Flestir tilkynna um vanrækslu!

7 jún. 2013

Í frétt í Morgunblaðinu þann 7. júní  kemur fram að tölur staðfesti fjölgun á tilkynningum til barnaverndarnefnda. Verst á landsbyggðinni. Drengir í meirihluta. Sprenging í tilkynningum vegna kynferðisbrota  

Fréttin hljóðar á þennan veg.

Barnaverndarstofa birti í gær samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda fyrir fyrstu þrjá mánuði áranna 2012 og 2013. Fram kemur að tilkynningum hafi fjölgað um tæplega 13% fyrstu þrjá mánuði ársins 2013 samanborið við 2012. Fjöldi tilkynninga á þessu tímabili var 2.121 í ár, en á sama tíma í fyrra voru þær 1.879. Páll Ólafsson, sviðsstjóri ráðgjafar- og fræðslusviðs Barnaverndarstofu,
segir að horfa þurfi til eðlis tilkynninga þegar lagt er mat á ástæður fjölgunarinnar. „Kynferðislegt
ofbeldi fer til dæmis úr 122 tilkynningum í 187. Það stafar af þeirri sprengingu sem varð í byrjun
ársins í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um kynferðislegt ofbeldi. Aðsóknin í Barnahús þrefaldaðist
á fyrstu mánuðum ársins." Í ár eru tilkynningar flestar vegna vanrækslu, eða 35,9%. Fyrir sama tímabil í fyrra voru þær flestar vegna áhættuhegðunar barns, eða 37,5%. „Þetta er í fyrsta skipti sem hlutfall vanrækslumála fer upp fyrir mál vegna áhættuhegðunar." Tilkynningum frá nágrönnum hefur fjölgað og telur Páll það mögulega vera hluta skýringarinnar, oftast komi vanrækslutilkynningar úr þeirri átt.

Fjölgun á tilkynningum á landsbyggðinni var rúmlega 26%, en þeim fjölgaði um rúmlega 7% á höfuðborgarsvæðinu. Meira en tvöföldun á Akranesi Fjölgunin er sérlega mikil á Reykjanesi og Akranesi. Á Reykjanesi fóru tilkynningar úr 109 í 167, en á Akranesi fóru þær úr 18 í 49, sem er rúmlega tvöföldun. „Reykjanesbær er svæði sem virðist vera í erfiðri stöðu að mörgu leyti og við vitum af því. Þar er mikið atvinnuleysi og hátt hlutfall fólks sem á við félagsleg vandamál að stríða. Þar hefur verið mikil aðsókn í félagslega kerfið." Þegar hlutfall barnaverndarmála á hver 1.000 börn er skoðað er landsmeðaltalið 54,6 börn. Í Reykjanesbæ er það hins vegar 85 börn og því mun hærra. Páll segir þennan mun vera eitthvað sem virkilega þurfi að skoða. Hlutfall tilkynninga vegna drengja er 53,1% í ár og eru þeir því í meirihluta. Páll segir stöðuna vanalega vera slíka. „Tilkynningar vegna áhættuhegðunar eru í yfirgnæfandi meirihluta hjá drengjum. Varðandi ofbeldi í heild sinni eru stúlkur hins vegar í meirihluta. Ástæðan fyrir því er bæði kynferðislega og sálræna ofbeldið. Stúlkur eru og hafa verið þar í meirihluta."

Tölur um fjölda barna sem tilkynnt er um eru fengnar þannig að lagður
er saman fjöldi barna í hverjum mánuði fyrir sig. Tilkynningar geta borist um sama barnið á milli mánaða, þannig að ekki er alltaf um að ræða fjölda einstaklinga, heldur samanlagðan heildarfjölda.


Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica