Efling foreldrafærni

30 nóv. 2011

Hinn 18. nóvember sl. stóð Heimili og skóli fyrir málþingi undir yfirskriftinni „FORELDRADAGURINN 2011 – FORELDRAFÆRNI“ en málþingið var haldið í Háskólanum í Reykjavík. Markmiðið var að veita hagnýtar upplýsingar um uppeldisaðferðir, hvetja til umræðu um foreldrafærni og að foreldrar ígrundi foreldrahlutverkið. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra setti málþingið og vitnaði hann m.a. til aðgerðaáætlunar ríkisstjórnar Íslands frá árinu 2007 sem ætlað var að styrkja stöðu barna og ungmenna. Áætlunin kveður á um aðgerðir m.a. á grundvelli tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins um aðgerðir til að efla foreldrahæfni. Fram kom í máli ráðherra að margt hefur áunnist og vinna við nýja aðgerðaáætlun er þegar hafin. Ávarp ráðherra má nálgast hér.

Fyrirlesarar voru þau Steinunn Bergmann félagsráðgjafi, Gylfi Jón Gylfason sálfræðingur og Hugo Þórisson sálfræðingur. Steinunn fjallaði um foreldrahæfni og þá þætti sem foreldrar standa frami fyrir í hlutverki sínu. Tók hún m.a. undir orð ráðherra og vitnaði til tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins þar sem finna má mikilvæg boð til foreldra um hvað foreldrahæfni felur í sér og leiðbeiningar til fagfólks um hvernig má styðja við foreldrahæfni. Forstjóri Barnaverndarstofu tók virkan þátt í þessari vinnu á vegum ráðherranefndarinnar, hann stóð fyrir því að tilmælin yrðu þýdd á íslensku og eru þau aðgengileg á vefsíðu Barnaverndarstofu. Gylfi Jón ræddi um SOS-námskeið sem öllum foreldrum tveggja ára barna í Reykjanesbæ er boðið að sækja. Telur hann SOS-krefið henta ákaflega vel fyrir leikskólabörn en virkar þó fyrir börn á aldrinum tveggja til tólf ára. Hins vegar þurfi að huga að öðrum aðferðum vegna unglinga. Hugo benti á aðferðir við að byggja upp þroskuð samskipti s.s. að taka ákvörðun um að bregðast hegðun við með ákveðnum hætti. Við þyrftum að temja okkur að tala þannig að börnin hlusti og á það bæði við um foreldra og fagfólk. Þá gætum við breitt viðhorfum til mistaka og hvaða orð við notum í samskiptum. Hugo gaf nýlega út bókina „Hollráð Hugos“ þar sem hann deilir reynslu sinni og útskýrir á einlægan og líflegan hátt hugmyndir sínar um uppeldi . Að loknum erindum var boðið upp á fyrirspurnir úr sal þar sem Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi sat fyrir svörum ásamt fyrirlesurum. Benti Sigrún m.a. á bók Hugos og bókina „Velferð barna – Gildismat og ábyrgð samfélagsins“ þar sem þrettán höfundar á sviði félagsráðgjafar, guðfræði, heimspeki, næringarfræði, sálfræði og uppeldisfræði fjalla um siðferðileg álitamál tengd börnum og skilyrði þess að þeim geti farnast vel. Þessar bækur ásamt bók Sæunnar Kjartansdóttur „Árin sem engin man“ eru dæmi um nýlegar íslenskar bækur sem geta aðstoðað foreldra sem vilja ígrunda hlutverk sitt.

Að loknu kaffihléi og markaðstorgi þjónustuaðila var boðið upp á vinnustofur þar sem þátttakendur gátu valið úr fjórum vinnustofum. Þar fjallaði Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur um unglinga og samskipti, Páll Ólafsson félagsráðgjafi um Uppbyggingarstefnuna, Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir um umönnun ungbarna og Hafþór Birgisson tómstunda- og félagsmálafræðingur um tölvunotkun.

Barnaverndarstofa fagnar þessu framtaki Heimilis og skóla því efling foreldrafærni er lykilatriði hvað varðar forvarnir og getur komið í veg fyrir vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnum sem og áhættuhegðun unglinga. Snemmtæk íhlutun gegnir þar lykilhlutverki og þurfa foreldrar að vita hvert þeir geta leitað þegar þeir þurfa stuðning. Meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu hafa undanfarin ár beinst í auknum mæli að eflingu foreldrafærni og má þar nefna innleiðingu Fjölkerfameðferðar (MST) og samning við Akureyrarbæ um þróun PMT-aðferðarinnar til að vinna með hegðunarvanda unglinga.

Nýjustu fréttir

12. maí 2022 : Nýir starfsmenn Barna- og fjölskyldustofu

Ráðningar forstöðumanna á meðferðarheimilum

Lesa meira

14. mar. 2022 : Náum áttum - Skóli fyrir öll börn. Lausnir og tækifæri til farsældar.

Morgunverðarfundur miðvikudaginn 16. mars 2022 kl. 8:30-10:00 á ZOOM

Lesa meira

04. mar. 2022 : Opnun Barna- og fjölskyldustofu

Í gær var haldin formleg opnun Barna- og fjölskyldustofu. Af því tilefni færði Ásmundur Einar Daðason Mennta- og barnamálaráðherra Ólöfu Ástu Farestveit forstjóra Barna- og fjölskyldustofu fallega mynd af hjarta með þeim orðum að stofan væri hjartað í barnaverndarkerfinu. 

11. feb. 2022 : 112-dagurinn – ofbeldi og rétt samskipti við neyðarverði 112

Þann 11. febrúar ár hvert heldur Neyðarlínan upp á 112 daginn, til að minna á neyðarnúmer allra landsmanna

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica