Foreldraefling

17 nóv. 2008

Á málstofu sem haldin var hjá Barnaverndarstofu þann 17. nóvember kynntu aðstandendur miðstöðvar foreldra og barna „Foreldraeflingu“ sem er hópmeðferð sem fer fram einn dag í viku í 14 vikur. Markhópurinn er mæður sem eiga börn 1- 5 ára.

Algengar ástæður tilvísana:
• Barn þroskast ekki eðlilega, sýnir vanlíðan eða hegðunarerfiðleika.
• Foreldri myndar ekki heilbrigð tengsl við barn sitt.
• Heimilisofbeldi, geðheilsuvandi eða fíkn foreldris/foreldra.
• Barn er undir eftirliti barnaverndaryfirvalda.

Meðferðin byggist á samþættingu sálgreiningar, tengslakenningar, atferlismótunar og fræðslu en fyrirmyndin er fengin frá Mellow Parenting í Skotlandi. Markmiðið er að meðhöndla vanlíðan mæðra sem eiga ung börn, efla samband þeirra við börn sín og þar með þroska og velferð barnanna. Forsenda fyrir þátttöku í meðferðinni er áhugahvöt mæðra og er líðan og samskipti mæðra við börn sín skoðuð í ljósi reynslu þeirra. Ekki er haldið á lofti ákveðinni uppeldisaðferð heldur er lögð áhersla á íhugun, fjölbreytni og virðingu fyrir ólíkum þörfum ólíkra einstaklinga. Meðferðaraðilar eru ekki í hlutverki sérfræðinga sem koma með lausnir heldur tekur allur hópurinn þátt í að finna nýjar leiðir. Unnið er að því að efla mæður svo þær verði virkir og íhugulir foreldrar.

Meðferðin er tvískipt og fer fram í hópum með tveimur meðferðaraðilum. Fyrir hádegi vinna mæður með persónulega sögu sína, s.s. upprunafjölskyldu, barnæsku, núverandi samband, úrvinnslu tilfinninga og framtíðaráætlanir. Eftir hádegi skoða þær sjálfar sig í móðurhlutverkinu. Í þeirri vinnu eru greind myndbönd sem tekin voru upp á matmálstíma fjölskyldunnar og farið er yfir verkefni sem mæðurnar vinna heima á milli meðferðartíma. Starfsfólk annast börnin á meðan mæðurnar eru í hópvinnunni. Í hádeginu borða allir saman mæður, börn og starfsfólk. Síðan taka allir þátt í leikjum, útivist eða æfingum sem tengjast daglegu lífi fjölskyldunnar (t.d. verslunarferðir). Mæður fá heimaverkefni til að æfa sig í því sem þær hafa lært.

Um er að ræða gagnreynda meðferð sem er metin með myndbandsupptökum og matslistum. Niðurstöður rannsókna í Bretlandi hafa sýnt að samskipti móður og barns batna, það dregur úr hegðunarerfiðleikum barna, móður líður betur og er öruggari uppalandi auk þess sem börnum fer fram í þroska. Við eftirfylgd eftir 18 mánuði hafa enn frekari jákvæðar breytingar komið í ljós.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við aðstandendur verkefnisins:

Anna María Jónsdóttir geðlæknir, annam@laekning.is s:6619401
Helga Hinriksdóttir hjúkrunarfr., helgahin@reykjalundur.is s:5852000
Stefanía Arnardóttir hjúkrunarfr., stefania.arnardottir@hhjuk.hg.is s:5131300
Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir, saeunn@simnet.is s:5811148

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica