Leiðbeiningar til sveitarstjórna um skipan barnaverndarnefnda eftir sveitarstjórnarkosningar 14. maí 2022

27 maí 2022

Hinn 29. apríl 2022 samþykkti Alþingi frumvarp mennta- og barnamálaráðherra sem felur í sér frestun niðurlagninga barnaverndarnefnda til 1. janúar 2023. Eftir sveitarstjórnarkosningar hinn 14. maí nk. þurfa sveitarstjórnir því að gæta þess að starfsemi barnaverndarnefndar viðkomandi sveitarfélags sé í samræmi við lög.

Hér á eftir eru leiðbeiningar til sveitarstjórna um skipan barnaverndarnefnda eftir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí 2022.
Hér má nálgast leiðbeiningarnar á PDF formi.

Barnaverndarnefndir halda umboði sínu til 1. janúar 2023
Almenna reglan er að barnaverndarnefndir sem nú eru starfandi halda umboði sínu og starfa áfram til 1. janúar 2023. Ekki er gert ráð fyrir að kosin verði ný barnaverndarnefnd þótt breytingar verði í sveitarstjórn, t.d. ef nýr meirihluti tekur við.
Ef þessar aðstæður eiga við framlengist umboð barnaverndarnefndar sjálfkrafa og ekki krafist frekari viðbragða af sveitarstjórn.

Ný barnaverndarnefnd kosin sem starfar til 1. janúar 2023
Ef barnaverndarnefndir geta ekki starfað áfram við eftir sveitarstjórnarkosningar þarf aðkomu sveitarstjórnar að því að kjósa nýja tímabundna barnaverndarnefnd sem mun starfa til 1. janúar 2023. Dæmi um aðstæður sem kalla á kosningu nýrrar barnaverndarnefndar er þegar nefndir eru ekki fullmannaðar vegna þess að nefndarmenn og/eða varamenn hafa misst kjörgengi í sveitarfélaginu, ef sveitarfélög hafa sameinast og/eða breytingar hafa orðið á samvinnu sveitarfélaga um barnavernd.
Í þeim tilvikum þegar kjósa þarf nýja barnaverndarnefnd skal sveitarstjórn leitast við að tryggja að sem minnst röskun verði á barnaverndarstarfi. Þar sem því verður við komið skal því kjósa nefndarmenn sem hafa reynslu af því að starfa í barnavernd.

Skipan tímabundinnar barnaverndarnefndar
Um skipan tímabundinna barnaverndarnefnda, sem starfa eiga til 1. janúar 2023, gilda sömu reglur og hingað til hafa gilt um barnaverndarnefndir.
Barnaverndarnefnd skal skipuð fimm mönnum og jafnmörgum varamönnum. Barnaverndarnefnd sem nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag er þó heimilt að skipa allt að sjö mönnum og jafnmörgum varamönnum. Um kjörgengi í barnaverndarnefnd fer eftir sömu reglum og um kjörgengi í sveitarstjórn.
Nefndarmenn skulu vera kunnir að grandvarleik og bera gott skyn á mál þau sem barnaverndarnefnd fjallar um. Leitast ber við að kjósa lögfræðing í barnaverndarnefnd og enn fremur fólk með sérþekkingu á málefnum barna. Ef enginn lögfræðingur situr í barnaverndarnefnd skal þess gætt að við ákvörðun skv. 26. og 27. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd kalla til lögfræðing.
Starfandi barnaverndarnefnd heldur að fullu umboði sínu þar til ný nefnd hefur verið skipuð.
Sveitarstjórn tilkynnir Barna- og fjölskyldustofu um skipan nýrrar barnaverndarnefndar.

Þegar félagsmálanefnd fer með verkefni barnaverndarnefndar
Í þeim sveitarfélögum þar sem félagsmálanefnd hefur farið með verkefni barnaverndarnefndar eiga sveitarstjórnir tvo kosti.
Annars vegar að nefndin, sem hefur farið með verkefni félagsmálanefndar og barnaverndarnefndar, haldi áfram eingöngu sem barnaverndarnefnd. Er þá kosin ný félagsmálanefnd en eldri félagsmálanefnd heldur umboði sínu sem barnaverndarnefnd til 1. janúar 2023. Ef þessi leið er farin framlengist umboð barnaverndarnefndar sjálfkrafa og ekki krafist frekari viðbragða af sveitarstjórn.
Hins vegar geta sveitarfélög falið nýrri félagsmálanefnd tímabundin verkefni barnaverndarnefnda til 1. janúar 2023. Ef þessi leið er farin eiga sömu reglur við skipun félagsmálanefndar, sem jafnframt fer með verkefni barnaverndarnefndar, og við skipun tímabundinnar barnaverndarnefndar, en þessum reglum er lýst frekar hér að ofan. 


Nýjustu fréttir

19. sep. 2022 : Fræðsluáætlun Barna- og fjölskyldustofu haustið 2022

Birt hefur verið fræðsluáætlun Barna- og fjölskyldustofu fyrir haustið 2022

Lesa meira

14. sep. 2022 : Morgunverðarfundur Náum áttum: Skilnaður og áhrif á börn.

Miðvikudaginn 21. september 2022 kl. 8:30 - 10:00 á ZOOM

Lesa meira

29. ágú. 2022 : Staða í Barnahúsi laus til umsóknar

Barna- og fjölskyldustofa auglýsir eftir sérfræðingi í Barnahús

Lesa meira

17. ágú. 2022 : Umsóknum um meðferðarúrræði fjölgar

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman helstu tölur varðandi úrræði á þeirra vegum fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins

Lesa meira

09. ágú. 2022 : Störf laus til umsóknar

Barna- og fjölskyldustofa auglýsir eftir MST meðferðaraðilum og rekstrarstjóra á Stuðla

Lesa meira
Merki BOFS

13. júl. 2022 : Ráðning forstöðumanns í Barnahúsi

Margrét Kristín Magnúsdóttir hefur verið ráðin í stöðu forstöðumanns í Barnahúsi. 

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica