Afmæli Barnahúss

6 nóv. 2008

Barnahús fagnaði 10 ára afmæli laugardaginn 1. nóvember sl. í Þjóðmenningarhúsinu. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson flutti opnunarávarp en auk hans fluttu ávarp Hrannar Björn Arnarsson aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra, fyrir hönd Jóhönnu Sigurðardóttur félags- og tryggingamálaráðherra, Carl Göran Svedin barnageðlæknir og prófessor við Háskólann í Linköping og Chris Newlin framkvæmdastjóri The National Children´s Advocacy Center í Bandaríkjunum. Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu lauk dagskrá afmælishátíðarinnar með því að þakka sérstaklega þremur einstaklingum fyrir sérstakt framlag á starfstíma Barnahúss þeim Vigdísi Erlendsdóttir fyrrv. forstöðumanni Barnahúss, Jóni Kristinssyni barnalækni og Ólöfu Pétursdóttur dómstjóra sem lést fyrr á árinu.

Í tilefni afmælisins efndi Barnaverndarstofa til málþings dagana 31. október og 1. nóvember. Málþingið sóttu m.a. 14 fulltrúar Barnahúsa í Svíþjóð og Noregi auk þeirra Carl Göran Svedin barnageðlæknis og prófessors við Háskólann í Linköping og Chris Newlin framkvæmdastjóra The National Children´s Advocacy Center, USA.

Á málþinginu fjallaði Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu m.a. um aðdragandan að stofnun Barnahúss hér á landi og mikilvægi þess að Barnahúsin á Norðurlöndum ættu með sér samstarf í framtíðinni, ekki síst á sviði rannsókna og fræðslu. Chris Newlin ræddi um mikilvægi þess að öll börn heimsins hefðu aðgang að Barnahúsi og fór yfir þætti sem eru sameiginlegir fyrir Barnahús þó löggjöf sé ólík milli landa. Hann benti á að til að takast á við ofbeldi gegn börnum sé nauðsynlegt að opna umræðuna. Alltaf er litið á ofbeldi gegn börnum sem málefni barna en ekki má gleyma því að börn verða fullorðin og ofbeldi gegn börnum hefur áhrif á líf þeirra á fullorðinsárum. Benti hann á nauðsyn þess að setja þennan málaflokk í efnahagslegt samhengi en í dæmaskyni nefndi hann að í Bandaríkjunum er 16% hærri heilbrigðiskostnaður vegna kvenna sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku og 36% hærri ef þær urðu bæði fyrir kynferðis- og líkamlegu ofbeldi.

Fulltrúar Barnahúsanna í Svíþjóð, Noregi og Íslandi kynntu starfsemina í hverri borg fyrir sig, þau starfa með ólíku sniði en það sem er sammerkt með þeim öllum er að barnið er sett í fókus og unnið samkvæmt þverfaglegri nálgun og þvert á stofnanir. Ólöf Ásta Farestveit forstöðumaður Barnahúss á Íslandi fór yfir starfsemi hússins en alls hafa 2001 barn notið þjónustu Barnahúss þessi 10 ár en hér má sjá nánari tölfræðiupplýsingar. Carl Göran Svedin fjallaði um mikilvægi samstarfs Barnahúsa til framtíðar. Á málþinginu gafst starfsmönnum Barnahúsanna tækifæri til þess að koma hugmyndum sínum og reynslu á framfæri og setja sér markmið til framtíðar. Niðurstaða umræðna var að öflugt samtarf væri til þess fallið að auka þekkingu og fagmennsku. Því bæri að stefna að því að fulltrúar frá öllum Barnahúsunum kæmu saman árlega til þess að bera saman bækur sínar. Var m.a. ákveðið að vinna að fyrirkomulagi á samstarfi á milli stofnananna í framtíðinni, samræmingu á gagnagrunni og gerð gæðastaðla sem lagðir yrðu til grundvallar þeim faglegu kröfum sem gera verður til Barnahúsa.

Nýjustu fréttir

12. maí 2022 : Nýir starfsmenn Barna- og fjölskyldustofu

Ráðningar forstöðumanna á meðferðarheimilum

Lesa meira

14. mar. 2022 : Náum áttum - Skóli fyrir öll börn. Lausnir og tækifæri til farsældar.

Morgunverðarfundur miðvikudaginn 16. mars 2022 kl. 8:30-10:00 á ZOOM

Lesa meira

04. mar. 2022 : Opnun Barna- og fjölskyldustofu

Í gær var haldin formleg opnun Barna- og fjölskyldustofu. Af því tilefni færði Ásmundur Einar Daðason Mennta- og barnamálaráðherra Ólöfu Ástu Farestveit forstjóra Barna- og fjölskyldustofu fallega mynd af hjarta með þeim orðum að stofan væri hjartað í barnaverndarkerfinu. 

11. feb. 2022 : 112-dagurinn – ofbeldi og rétt samskipti við neyðarverði 112

Þann 11. febrúar ár hvert heldur Neyðarlínan upp á 112 daginn, til að minna á neyðarnúmer allra landsmanna

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica