Afdrifakönnun hjá unglingum á meðferðar- og skólaheimilinu Háholti

11 feb. 2008

Barnaverndarstofa fékk Jón Björnsson sálfræðing til að gera afdrifakönnun hjá unglingum sem dvöldu á Meðferðar- og skólaheimilinu Háholti á tímabilinu 1999 til ársloka 2004.

Að Háholti vistast unglingar á aldrinum 15 – 18 ára. Meginmarkmiðin í meðferðarvinnunni er að vekja áhuga unglinganna á að takast á við vandamál sín og koma í veg fyrir að þeir haldi áfram að skaða sjálfa sig og jafnvel aðra, sem og að efla ábyrgð unglinganna, þrek, félagsanda og víðsýni. Unglingarnir taka þátt í heimilisstörfum, þeir stunda vinnu, íþróttir, hestamennsku og ferðalög til fjalla. Unglingarnir taka einnig þátt í einkaviðtölum, hópmeðferð og fjölskyldusamstarfi.

Könnun þessi tók til þeirra 51 unglings sem dvöldu á Háholti á þessu tímabili. Rætt var við þá sjálfa og foreldra þeirra á tímabilinu mars 2005 til feb. 2007. Meðalaldur unglinganna frá Háholti er viðtal var tekið voru 20 ár. Að meðaltali voru liðnir 41 mánuður frá útskrift, lengst 76 mánuðir, skemmst 11 mánuðir en meðaldvalartími þeirra var 214 dagur.

Meginrannsóknarspurningarnar voru skilgreindar svo áður en könnunin hófst:
1. Hver er árangur meðferðarinnar eftir dvöl á Háholti gagnvart þeim vandamálum sem leiddu á sínum tíma til vistunarinnar þar?
2. Hvaða þættir hafa áhrif á þennan árangur?

Tvær meginályktanir má draga af niðurstöðum könnunarinnar:
1. Dvöl á Háholti ein og sér varð ekki þess valdandi að unglingarnir snéru frá villu síns vegar, heldur tóku flestir upp fyrri hætti fljótlega eftir útskrift. Hins vegar urðu margir til þess að leita ítrekað eftir frekari meðferð í öðrum úrræðum samfélagsins. Hluti hópsins náði góðum árangri, með annan hluta gat brugðið til beggja vona en þriðji hlutinn var í slæmum málum.
2. Þrátt fyrir þetta voru skjólstæðingar Háholts jákvæðir í garð meðferðarinnar og töldu sig flestir hafa lært af dvölinni og um helmingur þeirra töldu að einstakir starfsmenn eða heimilið hefði hjálpað sér hvað mest í lífinu. Foreldrar voru almennt sama sinnis.

Helstu niðurstöður
Á Háholti fer fram mest gæsla allra meðferðarheimila á vegum Barnaverndarstofu. Þar eru að öðru jöfnu vistaðir erfiðustu unglingarnir sem koma til kasta Stofunnar og þeir sem álitnir eru illviðráðanlegastir í 2 – 3 árgöngum hverju sinni. Af þessari ástæðu einni er ekki við því að búast að dvöl á Háholti geti skilað árangri nema að takmörkuðu leyti.

Unglingarnir sem vistast á Háholti eiga oft að baki langa sögu margháttaðra vandamála; vandræða í skóla, ósamkomulags á heimili, neyslu fíkniefna, afbrota. Verulegur hluti þeirra á við athyglisbrest að stríða og ofvirkni. Margir koma frá brotnum heimilum og eiga erfið áföll að baki. Allir unglingarnir á Háholti hafa verið í meðferð af einhverju tagi áður en þeir koma þangað; sumir hafa oft verið í meðferð á mismunandi stöðum, sumir lengi. Undangengnar tilraunir til meðferðar hafa ekki skilað árangri.

Unglingar vistast langoftast gegn vilja sínum á Háholti og af illri nauðsyn. Eftir aðlögunartíma sætta þeir sig þó flestir allvel við dvölina þar. Þeir láta yfirleitt vel af starfsfólki, viðmóti í sinn garð, aga og dagskrá.

Meðaldvalartími unglinganna var 214 dagar. Flestir foreldranna telja að dvölin hafi verið of stutt, flestum unglinganna þykir hún hafa verið of löng.

Unglingum og foreldrum finnst í flestum tilvikum að gagn hafi verið að dvölinni. Þetta gagn fólst í ýmsu, m.a. að unglingurinn var tekinn úr umferð/neyslu og fékk tóm til að taka út þroska, persónuleg tengsl, rammi og fastar skorður, að áfanga var lokið í skólanámi.

Flestir unglinganna telja ekki að þeir hafi orðið fyrir slæmum áhrifum af öðrum unglingum sem voru samtímis þeim á Háholti. Þetta telja hins vegar margir að hafi verið tilfellið í fyrri meðferðardvöl á Stuðlum.

Aðspurðir um hver/hvað hefði hjálpað best í erfiðleikum sínum skipuðu unglingar fagfólki ofar en fjölskyldunni.

Valin voru viðmið til þess að greina að þrjá hópa sem nefndir voru hinir efnilegu, hinir óefnilegu og hinir óráðnu.
Fjórtán unglingar, hinir efnilegu, sýndu merki um að þeir nálguðust venjulega lífshætti jafnaldra sinna og hefðu erfiðleikana að baki. Átján unglingar, hinir óefnilegu, sýndu þess merki að þeir hefðu fjarlægst venjulega lífshætti jafnaldra sinna enn meira en tilfellið var við útskriftina af Háholti. Átján unglingar, hinir óráðnu, virtust geta brugðið til beggja átta. Verulegan fyrirvara verður að hafa um varanleika þessarar flokkunar.

Það sem aðgreindi óefnilega hópinn helst frá hinum efnilega var:
• í honum voru mun fleiri drengir en stúlkur
• það var skemmri tími liðinn frá útskrift frá Háholti
• hann var árinu yngri að meðaltali
• dvalartíminn á Háholti var lengri
• dvalartíminn var oftar rofinn
• áætlun um aðhald eftir útskrift var síður haldin
• hann tók oftar og fyrr eftir útskrift upp sama atferli og olli vistuninni
• vandkvæði hófust fyrr á ævinni.

Af ýmsum ástæðum er örðugt að meta árangur af unglingameðferð. Álitamál er hvað skuli kalla árangur og hversu löngu eftir að meðferð lýkur sé rétt að meta hann.

Hér má sjá skýrsluna í heild.

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica