hlutverk dómstóla skv. barnaverndarlögum

17.8.2006

Út er komin hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi Guðrúnarbók, afmælisrit Guðrúnar Erlendsdóttur fyrrverandi dómara við Hæstarétt Íslands. Bókin hefur að geyma fjölbreytt safn ritgerða um lögfræðileg efni, þar á meðal samantekt Hrefnu Friðriksdóttur um hlutverk dómstóla skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002. Þar er farið lítillega yfir aðdraganda að setningu nýrra barnaverndarlaga árið 2002 og sjónarmið um úrskurðarvald og málskotsleiðir en eins og kunnugt er var úrskurðarvald í barnaverndarmálum að miklu leyti fært frá barnaverndarnefndum yfir til almennra dómstóla með lögunum nr. 80/2002. Farið er yfir úrskurði og dóma íslenskra dómstóla sem gengu á tímabilinu frá því að lögin tóku gildi þann 1. júní 2002 og fram til 1. nóvember 2005. Fjallað er um mál skv. 27. og 28. gr. um vistun barns utan heimilis, mál um forsjársviptingu skv. 29. gr. og vikið að öðrum málum, svo um sviptingu sjálfræðis í því skyni að koma þungaðri konu til aðhlynningar og meðferðar, sbr. 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga og ákvæði lögræðislaga, og um brottvísun og nálgunarbann skv. 37. gr. barnaverndarlaga. Þarna er að finna mikilvægar upplýsingar um fjölda mála, meðferð dómsmála og niðurstöður þeirra mála sem dómstólar hafa fjallað um.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica