1-1-2 tekur við tilkynningum til barnaverndarnefnda

2 feb. 2004

Barnaverndarnefndir landsins undir forystu Barnaverndarstofu hafa gert samkomulag við 1-1-2 um að taka við tilkynningum, skrá helstu upplýsingar og koma þeim til viðkomandi barnaverndarnefndar. Ef talið er að barn geti verið í hættu er barnaverndarstarfsmaður tafarlaust kallaður út. Í tilvikum þar sem aðstæður barnsins eru ekki eins brýnar er upplýsingum komið áfram í upphafi næsta vinnudags. Samningurinn tók gildi 1. febrúar.

Sú ákvörðun að tilkynna barnaverndarnefnd um slæmar aðstæður barns er oft erfið fyrir einstaklinga. Það getur einnig verið flókið að finna hvar barnaverndarnefnd er og hvernig unnt er að ná sambandi við starfsmenn hennar. Börnin sjálf hafa einnig átt erfitt með að leita sér hjálpar þar sem t.d. óregla eða ofbeldi á sér stað. Markmiðið með samkomulaginu við 1-1-2 er að auðvelda þetta ferli. 1-1-2 starfar sem kunnugt er allan sólarhringinn, árið um kring.

Hér er um nýmæli að ræða, sem ekki finnst fordæmi fyrir í Evrópu. Vonast er til að með því að hægt verði að hringja í eitt númer fyrir allar barnaverndarnefndir landsins verði auðveldara fyrir börnin sjálf og einstaklinga að koma upplýsingum til barnaverndarnefnda og þannig stuðlað að því að barnið og foreldrar þess fái nauðsynlega aðstoð. Samskiptin fara fram í fullum trúnaði gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd.

Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Barnaverndarnefnd skal starfa að þessu markmiði með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og veita viðeigandi stuðning. Nú starfa 34 barnaverndarnefndir á landinu og nær allar hafa sérhæft starfsfólk í þjónustu sinni.

Til að barnaverndarnefnd geti sinnt hlutverki sínu er hún háð því að tilkynningar um aðstæður barna berist henni. Barnaverndarlögin kveða skýrt á um tilkynningaskyldu almennings og fagfólks. Lögð er rík áhersla á að öllum þeim sem hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það til barnaverndarnefndar. Tilkynna á ef grunur er fyrir hendi. Það er síðan barnaverndarnefndar að meta upplýsingarnar og taka ákvörðun um hvort kanna eigi málið frekar og beita stuðningsúrræðum ef þörf er á.

Árið 2002 bárust barnaverndarnefndum landsins alls 4.665 tilkynningar. Langflestar komu frá lögreglu eða 2.370. Einnig bárust tilkynningar frá öðrum opinberum aðilum svo sem skólum, heilsugæslu og leikskólum. Tilkynningar frá einstaklingum voru mun færri. 221 komu frá ættingjum, 395 frá nágrönnum og í 508 tilvikum báðu foreldrar barnaverndarnefnd um aðstoð fyrir barnið sitt. Börnin sjálf tilkynntu aðeins í 41 tilviki.

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica