Bráðaþjónusta og meðferð fyrir börn sem glíma við hegðunar- og/eða vímuefnavanda

Barnaverndarstofa harmar að vísa hafi þurft börnum frá sem þurfa neyðarvistun á lokaðri deild Stuðla.

9 apr. 2018


Á deildinni eru 6 pláss fyrir breiðan hóp unglinga í allt að 14 daga í senn með mismunandi þarfir og af öryggisástæðum hefur verið forðast að yfirfylla deildina. Á deildinni er unnið gott starf, oft við þröngar aðstæður og leitast er eftir góðu samstarfi við foreldra, barnaverndarnefndir sem vista börnin og við lögreglu. Samkvæmt tölum Barnaverndarstofu kemur um helmingur barna sem kemur á lokaða deild eingöngu einu sinni þangað. Um helmingur barnanna þarf hins vegar að koma oftar en einu sinni.

Barnaverndarstofa leitar nú leiða með Stuðlum hvernig bregðast megi við þegar deildin er full svo síður þurfi að vísa börnum frá. Stofan kannar einnig með barnaverndarnefndum hvort í einhverjum tilvikum er ítrekað verið að vista sömu börn á neyðarvistun og hvort önnur viðeigandi þjónusta við þessi börn er í undirbúningi, svo sem vistun á meðferðardeild Stuðla eða á meðferðarheimili, en þar hafa á sama tíma verið laus pláss. Barnaverndarnefndirnar hafa þá skyldu að meta hvaða úrræði rétt er að sækja um hverju sinni og mun stofan fylgjast sérstaklega með því að sótt verði um viðunandi úrræði fyrir þau börn sem ítrekað koma á lokaða deild og talin eru þurfa á frekari meðferðarúrræðum að halda. Loks mun Barnaverndarstofa halda áfram umræðu við heilbrigðisyfirvöld um skipulag og samvinnu vegna bráðaþjónustu við börn sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda en eins og komið hefur fram þarf að efla og bæta þá þjónustu verulega.

Misskilnings hefur gætt í fjölmiðlaumfjöllun síðustu vikna um fjölda meðferðarheimila en undanfarin sjö ár hafa þau verið fjögur talsins, að Stuðlum meðtöldum (árið 2010 voru meðferðarheimilin auk Stuðla fimm talsins). Sumarið 2017 fækkaði meðferðarheimilum á landsbyggðinni um eitt vegna slakrar nýtingar yfir langan tíma. Stuðlar og meðferðarheimilin, sem og MST fjölkerfameðferð, sinna í sameiningu sérhæfðri meðferð fyrir börn sem glíma við hegðunar- og/eða vímuefnavanda af ýmsu tagi. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur samanlagður fjöldi barna í þessum úrræðum haldist nokkuð jafn undanfarin ár. Gæði meðferðar á meðferðarheimilum hafa verið að aukast á undanförnum árum og börnin búa þar í öruggu umhverfi við gott atlæti. Þegar verið er að sinna einstaklingum sem glíma við margþættan vanda, þ.á m. neysluvanda, geta því miður ávallt komið upp atvik þar sem tekist hefur að smygla fíkniefnum inn á meðferðarheimilin. Slíkt heyrir sem betur fer til algerra undantekninga og er tekið á slíkum tilvikum af festu og ábyrgð.

Nýting meðferðúrræða hefur verið sveiflukennd. Á tímabilum, eins og nú er raunin, hafa pláss staðið laus en á öðrum tímum hefur verið bið, aðallega eftir meðferðardeild Stuðla og MST. Nú eru til að mynda þrjú laus pláss á langtímameðferðarheimilum stofunnar og vonir standa til þess að fleiri rými losni á allra næstu vikum. Þessi þróun bendir til þess að eftirspurn eftir meðferð og eftirfylgd í nærumhverfi hefur aukist. Hefur Barnaverndarstofa allt frá hausti 2015 verið með opnun meðferðheimilis á höfuðborgarsvæðinu í undirbúningi til að auka fjölbreytni og sérhæfingu meðferðarúrræða. Því miður hefur gengið mjög erfiðlega að fá viðeigandi lóð undir heimilið þrátt fyrir beiðnir til sveitarfélaganna. Einnig standa vonir til að opnað verði á næstunni sérhæft búsetuúrræði með eftirmeðferð fyrir börn sem glíma við alvarlegasta vímuefnavandann og hafa dvalið langdvölum á meðferðarheimilum en geta sökum vanda síns ekki búið heima hjá sér eða á fósturheimili.

Mynd-1-page-003
Nýjustu fréttir

09. ágú. 2022 : Störf laus til umsóknar

Barna- og fjölskyldustofa auglýsir eftir MST meðferðaraðilum og rekstrarstjóra á Stuðla

Lesa meira
Merki BOFS

13. júl. 2022 : Ráðning forstöðumanns í Barnahúsi

Margrét Kristín Magnúsdóttir hefur verið ráðin í stöðu forstöðumanns í Barnahúsi. 

Lesa meira

20. jún. 2022 : Barna- og fjölskyldustofa gerði samstarfssamning við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands um ritun sögu barnaverndar hérlendis.

Barna- og fjölskyldustofa gerði samstarfssamning við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands um ritun sögu barnaverndar hérlendis en þetta er tileinkað þeim tímamótum að liðin eru 90 ár frá setningu fyrstu barnaverndarlaga hér á landi og rúmlega 25 ár síðan Barnaverndarstofa nú Barna- og fjölskyldustofa var sett á laggirnar. Sigrún Harðardóttir skrifaði undir samninginn fyrir hönd Háskóla Íslands og Ólöf Ásta Farestveit fyrir hönd Barna- og fjölskyldustofu. Skipuð verður 6-8 manna ritnefnd. Áætlað er að fræðiritið komi út fyrri hluta ársins 2024. 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica