Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 11% á árinu 2019 miðað við árið á undan.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 11% á árinu 2019 miðað við árið á undan. Hins vegar fjölgar tilkynningum um 13,7% ef miðað er við árið 2017. Fjöldi tilkynninga á árinu 2019 var 11.341 tilkynning.

30 mar. 2020

Flestar tilkynningar á árinu 2019 voru vegna vanrækslu líkt og árin á undan eða 42,0% tilkynninga. Þetta hlutfall var 41,5% á árinu 2018 og 38,3% á árinu 2017. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis á árinu 2019 var 26,3%, 25,4% árið á undan og 27,8% á árinu 2017. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 30,9% á árinu 2019, 32,0% árið á undan og 32,9% á árinu 2017. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var um 1% öll árin.

Hlutfall tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var 14,4% á árinu 2019, 13,7% árið á undan og 12,3% á árinu 2017. En í tilkynningum um ofbeldi var hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða 8% á árinu 2019, 7,3% árið á undan og 8,4% á árinu 2017.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 41,9% tilkynninga á árinu 2019, hlutfallið var 42,6% árið á undan og 42,8% á árinu 2017.

Umsóknir til Barnaverndarstofu

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fækkaði á árinu 2019 miðað við árið á undan úr 174 umsóknum í 154. Umsóknir voru 154 á árinu 2017. Flestar umsóknir bárust um MST en fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan heimilis er talin koma til greina. Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði á árinu 2019 úr 120 beiðnum í 163 miðað við árið á undan. Beiðnir um fósturheimili voru 171 á árinu 2017.

Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir hins vegar. Rannsóknarviðtölum fjölgaði úr 236 á árinu 2018 í 257 á árinu 2019, en þau voru 233 á árinu 2017. Skýrslutökur fyrir dómi voru 150 á árinu 2019, 128 árið á undan en 117 á árinu 2017. Könnunarviðtölum fyrir barnaverndarnefndir fækkaði úr 108 á árinu 2018 í 107 á árinu 2019, en þau voru 116 árinu 2017.

Vistunum á lokaðri deild á Stuðlum fækkaði úr 226 í 220 á árinu 2019 miðað við árið á undan. Vistanir voru 211 á árinu 2017. Vistunardögum fækkaði úr 1.180 dögum á árinu 2018 í 1.157 daga á árinu 2019, en vistunardagar á árinu 2017 voru 1.349. Alls komu 82 börn á lokaða deild á árinu 2019, en þau voru 83 á árinu 2018 og 86 á árinu 2017.

Umsóknum um leyfi til að gerast fósturforeldrar fækkaði miðað við árin á undan, voru 47 á árinu 2019, 72 á árinu 2018 og 60 á árinu 2017.

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu nefndanna á árunum 2017, 2018 og 2019. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í ársskýrslu Barnaverndarstofu. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2017, 2018 og 2019.

Hér má nálgast skýrsluna.


Nýjustu fréttir

12. maí 2022 : Nýir starfsmenn Barna- og fjölskyldustofu

Ráðningar forstöðumanna á meðferðarheimilum

Lesa meira

14. mar. 2022 : Náum áttum - Skóli fyrir öll börn. Lausnir og tækifæri til farsældar.

Morgunverðarfundur miðvikudaginn 16. mars 2022 kl. 8:30-10:00 á ZOOM

Lesa meira

04. mar. 2022 : Opnun Barna- og fjölskyldustofu

Í gær var haldin formleg opnun Barna- og fjölskyldustofu. Af því tilefni færði Ásmundur Einar Daðason Mennta- og barnamálaráðherra Ólöfu Ástu Farestveit forstjóra Barna- og fjölskyldustofu fallega mynd af hjarta með þeim orðum að stofan væri hjartað í barnaverndarkerfinu. 

11. feb. 2022 : 112-dagurinn – ofbeldi og rétt samskipti við neyðarverði 112

Þann 11. febrúar ár hvert heldur Neyðarlínan upp á 112 daginn, til að minna á neyðarnúmer allra landsmanna

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica