Breytingar á barnaverndarlögum

6 okt. 2011

Í júlí 2008 skipaði félags- og tryggingamálaráðherra starfshóp til að meta reynsluna af barnaverndarlögum nr. 80/2002 og skoða nauðsyn þess að breyta lögunum og framkvæmd þeirra. Hópinn skipuðu þau Hrefna Friðriksdóttir f.h. Barnaverndarstofu, Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir f.h. Reykjavíkurborgar, Guðjón Bragason f.h. Sambands ísl. sveitarfélaga, María Kristjánsdóttir f.h. samtaka félagsmálastjóra og Þorgerður Benediktsdóttir f.h. ráðuneytis. Hópurinn skilaði frumvarpi til breytinga á lögunum og samantekt um reynsluna. Ekki er um að ræða heildarendurskoðun laganna en lagabreytingarnar fela í sér nokkur nýmæli, skýra ákvæði frekar og lögfesta túlkun ákvæða. Flest ákvæði taka gildi strax en gildistöku einstakra ákvæða er frestað til 1. janúar 2013. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi í júní 2011.

Lagabreytingarnar varða m.a. upphaf máls þar sem m.a. er skerpt á tilkynningarskyldu vegna þungaðra kvenna og tilkynningarskylda lögreglu er betur afmörkuð. Lagabreytingarnar taka einnig til meðferðar máls, m.a. rétt barnaverndarnefndar á að fá afrit af nauðsynlegum gögnum um heilsu barns, foreldra og annarra heimilismanna. Þá er barnaverndarnefnd heimilað að úrskurða um að fagaðilum sem vinna með málefni barns og lögreglu verði látnar í té upplýsingar um líðan barns og meðferð máls ef það er talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins. Þá taka lagabreytingarnar til kæruheimilda til kærunefndar barnaverndarmála. Heimilt er t.d. að kæra til kærunefndar ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli en ekki t.d. val barnaverndarnefndar á þeim sem annast barn sem vistað er utan heimilis.

Nýmæli eru í lögunum varðandi fóstur þar sem m.a. er kveðið á um reglugerð um framfærslueyri, fósturlaun og útlagðan kostnað. Þá gera lagabreytingarnar ráð fyrir að barnaverndanefnd kanni grundvöll þess að ráðstafa barni til hins foreldrisins í þeim tilvikum sem foreldrar búa ekki saman og nauðsynlegt er að vista barn utan heimilis. Þá er gerður greinarmunur á því hvort foreldrið sem barni er ráðstafað til fari með forsjá þess eða ekki.

Komið er inn á eftirlit og mat á gæðum þar sem m.a. er gerður greinarmunur á gæðastarfi og eftirliti og verkaskiptingu hvað varðar eftirlit. Lagabreytingarnar gera ráð fyrir breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi úrræði en samkvæmt breytingunum mun ríkið, frá 1. janúar 2013, bera alla ábyrgð á að byggja upp úrræði fyrir börn sem vistast utan heimilis.

Hrefna Friðriksdóttir sem fór fyrir vinnuhópi ráðuneytisins hefur fjallað um breytingar á barnaverndarlögum og áhrif þeirra á barnaverndarstarfið á málstofum á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Fyrri málstofan var haldin 12. september sl. og endurtekin 26. september sl. þar sem færri komust að en vildu. Síðari málstofan er aðgengileg á vefsíðu Barnaverndarstofu sjá nánar hér.

Nýjustu fréttir

19. okt. 2021 : Samanburður á fjölda tilkynninga fyrstu 9 mánuði 2019-2021

Tilkynningum vegna kynferðislegs ofbeldis fjölgar

Lesa meira

12. okt. 2021 : Náum áttum - morgunverðarfundur miðvikudaginn 13. október 2021 kl. 8:30-10:00 á Zoom

Náum áttum er samstarfshópur um fræðslu- og forvarnarmál eftirfarinna aðila: Barnaheill-Save the Children á Íslandi, Barnaverndastofa, Embætti landlæknis, Félag fagfólks í frístundaþjónustu, FRÆ Fræðsla og forvarnir, Heimili og skóli, IOGT á Íslandi, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umboðsmaður barna, Vímulaus æska/Foreldrahús og Þjóðkirkjan.

 

Yfirskift fundarins er: Leiðir að félagsfærni og vellíðan barna í skólum og er fundurinn opinn öllum sem hafa áhuga. Nánari upplýsingar um fundinn má nálgast hér .

Skráning fer fram á naumattum.is

Hjólabrettastelpa

23. ágú. 2021 : Samanburður á fjölda tilkynninga fyrstu 6 mánuði 2019-2021

Tilkynningum vegna kynferðislegs ofbeldis fjölgar

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica