Greining á tölulegum upplýsingum fyrir árið 2020

5 feb. 2021

Barnaverndarstofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu fyrir allt árið 2020 og borið saman við tölur frá árunum 2019 og 2018. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í sérstakri skýrslu sem gefin er út árlega. Einnig er að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu árin 2018, 2019 og 2020.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:

 

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgar, hlutfallslega mest vegna ofbeldis

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 15,8% á árinu 2020 miðað við árið á undan en alls bárust 13.142 tilkynningar. Tilkynningum fjölgaði í öllum landshlutum en hlutfallslega fjölgaði tilkynningum mest á landsbyggðinni, eða 17,9% á milli ára. Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um árið 2020 var 10.400 börn en er það samanlagður heildarfjöldi barna í hverjum mánuði fyrir sig.

Flestar tilkynningar árið 2020 bárust vegna vanrækslu, eða 43,1% allra tilkynninga. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 27,1% árið 2020 og er það lægra hlutfall en síðustu tvö ár. Tilkynningum vegna ofbeldis fjölgar um 25,9% á milli ára eða alls 3.765 tilkynningar árið 2020. Þá er hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis árið 2020 stærri hluti af heildartilkynningum en árin tvö á undan, eða 28,6%.

Fjöldi tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu voru 2.114 og er það 16,1% allra tilkynninga árið 2020. Er það hærra hlutfall en árin á undan.Tilkynningum fjölgaði í öllum flokkum ofbeldis á milli ára. Flestar tilkynningar sem bárust vegna ofbeldis vörðuðu tilfinningalegt ofbeldi en hlutfall þeirra af heildarfjölda tilkynninga árið 2020 var 18,6%.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 38,8% tilkynninga árið 2020 líkt og fyrri ár. Þá hefur verið mikil fjölgun tilkynninga frá nágrönnum á milli ára. Árið 2020 bárust 1.032 tilkynningar frá nágrönnum, er það 37.2% fleiri tilkynningar en bárust árið 2019.

Umsóknum um meðferðarúrræði Barnaverndarstofu fjölgar

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fjölgaði árið 2020 miðað við árið á undan eða 168 umsóknir miðað við 154 árið á undan.

Flestar umsóknir bárust um fjölkerfameðferð (MST). Fjölgun hefur verið á umsóknum á Stuðla á milli ára, en fækkun vegna annarra meðferðarheimila en Stuðla.

Beiðnir um tímabundið fóstur árið 2020 voru svipað margar og árið á undan en fjölgun hefur verið á beiðnum um varanlegt fóstur á milli ára.

Veruleg fjölgun skýrslutaka í Barnahúsi

Rannsóknarviðtölum árið 2020 fjölgaði um 30% miðað við árið á undan og voru 334 árið 2020.

Má skýra stóran hluta þessarar aukningu vegna aukins fjölda skýrslutaka en skýrslutökur fyrir dómi voru 220 árið 2020, samanborið við 150 árið á undan. Fjöldi barna sem fór í greiningar- og meðferðarviðtöl í árið 2020 var 133 börn. Er það fjölgun frá árunum á undan.

Vistunum og vistunardögum á lokaðri deild Stuðla fækkar

Vistunum á lokaðri deild á Stuðlum fækkaði úr 220 í 152 árið 2020 samanborið við árið á undan. Þá fækkaði vistunardögum úr 1.157 dögum árið 2019 í 754 daga árið 2020. Alls komu 69 börn á lokaða deild árið 2020, en þau voru 82 árið á undan.

Skýrsluna má nángast hér


Nýjustu fréttir

27. apr. 2021 : Aðgerðir stjórnvalda gegn stafrænu ofbeldi gegn börnum

Miðvikudaginn 28. apríl n.k. verður haldinn fundur þar sem farið verður yfir aðgerðir stjórnvalda til að vinna gegn kynferðislegu / stafrænu ofbeldi gegn börnum hér á landi. Aðgerðirnar fela m.a. í sér aldursmiðaða fræðslu og forvarnir, þjálfun starfsmanna innan réttargæslukerfisins, endurskoðun á verklagi og úrbætur í upplýsingamiðlun. 

Hér má nálgast tengil á viðburðinn sem verður á facebook.

https://www.facebook.com/events/476350143687436/

Lesa meira

25. mar. 2021 : Viðbrögð Barnaverndarstofu vegna sóttvarnaraðgerða. Afgreiðslu Barnaverndarstofu í Borgartúni 21 verður lokað frá og með 25 mars til 15 apríl. Símsvörun í 530 2600 verður frá kl: 09 – 12 og 13 - 15. Áfram er hægt að senda póst á bvs@bvs.is.

Afgreiðslu Barnaverndarstofu í Borgartúni 21 verður lokað frá og með deginum í dag til 15 apríl. Símsvörun í 530 2600 verður frá kl: 09 – 12 og 13 - 15. Áfram verður hægt að ná í einstaka starfsmenn með tölvupósti og ávallt er hægt að senda póst á bvs@bvs.is Ráðgjöf mun að mestu fara fram í gegnum síma, netpóst og fjarfundarbúnað. Áfram verða símatímar fyrir almenning þriðjudaga og fimmtudaga kl 11 - 12. 

Lesa meira

05. mar. 2021 : Barnaverndarstofa biður konur afsökunar sem voru vistaðar á Laugalandi (áður Varpholt)

Hópur kvenna, sem vistaður var á meðferðarheimilinu á Laugalandi (áður Varpholt), steig nýverið fram og lýsti slæmri reynslu sinni af heimilinu undir stjórn fyrri rekstraraðila á árunum 1997 – 2007. Barnaverndarstofa biður þær konur, sem vistaðar voru á heimilinu, afsökunar á að ekki hafi verið brugðist betur við þeim upplýsingum sem stofunni bárust varðandi starfsemi heimilisins.

Lesa meira
Hjólabrettastelpa

11. feb. 2021 : 112-dagurinn – öryggi og velferð barna og ungmenna

Vitundarvakning um öryggi og velferð barna og ungmenna
112-dagurinn er haldinn um allt land í dag og er sjónum að þessu sinni beint að öryggi og velferð barna og ungmenna, enda fjölgaði tilkynningum til barnaverndarnefnda gríðarlega á síðasta ári.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica