Óábyrg fréttamennska

28 apr. 2011

Dagana 17., 18. og 19. apríl sl. fjallaði fréttastofa RUV um mál sem verið hafði til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstarétti nýlega og laut m.a. að meintu kynferðisbroti manns gegn ellefu ára stúlku. Í ljósi fréttaflutningsins skal áréttað að um kærumál var að ræða, sem fjallaði um kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um umrætt brot. Ekki var því um það að ræða að dómstólar hefðu til umfjöllunar barnaverndarmál þessarar tilteknu stúlku, heldur laut úrskurður dómstóla einungis að rannsókn lögreglu í umræddu sakamáli.

Í fréttaflutningi er m.a. staðhæft að þrátt fyrir margar tilkynningar til barnaverndarnefndar á átta ára tímabili um kynferðislega misnotkun af hálfu stjúpföður barnsins, líkamlegt ofbeldi og vanrækslu hafi barnaverndarnefnd ýmist ekki rannsakað málið eða að ekki hafi verið „aðhafst frekar“ í málinu fyrr en nú. Í þessu samhengi m.a. var leitað álits framkvæmdastjóra Barnaheilla á meintu aðgerðarleysi barnaverndarnefndar Reykjavíkur þar sem þau orð voru látin falla að slíkt væri til þess fallið að “ræna börn bernsku sinni”. Ekki verður ráðið af fréttinni á hvaða gögnum þau ummæli byggja.

Barnaverndarstofa hefur eftirlitsskyldu með starfsemi barnaverndarnefnda og er heimilt að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði. Í ljósi ofangreinds fréttaflutnings taldi stofan rétt að kalla eftir öllum gögnum málsins í því skyni að kanna réttmæti þessara ávirðinga sem beinast að þeim barnaverndarnefndum sem komu að vinnslu málsins.

Niðurstaða athugunar Barnaverndarstofu er sú að fréttaflutningur RUV af umræddu máli sé ámælisverður, ýmist villandi og/eða beinlínis rangt farið með staðreyndir. Ekki er fótur fyrir þeirri staðhæfingu að ekki hafi verið brugðist við tilkynningum vegna málsins til barnaverndarnefnda og að ekkert hafi verið aðhafst í kjölfarið. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að viðkomandi barnaverndarnefndir hafi fyllilega sinnt rannsóknarskyldu sinni í hvert sinn sem ábendingar bárust. Þá var jafnan gripið til ýmissa stuðningsúrræða sem á hverjum tíma voru metin viðeigandi af hálfu nefndanna m.t.t. þarfa barnsins og forsjáraðila þess. Þannig liggja fyrir niðurstöður rannsókna, fjölmargar skýrslur og álitsgerðir frá ýmsum stofnunum, sérfræðingum og meðferðaraðilum sem viðkomandi barnaverndarnefndir hafa aflað, m.a. frá skólum, heilbrigðisþjónustu, lögreglu, ákæruvaldi og Barnahúsi, í kjölfar tilkynninga vegna málsins á því átta ára tímabili sem málið hefur verið til meðferðar af hálfu viðkomandi barnaverndarnefnda.

Rétt er að taka fram að athugun Barnaverndarstofu beindist fyrst og fremst að þeim þáttum málsins sem fjallað er um í fréttum RUV, þ.e.a.s. rannsóknarskyldu barnaverndarnefnda sem og meintu aðgerðarleysi í kjölfar tilkynninga til barnaverndarnefnda. Þannig felst ekki í niðurstöðu stofunnar heildstætt mat á einstökum málsatvikum enda krefst slíkt mat mun ítarlegri rannsóknar á framvindu málsins en gerð hefur verið.

Það er von Barnaverndarstofu að fréttaflutningur RUV af barnaverndarmálum verði ábyrgari í framtíðinni og að fréttastofan beri virðingu fyrir þagnarskyldu barnaverndarstarfsmanna og þeim takmörkunum sem hún setur tjáningu þeirra í einstökum málum.

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica