Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu

8 mar. 2017

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda fyrir árin 2014, 2015 og 2016. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu fyrir sömu ár.

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu nefndanna á árunum 2014, 2015 og 2016. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í ársskýrslu Barnaverndarstofu. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu fyrir árin 2014, 2015 og 2016.

Tilkynningar til barnaverndarnefnda
Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 9,1% á árinu 2016 miðað árið á undan. Hins vegar er fjölgunin 4,7% ef miðað er við árið 2014. Fjöldi tilkynninga á árinu 2016 var 9.310 tilkynningar. Til fróðleiks má geta þess að fjöldi tilkynninga hefur aðeins einu sinni í sögu barnaverndar verið hærri en árið 2016. Það var árið 2009, árið eftir bankahrunið hér á landi en þá bárust alls 9.353 tilkynningar.

Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á árinu 2016 um 5,9%, en á landsbyggðinni fjölgaði tilkynningum um 17% ef miðað er við árið á undan. Þess ber að geta að tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningarinnar.

Flestar tilkynningar á árinu 2016 voru vegna vanrækslu líkt og árin á unda en hlutfall tilkynning vegna vanrækslu var 39,5%. Tilkynningum um áhættuhegðun heldur áfram að fækka milli ára, en tilkynningum um ofbeldi fjölgar. Sú fjölgun skýrist fyrst og fremst af fjölgun tilkynninga vegna heimilisofbeldis. Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 43,8% tilkynninga á árinu 2016, hlutfallið var 44,7% árið á undan og 44,2% á árinu 2014.

Umsóknir til Barnaverndarstofu
Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fjölgaði lítillega eða úr 145 umsóknum í 155 umsóknir á milli áranna2015 - 2016. Umsóknir voru þó fleiri á árinu 2014 eða alls 171. Umsóknir um Stuðla voru 38 á árinu 2016, 36 árið á undan og 46 á árinu 2014. Umsóknir um önnur meðferðarheimili (Laugaland, Lækjarbakka og Háholt) sveiflast nokkuð á milli ára og voru 26 á árinu 2016, 23 árið á undan og 30 á árinu 2014. Umsóknum um MST fjölgaði lítillega úr 86 umsóknum í 91 umsókn á árinu 2016 miðað við árið á undan, en umsóknirnar voru 95 á árinu 2014. Fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan heimilis er talin koma til greina. Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Frá því í febrúar 2015 hefur þjónusta MST náð til alls landsins, en áður var þjónustusvæðið miðað við 60 mín. akstursfjarlægð frá Reykjavík. Fleiri umsóknir um meðferð bárust fyrir drengi en stúlkur öll árin.

Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði umtalsvert á tímabilinu 2014 til 2016, eða úr 120  beiðnum í 149. Athyglisverðasta breytingin er fjölgun beiðna um varanlegt fóstur, sem fjölgar um helming á tímabilinu. Fjöldi beiðna um tímabundið fóstur var sá sami á árunum 2015 og 2016, en umsóknir um styrkt fóstur sveiflast á nokkuð á milli ára.. Flestar beiðnir voru frá Reykjavík öll árin.

Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir hins vegnar. Rannsóknarviðtölum alls fækkaði úr 241 á árinu 2015 í 233 á árinu 2016, en þau voru 220 á árinu 2014. Skýrslutökum fyrir dómi fækkaði úr 127 í 116 milli áranna 2015 og 2016, en þær voru 76 á fyrstu níu mánuðum ársins 2014. Skýrslutökum vegna kynferðislegs ofbeldis fækkaði á árinu 2016 miðað við árið á undan úr 77 í 60, en frá því í mars 2015 hefur Barnahús einnig sinnt skýrslutökum og meðferð barna sem hafa upplifað líkamlegt ofbeldi og/eða heimilisofbeldi. Könnunarviðtölum fyrir barnaverndarnefndir fjölgaði úr 114 árið 2015 í 117 á árinu 2016, en þau voru 144 á árinu 2014. Börnum sem fóru í greiningar- og meðferðarviðtöl fjölgaði úr 115 börnum á árinu 2015 í 133 börn á árinu 2016, sem er nokkur fækkun frá   árinu 2014. Stúlkur voru í meirihluta þeirra barna sem komu í rannsóknarviðtöl, 59,7% á árinu 2016, 68,0% á árinu 2015 og 67,7% á árinu 2014.

Vistanir á neyðarvistun Stuðla voru 227 á árinu 2016, 176 árið á undan og 163 á árinu 2014. Vistunardögum fjölgaði úr 1.159 dögum í 1.329 daga milli áranna 2015 og 2016 en þeir voru 1.102 á árinu 2014. Fjölda einstaklinga hefur fjölgað var 81 barn á árinu 2014, 84 börn á árinu 2015 og 101 barn á árinu 2016.

Umsóknum um leyfi til að gerast fósturforeldrar fjölgaði milli áranna 2015 og 2016, voru 76 á árinu 2016, en 59 árið á undan. Einkum má skýra þessa fjölgun með tilvísun til þess átaks sem gert var á síðasta ári til þess að afla fósturforeldra fyrir fylgdarlaus börn sem sótt hafa um hæli hérlendis. . Flestar umsóknir voru frá Reykjavík og nágrenni.

Hér má sjá nánari sundurliðun á þessum samanburði.

 


Nýjustu fréttir

12. maí 2022 : Nýir starfsmenn Barna- og fjölskyldustofu

Ráðningar forstöðumanna á meðferðarheimilum

Lesa meira

14. mar. 2022 : Náum áttum - Skóli fyrir öll börn. Lausnir og tækifæri til farsældar.

Morgunverðarfundur miðvikudaginn 16. mars 2022 kl. 8:30-10:00 á ZOOM

Lesa meira

04. mar. 2022 : Opnun Barna- og fjölskyldustofu

Í gær var haldin formleg opnun Barna- og fjölskyldustofu. Af því tilefni færði Ásmundur Einar Daðason Mennta- og barnamálaráðherra Ólöfu Ástu Farestveit forstjóra Barna- og fjölskyldustofu fallega mynd af hjarta með þeim orðum að stofan væri hjartað í barnaverndarkerfinu. 

11. feb. 2022 : 112-dagurinn – ofbeldi og rétt samskipti við neyðarverði 112

Þann 11. febrúar ár hvert heldur Neyðarlínan upp á 112 daginn, til að minna á neyðarnúmer allra landsmanna

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica