Barnaverndarstofa 20 ára!

1 jún. 2015

Barnaverndarstofa hóf starfsemi 1. júní 1995 og því eru tuttugu ár frá stofnun hennar. Stofan er sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem fer með daglega stjórn barnaverndarmála í umboði velferðarráðuneytisins.

Starfsfólk barnaverndarnefnda á vegum sveitarfélaga sinna meðferð einstakra barnaverndarmála í sínu umdæmi en alls starfa 27 barnaverndarnefndir hér á landi. Meginverkefni Barnaverndarstofu greinast í tvö svið. Annars vegar margvísleg viðfangsefni sem lúta að starfsemi barnaverndarnefnda sveitarfélaga, svo sem eftirlit, fræðsla og ráðgjöf, söfnun upplýsinga. Hins vegar er það hlutverk stofunnar að fara með yfirumsjón sérhæfðra úrræða sem barnaverndarnefndir þurfa á að halda til að veita börnum viðeigandi stuðning og þjónustu, t.d. sérhæfð meðferðarúrræði, útvegun fósturforeldra og starf Barnahúss.

Bragi Guðbrandsson hefur veitt Barnaverndarstofu forstöðu frá upphafi en auk hans hefur Guðjón Bjarnason sálfræðingur starfað frá því að starfsemi hófst. Í dag starfa hátt í 90 starfsmenn hjá Barnaverndarstofu á aðalskrifstofu, í Barnahúsi, við Fjölkerfameðferð (MST), PMTO – foreldrafærni, á Stuðlum og á meðferðarheimilinu Lækjarbakka. Þá eru tvö sérhæfð meðferðarheimili rekin samkvæmt þjónustusamningi við Barnaverndarstofu þ.e. Laugaland í Eyjafjarðarsveit og Háholt í Skagafirði. Um tíma voru meðferðarheimilin alls átta en eftirspurn eftir slíkri þjónustu hefur minnkað stöðugt, sérstaklega með tilkomu Fjölkerfameðferðar (MST) árið 2008. Barnaverndarstofa veitir þjálfun, annast hæfnismat og veitir leyti til þeirra sem vilja gerast fósturforeldrar en barnaverndarnefndir leita til Barnaverndarstofu þegar þörf er á því að ráðstafa barni í fóstur. Frá árinu 2004 hefur verið boðið upp á Foster Pride námskeið fyrir fósturforeldra.

Með tilkomu Barnaverndarstofu var hafið markvisst umbótastarf í barnavernd á þeim sviðum sem ríkið ber ábyrgð á. Barnaverndarstofa hefur orðið fyrirmynd annarra þjóða varðandi skipan barnaverndarmála og má í því efni nefna Norðmenn og Færeyinga sem komið hafa á fót stofnunum sem gegna sambærilegu hlutverki. Stofnun Barnahúss árið 1998 gjörbreytti vinnubrögðum í málum barna þar sem grunur er um kynferðislegt ofbeldi og hefur Barnahúsið íslenska orðið fyrirmynd annarra þjóða. Alls eru starfandi barnahús í um 50 borgum á Norðurlöndunum og hefur Lanzarote nefnd Evrópuráðsins beint þeim tilmælum til aðildarríkja ráðsins að koma á fót starfsemi í anda Barnahús og er undirbúningur víða í Evrópu hafinn með fulltingi Barnaverndarstofu. Stofan hefur komið á fót tilraunaverkefnum í því skyni að styðja börn sem búa við heimilisofbeldi, fyrst hópmeðferð 2010-2012 og sérfræðiþjónustu á heimili vegna aðkomu lögreglu eftir útköll 2011-2013. Með flutningi Barnahúss í stærra húsnæði og fjölgun starfsmanna er einnig veitt þjónusta fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi og/eða verða fyrir líkamlegu ofbeldi í formi viðtala í kjölfar skýrslutöku fyrir dómi. Árið 2013 tók Barnaverndarstofa við miðstöð PMTO á Íslandi sem annast innleiðingu foreldrafærniþjálfunarinnar á landsvísu. Þá hefur Barnaverndarstofa unnið að undibúningi að innleiðingu gagnreyndra aðferða við greiningu á tilkynningum til barnaverndarnefnda sem unnt verður að leggja til grundvallar við gerð áætlana í málum einstakra barna. Valið hefur verið matskerfið ESTER sem þróað hefur verið í Svíþjóð en þjálfun barnaverndarstarfsmanna í beitingu þessara mælitækja hefst í ágúst á þessu ári.

Á vettvangi sveitarfélaga hafa orðið mikilvægar framfarir. Sveitarfélög hafa þróað ýmiss úrræði á vegum félags- og/eða skólaþjónustu sem barnaverndarnefndir geta virkjað, s.s. foreldrafræðslu og hópastarf fyrir börn. Þá hafa sveitarfélög þróað fjölbreytt úrræði í barnavernd út frá aðstæðum á hverjum stað. Í kjölfar tilraunaverkefna Barnaverndarstofu hafa mörg sveitarfélög farið af stað með tilraunaverkefni í samstarfi við lögreglu til að vinna gegn heimilisofbeldi.

Úrræði á vegum Barnaverndarstofu sem barnaverndarnefndir geta sótt um án þess að vista börn utan heimilis eru:
Barnahús, frá nóvember 1998
Fjölkerfameðferð (MST) frá nóvember 2008
Sálfræðiþjónusta fyrir börn sem sýna af sér óviðeigandi kynferðislega hegðun, frá september 2009

Nánari upplýsingar um hlutverk Barnaverndarstofu, meðferð barnaverndarmála og úrræði á grundvelli barnaverndarlaga er að finna hér á heimasíðu Barnaverndarstofu.


Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica