Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2004-2005

8 sep. 2006

Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2004-2005 er nú í prentun og verður henni dreift á næstunni til allra samstarfsaðila stofunnar. Hægt er að nálgast skýrsluna hér og einnig á heimasíðunni undir útgefið efni.

Í formála skýrslunnar er umfang starfsins tekið saman. Þar kemur fram að umfang starfs barnaverndarnefnda heldur áfram að vaxa enn eitt árið. Þannig var fjöldi þeirra barna sem nefndirnar og starfslið þeirra höfðu afskipti af 5.643 árið 2004 og er það um 20% fjölgun á milli ára. Heildarfjöldi nýrra barnaverndartilkynninga á árinu 2004 var 5.555 og samkvæmt sískráningartölum fyrir árið 2005 voru þær 5.879. Á síðasta ári bárust því alls um 16 tilkynningar til barnaverndarnefnda á Íslandi dag hvern alla daga ársins. Sambærileg tala fyrir fimm árum síðan var 11 tilkynningar á dag og hefur því árleg fjölgun numið að meðaltali einni tilkynningu á degi hverjum allt þetta tímabil. Sú stöðuga fjölgun barnaverndarmála sem fyrrgreindar tölur bera ótvíræðan vott um bendir til að álag á starfsfólk í barnavernd hafi aukist verulega nema orðið hafi samsvarandi aukning í mannahaldi barnaverndarnefndanna.

Á árunum 2004 og 2005 komu fram margvíslegar vísbendingar sem telja verður jákvæðar í barnaverndarmálum. Þannig sýndu kannanir á meðal grunnskólanema að heldur hefur dregið úr neyslu á áfengi og öðrum vímugjöfum á undanförnum árum, aðsókn á meðferðarstofnanir hefur jafnframt skroppið saman og tölur frá lögreglu benda til að afbrot ungmenna hafa almennt ekki aukist. Umsóknir á meðferðarheimili Barnaverndarstofu héldu áfram að fækka og voru alls 167 árið 2005, sem er um þriðjungs fækkun frá mesta fjölda sem var árið 2002.

Ekkert lát er á tilvísun mála í Barnahús en árið 2005 voru tekin 186 rannsóknarviðtöl við börn sem grunur lék á að sætt hefðu kynferðisofbeldi og er það nálægt árlegu meðaltali frá upphafi starfseminnar. Skýrslutökur fyrir dómi voru aðeins um 22% af rannsóknarviðtölum árin 2004 og 2005. Bæði árin þurftu fleiri börn að mæta í dómhús en í Barnahús vegna skýrslutöku. Enda þótt flestir dómstólar í landinu færi sér Barnahúsið í nyt hafa dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur ekkert notað Barnahúsið á tímabilinu en í því umdæmi eru fleiri kynferðisbrotamál tekin til meðferðar en samanlagt í umdæmum annarra dómstóla landsins. Börn úr Reykjavík geta því þurft að fara í skýrslutöku, læknisskoðun, greiningu og meðferð á marga staði. Að mati Barnaverndarstofu er hér um fullkomlega óviðunandi ástand að ræða. Ekki síður verður það að teljast dapurlegt að læknisskoðanir í Barnahúsi lágu niðri í rúmt ár, frá miðju ári 2004 fram til hausts 2005, vegna þess að Landspítali-háskólasjúkrahús taldi sig ekki hafa fjármuni til að sinna þessari þjónustu.

Enda þótt starfsemi Barnahúss hafi um margt orðið fyrir áföllum árin 2004 og 2005, hefur hún orðið öðrum þjóðum hvatning. Í kjölfar heimsóknar hennar hátignar Sylviu drottningu Svíþjóðar í Barnahús haustið 2004 beitti hún sér fyrir stofnun Barnahúsa í heimalandi sínu með afgerandi hætti. Barnaverndarstarfi á Íslandi var sýndur mikill heiður þegar undirritaður var beðinn um að flytja ávarp við opnunarvígslu fyrsta Barnahússins í Linköping haustið 2005. Þegar þetta er ritað hefur verið ákveðið að Barnahús taki til starfa í a.m.k. sex borgum í Svíþjóð fyrir árslok 2006. Þá samþykkti norska Stórþingið á árinu 2005 að setja á stofn Barnahús að íslenskri fyrirmynd og heimsótti undirbúningsnefndin Ísland í lok síðasta árs. Þá má geta að Unicef og Evrópuráðið fólu undirrituðum að flytja erindi um Barnahús á fundi ríkja Evrópu og Mið-Asíu í Slóveníu 2005 um kynferðisbrotamál gegn börnum sem verður að teljast mikil alþjóðleg viðurkenning. Lok skal þess getið að Barnahúsið var tilnefnt til verðlauna sem alþjóðabarnaverndarsamtökin ISPCAN veita haustið 2006 fyrir framúrskarandi úrræði í barnavernd. Allt þetta er starfsfólki Barnahúss og Barnaverndarstofu hvatning til að vinna á þeim hindrunum sem eru á veginum hér á landi.

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica