Ávirðingar rekstraraðila Torfastaða í garð Barnaverndarstofu

14 júl. 2004

Rekstraraðilar meðferðarheimilisins að Torfastöðum hafa sett fram í fjölmiðlum undanfarið ásakanir á hendur Barnaverndarstofu um ómálefnalega og óeðlilega meðferð mála er snerta heimilið. Barnaverndarstofa harmar þessi sjónarmið og verður alfarið að vísa því á bug að til staðar sé nokkur óvild í garð hjónanna á Torfastöðum sem hafi ráðið vinnubrögðum í málum um meðferðarheimilið.
Í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi er þess getið að þjónustusamningi um rekstur meðferðarheimilis að Torfastöðum hafi verið sagt upp og er gefið í skyn að það hafi haft áhrif á afstöðu Barnaverndarstofu til mála sem komu upp vegna gruns um kynferðisofbeldi starfsmanns á Torfastöðum. Hið rétta er að rekstraraðilar sögðu sjálfir upp þjónustusamningi sínum vegna óánægju með fjárframlög til starfseminnar. Þetta gerðist allnokkru áður en grunur vaknaði um kynferðisofbeldi og telur Barnaverndarstofa afar óviðeigandi að blanda þessum málum saman.
Það er alltaf alvarlegt mál þegar börn segja frá því að þau hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu tilgreinds einstaklings. Þetta er sérstaklega alvarlegt þegar um að ræða börn sem vistuð hafa verið á meðferðarheimili sem rekið er samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga og grunur beinist að starfsmanni heimilisins. Þegar Barnaverndarstofa tók ákvörðun um að rétt væri að óska lögreglurannsóknar vegna gruns um kynferðisofbeldi af hálfu starfsmanns á Torfastöðum höfðu stofunni borist upplýsingar um að fleiri en eitt barn hefðu sagt frá meintu kynferðisofbeldi starfsmannsins. Sú forkönnun sem fólst í viðtölum við börnin fór fram á vegum þeirra barnaverndarnefnda sem fóru með mál þeirra. Barnaverndarstofa telur sig hafa af fremsta megni leitast við að vinna þetta á málefnalegum og faglegum grunni og m.a. haft til hliðsjónar þau sjónarmið sem stofan hefur almennt mótað meðferð mála þegar vaknar grunur um kynferðisbrot gegn barni.
Barnaverndarstofa hefur alltaf lagt ríka áherslu á samstarf barnaverndaryfirvalda og lögreglu við könnun og rannsókn meintra kynferðisbrotamála og ríkir um þetta samstaða innan barnaverndarkerfisins og réttarvörslukerfisins. Lögð er áhersla á markviss, hröð og skipulögð vinnubrögð sem hafa það að markmiði að tryggja hagsmuni barna sem eiga í hlut. Barnaverndarstofa hefur almennt talið það tryggja best hagsmuni barna í þessum aðstæðum að það fari fram lögreglurannsókn og verður samvinna barnaverndaryfirvalda og lögreglu að vera með þeim hætti að rannsókn máls skaðist ekki og reynt verði að leiða hið sanna í ljós eftir því sem frekast er unnt. Gera verður ráð fyrir að Barnaverndarstofa yrði talin bregðast eftirlitsskyldu sinni með óviðunandi hætti ef aðgerðarleysi eða dráttur á aðgerðum í kjölfar frásagnar barna um meint kynferðisbrot á meðferðarheimili yrði til þess að brot héldu áfram.
Barnaverndarstofa vill taka fram að sjónarmið um hvort óska skuli lögreglurannsóknar í málum barna er allt annað en sjónarmið um hvort unnt sé að ákæra meintan geranda. Ljóst er samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslum ríkissaksóknara að einungis er ákært í um helmingi þeirra mála sem lögreglan rannsakar og sendir til ríkissaksóknara. Barnaverndarstofa telur niðurstöðu ríkissaksóknara því ekki fela í sér neina gagnrýni á vinnubrögð stofunnar eða barnaverndarnefnda í málum þessara barna.

Nýjustu fréttir

03. des. 2020 : Greining á tölulegum upplýsingum frá barnaverndarnefndum

Tilgangur greiningarinnar er að leggja mat á hvort og þá hvaða áhrif COVID-19 faraldurinn hefur haft á tilkynningar til barnaverndarnefnda. Sambærilegar greiningar hafa áður verið gerðar vegna mars til september 2020.

Lesa meira

05. nóv. 2020 : Greining á tölulegum upplýsingum síðustu níu mánaða

Barnaverndarstofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu fyrstu níu mánuði 2020 og borið saman við sama tímabil árin 2019 og 2018. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í sérstakri skýrslu sem gefin er út árlega. Einnig er að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á fyrstu níu mánuðum áranna 2018, 2019 og 2020.

Lesa meira

21. sep. 2020 : Viðbrögð Barnaverndarstofu vegna Covid-19 veirunnar

Afgreiðsla í Borgartúni 21 verður lokuð en tekið er á móti pósti. Símsvörun í 530 2600 frá kl. 10 til 12 og 13 til 15. Alltaf hægt að senda netpóst á bvs@bvs.is

Lesa meira

07. sep. 2020 : Samanburður á tölum fyrstu sex mánuði 2018 – 2020

Barnaverndarstofa hefur tekið saman tölur vegna fyrstu 6 mánuði ársins og borið saman við tölur frá árinu 2018 og 2019

Lesa meira

01. sep. 2020 : Greining á tölulegum upplýsingum frá barnaverndarnefndum

Barnaverndarstofa hefur greint tölur sem borist hafa frá barnaverndarnefndum vegna tilkynninga sem bárust í júní og júlí 2020 og borið þær saman við tölur í maí 2020 og tölur frá 1. janúar 2019 til og með 29. febrúar 2020

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica