Skilaboð til barna og unglinga

Ef þú ert barn eða unglingur og þarft aðstoð - hvernig getur þú þá fengið hjálp? Þú getur alltaf hringt í barnanúmerið sem er númer Neyðarlínunnar 112!

24 mar. 2020

Líður þér illa eða hefur þú áhyggjur af því hvernig einhver annar hefur það? 

Þá getur þú haft samband beint við barnaverndina þar sem þú býrð – en þú getur líka alltaf hringt í Neyðarlínuna 112.

 

Tilkynningar á virkum dögum

Á vinnutíma getur þú haft samband við starfsfólk barnaverndar í sveitarfélaginu þar sem þú býrð. Á heimasíðunni www.bvs.is getur þú fundið allar upplýsingar um barnaverndarnefndir en mundu að þú getur líka hringt í Neyðarlínuna 112.

Tilkynningar á kvöldin, um helgar eða á hátíðisdögum

Þegar barnaverndin þar sem þú býrð er lokuð oftast eftir kl 16:00 á virkum dögum – getur þú haft samband við:
-Bakvakt barnaverndar – getur fundið símanúmer á heimasíðum sveitarfélaga eða á www.bvs.is. -Barnanúmerið - Neyðarlínuna 112.

Það verður hlustað á það sem þú hefur að segja og þér verður leiðbeint með hvað verður gert. Neyðarlínan er ALLTAF opin og ALLTAF hægt að hafa samband alveg sama á hvað tíma dagsins það er og hvort sem það er um helgar eða á hátíðisdögum eins og t.d. jólum eða í sumarfríinu.

Það er betra að láta vita en að þegja

Margir hugsa „ég er örugglega að gera of mikið úr hlutunum”, eða eru ekki vissir um að vandinn sé nógu alvarlegur. Í barnaverndinni finnst starfsfólki það betra að þau séu látin vita. Þau ákveða hvort vandinn sé alvarlegur eða ekki. Þess vegna er best að láta vita, þó maður sé í vafa.

Ef þú hefur orðið fyrir einhverju heima hjá þér eða annarsstaðar sem hræðir þig eða sem þér líður illa út af, eða ef þú eða einhver sem þú þekkir hafið upplifað erfiðleika heima eða annarsstaðar – hafðu þá samband við barnaverndina eða Neyðarlínuna 112! Þú getur líka haft samband ef þú ert ekki viss!

Þú færð ráð og leiðbeiningar

Bæði barnaverndin og Neyðarlínan munu hlusta á það sem þú hefur að segja og ákveða hvort þú eða sá sem þú hefur áhyggjur af þarf að fá aðstoð strax. Þau gefa þér líka ráð og leiðbeina þér um framhaldið. Ef þú hringir í 112 mun starfsfólkið þar koma því sem þú segir frá, áfram til þeirra sem vinna með barnaverndarmálin þar sem þú átt heima. Svo munu þau hafa samband við þig annað hvort strax eða eftir skamman tíma.

Alls bárust barnaverndarnefndum yfir tíuþúsund tilkynningar vegna meira en fimmþúsund barna í vanda á árinu 2019 og meira en þúsund tilkynningar bárust barnaverndinni með því að fólk hringdi í Neyðarlínuna 112. Aðalástæður þess að fólk hefur samband eru vanræksla á börnum, ofbeldi gagnvart þeim og það sem kallað er áhættuhegðun barna.
Vanræksla getur verið:
Þegar ekki er hugsað nógu vel um barn, ekki fylgst nógu vel með því, öryggi þess ekki tryggt, námi þess ekki sinnt eða barn er ekki stutt nægjanlega mikið.
Ofbeldi getur verið:
Þegar barn verður vitni að eða verður fyrir ofbeldi t.d. innan fjölskyldunnar (heimilisofbeldi), þegar alltaf er verið að tala niður til þín eða verið að skamma þig, þegar barn er lamið, slegið eða farið illa með líkama þess t.d. einkastaði þess.
Áhættuhegðun getur verið:
Þegar börn misnota áfengi, eru í neyslu vímuefna, beita ofbeldi, eru í afbrotum eða stefna heilsu sinni í alvarlega hættu.
Mikilvægt að hafa í huga að þetta eru dæmi um hvað getur verið að en það getur líka verið eitthvað annað sem er næg ástæða til þess að láta barnavernd vita.

Mundu að ekkert barn á skilið að búa í aðstæðum þar sem það er hrætt eða óttaslegið – láttu vita – hringdu í 112. 

 

Þessi grein birtist þann 11.2 í fylgiblaði Fréttablaðsins - hér getur þú skoðað greinina

 

 

 


Nýjustu fréttir

12. maí 2022 : Nýir starfsmenn Barna- og fjölskyldustofu

Ráðningar forstöðumanna á meðferðarheimilum

Lesa meira

14. mar. 2022 : Náum áttum - Skóli fyrir öll börn. Lausnir og tækifæri til farsældar.

Morgunverðarfundur miðvikudaginn 16. mars 2022 kl. 8:30-10:00 á ZOOM

Lesa meira

04. mar. 2022 : Opnun Barna- og fjölskyldustofu

Í gær var haldin formleg opnun Barna- og fjölskyldustofu. Af því tilefni færði Ásmundur Einar Daðason Mennta- og barnamálaráðherra Ólöfu Ástu Farestveit forstjóra Barna- og fjölskyldustofu fallega mynd af hjarta með þeim orðum að stofan væri hjartað í barnaverndarkerfinu. 

11. feb. 2022 : 112-dagurinn – ofbeldi og rétt samskipti við neyðarverði 112

Þann 11. febrúar ár hvert heldur Neyðarlínan upp á 112 daginn, til að minna á neyðarnúmer allra landsmanna

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica