Fréttir


  • Kona á skrifstofu

Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2018 - 2021 sem og upplýsingar frá Barnahúsi.

3.2.2022

Umsóknum um meðferð fækkar, en fjöldi er svipaður og á árinu 2019
Umsóknir um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu voru færri á árinu 2021 en árið á undan, eða 156 umsóknir á árinu 2021 en 168 á árinu 2020. Sé miðað við árin á undan má sjá að nokkrar sveiflur eru á umsóknum, en þær voru alls 174 árið 2018 og 154 árið 2019. Líkt og fyrri ár bárust flestar umsóknir vegna MST, eða 109 umsóknir. Flestar umsóknir um meðferð bárust frá landsbyggðinni eða 40,4% og fleiri umsóknir um meðferð bárust vegna drengja en stúlkna, líkt og fyrri ár.

Beiðnum um tímabundið og varanlegt fóstur fækkar, en umsóknum um styrkt fóstur fjölgar
Beiðnir til Barnaverndarstofu um fósturheimili voru 135 á árinu 2021, færri en árið á undan þegar þær voru 165. Fjöldi beiðna um fóstur var 120 á árinu 2018 og 163 á árinu 2019. Líkt og fyrri ár voru flestar beiðnir vegna tímabundins fósturs, en slíkar beiðnir voru þó nokkuð færri en árin á undan, en jafn margar og árið 2018. Beiðnum um varanlegt fóstur fækkaði einnig, en eru þó fleiri en á árinu 2018. Umsóknum um styrkt fóstur fjölgaði á árinu 2021 og hefur farið fjölgandi frá árinu 2018.

Mikil aukning í Barnahúsi
Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir hins vegar. Rannsóknarviðtölum fjölgaði úr 334 á árinu 2020 í 423 á árinu 2021, en þau voru 236 og 257 á árunum 2018 og 2019. Skýrslutökur fyrir dómi voru 278 á árinu 2021, 220 árið á undan, en 128 og 150 á árunum 2018 og 2019. Sú fjölgun sem má sjá á árinu 2021 má helst rekja til fjölgunar skýrslutaka vegna kynferðislegs ofbeldis. Könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir voru 145 á árinu 2021. Eru það fleiri könnunarviðtöl en síðustu ár, en á árunum 2018-2020 voru könnunarviðtöl 107-114.

Vistunum og vistunardögum fjölgar á Stuðlum, en einstaklingum fækkar milli ára
Vistunum á lokaðri deild á Stuðlum fjölgaði úr 152 í 167 á árinu 2021 miðað við árið á undan og vistunardögum fjölgaði úr 826 á árinu 2020 í 919 á árinu 2021. Eru það heldur fleiri vistanir og vistunardagar en á árunum 2018 og 2019. Alls komu 67 börn á lokaða deild á árinu 2021, en þau voru 69 árið á undan. 

Skýrsluna má nálgast hér

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica