• Hjólabrettastelpa

112-dagurinn – öryggi og velferð barna og ungmenna

11 feb. 2021

Vitundarvakning um öryggi og velferð barna og ungmenna
112-dagurinn er haldinn um allt land í dag og er sjónum að þessu sinni beint að öryggi og velferð barna og ungmenna, enda fjölgaði tilkynningum til barnaverndarnefnda gríðarlega á síðasta ári.

Dagurinn markar upphaf vitundarvakningar á vegum 112 um ofbeldi gegn börnum í tengslum við nýja gátt á 112.is um ofbeldi í nánum samböndum. Áhersla verður lögð á öryggi og velferð barna og ungmenna í febrúar í auglýsingum og umfjöllun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Vitundarvakningin fer fram í samvinnu við og með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 15,6 prósent milli áranna 2019 og 2020. Þetta er meiri fjölgun á milli ára en sést hefur undanfarin ár, en á tímabilinu 2015-2019 fjölgaði tilkynningum um 7,3 prósent að meðaltali á milli ára. Hlutfallslega hefur fjölgunin verið mest vegna ofbeldis, en tilkynningum vegna ofbeldis fjölgaði um rúm 25 prósent 2019-2020. Mest hefur aukningin verið vegna líkamlegs ofbeldis annars vegar og tilfinningalegs ofbeldis hins vegar og nemur sú aukning 25-30 prósent á landsvísu.

Mikilvægi almennings í barnavernd kom berlega í ljós árið 2020, þegar viðvera í skólum var minni, íþróttastarfsemi í lágmarki og heimaveran meiri. Árið 2020 fjölgaði tilkynningum frá ættingjum um 44 prósent og frá nágrönnum fjölgaði þeim um 35 prósent frá því sem var árið 2019. Tilkynningar til barnanúmersins 112 voru alls 1.200 talsins í fyrra.

Skilaboð 112 og samstarfsaðila 112-dagsins til almennings í tilefni dagsins eru:

· Að allir viti hvað telst ofbeldi gegn börnum.

· Að fólk þekki úrræðin sem eru í boði og hiki ekki við að láta vita í 112 ef grunur leikur á að barn sé vanrækt eða beitt ofbeldi.

Upplýsingar um þetta er að finna á gátt um ofbeldi í nánum samböndum á 112.is. Þar geta börn og fullorðnir meðal annars átt netspjall við neyðarverði um einstök mál.

Barnaverndarnefndir víða um land taka þátt í þessu degi m.a. með fræðslu fyrir börn og fagfólk auk þess að minna á tilkynningaskylduna. Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Það sama á við ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu. Tilkynna skal til þess sveitarfélags þar sem barn býr eða hafa samband við neyðarlínuna í síma 112.
Hér má finna lista yfir allar barnaverndarnefndir á Íslandi.

Í 112-blaðinu sem fylgir Fréttablaðinu í dag er fjallað ítarlega um barnavernd og öryggi og velferð barna og ungmenna frá ýmsum sjónarhornum.
Blaðið má nálgast hér

Félags- og barnamálaráðherra flytur ávarp

Í tilefni dagsins efna Neyðarlínan og samstarfsaðilar 112-dagsins til athafnar sem að þessu sinni fer fram á vefnum. Henni verður streymt á samfélagsmiðlum kl. 12 í dag. 

Dagskrá

· Ávarp: Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra

· Verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2020 afhent

· Skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur

Félags- og barnamálaráðherra mun afhenda hópi barna verðlaun fyrir þátttöku í Eldvarnagetraun Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Hann mun einnig afhenda skyndihjálparmanni ársins viðurkenningu.

Samstarfsaðilar 112-dagsins

112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin, Æskulýðsvettvangurinn og samstarfsaðilar um allt land.

112 er samræmt neyðarnúmer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að minna á að aðeins þarf að kunna þetta einfalda númer til þess að fá aðstoð í neyð. Markmiðið með 112-deginum er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs þeirra og samhæfingar.


Nýjustu fréttir

27. apr. 2021 : Aðgerðir stjórnvalda gegn stafrænu ofbeldi gegn börnum

Miðvikudaginn 28. apríl n.k. verður haldinn fundur þar sem farið verður yfir aðgerðir stjórnvalda til að vinna gegn kynferðislegu / stafrænu ofbeldi gegn börnum hér á landi. Aðgerðirnar fela m.a. í sér aldursmiðaða fræðslu og forvarnir, þjálfun starfsmanna innan réttargæslukerfisins, endurskoðun á verklagi og úrbætur í upplýsingamiðlun. 

Hér má nálgast tengil á viðburðinn sem verður á facebook.

https://www.facebook.com/events/476350143687436/

Lesa meira

25. mar. 2021 : Viðbrögð Barnaverndarstofu vegna sóttvarnaraðgerða. Afgreiðslu Barnaverndarstofu í Borgartúni 21 verður lokað frá og með 25 mars til 15 apríl. Símsvörun í 530 2600 verður frá kl: 09 – 12 og 13 - 15. Áfram er hægt að senda póst á bvs@bvs.is.

Afgreiðslu Barnaverndarstofu í Borgartúni 21 verður lokað frá og með deginum í dag til 15 apríl. Símsvörun í 530 2600 verður frá kl: 09 – 12 og 13 - 15. Áfram verður hægt að ná í einstaka starfsmenn með tölvupósti og ávallt er hægt að senda póst á bvs@bvs.is Ráðgjöf mun að mestu fara fram í gegnum síma, netpóst og fjarfundarbúnað. Áfram verða símatímar fyrir almenning þriðjudaga og fimmtudaga kl 11 - 12. 

Lesa meira

05. mar. 2021 : Barnaverndarstofa biður konur afsökunar sem voru vistaðar á Laugalandi (áður Varpholt)

Hópur kvenna, sem vistaður var á meðferðarheimilinu á Laugalandi (áður Varpholt), steig nýverið fram og lýsti slæmri reynslu sinni af heimilinu undir stjórn fyrri rekstraraðila á árunum 1997 – 2007. Barnaverndarstofa biður þær konur, sem vistaðar voru á heimilinu, afsökunar á að ekki hafi verið brugðist betur við þeim upplýsingum sem stofunni bárust varðandi starfsemi heimilisins.

Lesa meira

05. feb. 2021 : Greining á tölulegum upplýsingum fyrir árið 2020

Barnaverndarstofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu fyrir allt árið 2020 og borið saman við tölur frá árunum 2019 og 2018. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í sérstakri skýrslu sem gefin er út árlega. Einnig er að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu árin 2018, 2019 og 2020.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica