Sakfellt í kynferðisbrotamáli í Árbót – yfirlýsing Barnaverndarstofu

4 feb. 2010

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra hinn 3. febrúar sl. þar sem starfsmaður meðferðarheimilisins í Árbót var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum sem vistaðar voru á heimilinu er sögulegur; aldrei fyrr hefur sannast fyrir dómi að börn hafi sætt kynferðisofbeldi af hálfu starfsmanns uppeldisstofnunar á Íslandi. Í ljósi umræðu undanfarinna ára um brot gegn börnum sem vistuð voru á barnaverndarstofnunum fyrri tíma má hins vegar vera ljóst að börn á stofnunum hafa áður sætt ofbeldi af þessu tagi hérlendis. Hafi menn gert sér vonir um að glæpir gegn börnum á stofnunum einskorðist við fortíðina er dómurinn þörf áminning um að halda vöku sinni. Það er hins vegar þyngra en tárum taki að horfast í augu við þá staðreynd að ekki sé unnt að tryggja öryggi barna inn á barnaverndarstofnunum þar sem þau eiga rétt á skjóli og sérstakri vernd.

Umræddur dómur er þó fagnaðarefni í þessu sorglega máli. Hann gefur von um að sá tími sé liðinn að siðblindir einstaklingar komist upp með að níðast á berskjölduðum börnum án þess að sæta afleiðingum. Hann er vísbending um að eftirlits- og viðbragðskerfi barnaverndaryfirvalda, lögregla, ákæruvald og dómstólar rísi nú undir þeirri ábyrgð sem þessum aðilum er ætlað að axla. Framgang málsins skal þó fyrst og fremst þakka brotaþolum, ungu stúlkunum sem sýndu kjark með því að segja frá þeim brotum sem þær máttu sæta. Barnaverndaryfirvöld verða að sjá til þess að allt sé gert sem unnt er að veita þeim viðeigandi hjálp og stuðning.

Frá því að fyrstu vísbendingar komu fram að starfsmaður meðferðarheimilisins hafi hugsanlega brotið gegn börnum í Árbót hafa Barnaverndarstofa, viðkomandi barnaverndarnefndir og lögregla gert allt sem í þeirra valdi hefur staðið til þess að upplýsa málið og koma lögum yfir þann sem brotin framdi. Á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins var gerð sérstök úttekt á framkvæmd eftirlits Barnaverndarstofu með starfsemi meðferðarheimila í ljósi umrædds máls og var niðurstaða þess í meginatriðum sú að á því væru ekki að finna brotalamir. Mikilvægt er hins vegar að gera sér grein fyrir því að ekkert eftirlitskerfi getur veitt fullkomna tryggingu fyrir því að kynferðisbrot gegn börnum eigi sér ekki stað á stofnunum þar sem þau dvelja. Þá eru engar aðferðir til sem unnt er að beita til að koma í veg fyrir að menn með annarlegar hvatir til barna ráðist til starfa á þessum stofnunum. Í þessu ljósi skiptir miklu að þeir sem starfa við meðferð barna búi yfir góðri þekkingu á eðli kynferðisbrota gegn börnum, sýni árvekni í starfi og umfram allt hlusti á börn og bregðist við frásögn þeirra. Barnaverndarstofa hefur í ljósi umrædds máls sett ítarlegri reglur um viðbrögð starfsfólks en áður hafa gilt svo lærdóm megi draga af þessu dapurlega máli (sjá: http://www.bvs.is/files/file825.pdf)

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica