Samanburður á tölum fyrstu sex mánuði 2018 – 2020

7 sep. 2020

Barnaverndarstofa hefur tekið saman tölur vegna fyrstu 6 mánuði ársins og borið saman við tölur frá árinu 2018 og 2019

Sá samanburður leiðir í ljós verulega fjölgun á tilkynningum til barnaverndarnefnda og þar fjölgar tilkynningum um ofbeldi og vanrækslu en fækkar tilkynningum um áhættuhegðun barna. Einnig hefur umsóknum um langtímameðferð fækkað verulega og umsóknum um styrkt fóstur fjölgað miðað við fyrstu sex mánuði árin á undan

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgar

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 um 15,6% miðað við árið á undan. Hins vegar fjölgar tilkynningum um 24,2% ef miðað er við fyrstu sex mánuði ársins 2018. Fjöldi tilkynninga á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 var 6.423 tilkynningar. Líkt og árin á undan voru flestar tilkynningar vegna vanrækslu eða 43,4% tilkynninga. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis var 29,4%, vegna áhættuhegðunar barna 26,1% og þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var hlutfallið 1,1%.

Hlutfall tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu hækkaði á árinu 2020 var 16,3% á fyrstu sex mánuðum ársins 2020, 13,8% fyrir sama tímabil árið á undan og 13,9% á fyrstu sex mánuðum ársins 2018. Í tilkynningum um ofbeldi var hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða 8,9% á fyrstu sex mánuðum ársins 2020, 8% fyrir sama tímabil árið á undan og 7,8% á fyrstu sex mánuðum ársins 2018.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 39,5% tilkynninga á fyrstu sex mánuðum ársins 2020, heldur lægra en fyrir sama tímabil 2018 og 2019.

Umsóknir um meðferð til Barnaverndarstofu

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fjölgaði á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 miðað við sama tímabil árið á undan úr 70 í 81. Umsóknir voru 90 á fyrstu sex mánuðum ársins 2018. Flestar umsóknanna voru um MST, eða alls 60 talsins. Fjöldi umsókna um Stuðla var 15, sem er svipað og fyrri ár. Umsóknir um meðferðarheimilin Laugaland og Lækjarbakka fækkar um helming á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 miðað við sama tímabil árið á undan. Er hér jafnframt um að ræða um helmingsfækkun ef miðað er við tímabilið 2015 – 2019. Líklegt er að þá fækkun megi, a.m.k. hluta til rekja til sóttvarnaraðgerða yfirvalda á tímabilinu.

Vistunum og vistunardögum fækkar á lokaðri deild Stuðla

Fjöldi vistana á lokaðri deild á Stuðlum var 96 á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 miðað við 98 sama tímabil árið á undan, og 111 á fyrstu sex mánuðum 2018.

Vistunardögum fækkaði úr 508 dögum á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 í 477 daga fyrir sama tímabil á árinu 2020, en vistunardagar á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 voru 739. Alls komu 45 börn á lokaða deild á fyrstu sex mánuðum ársins 2020, en þau voru 49 fyrir sama tímabil á árinu 2019 og 55 á fyrstu sex mánuðum ársins 2018.

Beiðnir um fósturheimili til Barnaverndarstofu

Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 úr 88 beiðnum í 94 miðað við sama tímabil árið á undan og voru þær 63 á fyrstu 6 mánuðum 2018. Beiðnum um styrkt fóstur fjölgaði mest, voru 11 árið 2018, 12 árið 2019 og 21 árið 2020. Umsóknir um styrkt fóstur voru að meðaltali 12 á fyrstu sex mánuðum ársins ef miðað er við tímabili 2015 – 2019.

Skýrslutökum í Barnahúsi fjölgar

Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir hins vegar. Rannsóknarviðtölum fjölgaði úr 108 á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 í 164 fyrir sama tímabil á árinu 2020, en þau voru 133 á fyrstu sex mánuðum ársins 2018. Skýrslutökur fyrir dómi voru 109 á fyrstu sex mánuðum ársins 2020, 63 fyrir sama tímabil árið á undan en 62 á fyrstu sex mánuðum ársins 2018. Fjölgunin varðaði bæði skýrslutökur vegna kynferðislegs ofbeldis og líkamlegs- og heimilisofbeldis, en meiri fjölgun er vegna líkamlegs- og heimilisofbeldis. 

Skýrsluna má nálgast hér


Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica