Starfsmenn og skipurit Barna- og fjölskyldustofu

 Forstjóri er Ólöf Ásta Farestveit. 

Hér munu koma upplýsingar um nýtt skipurit Barna- og fjölskyldustofu.

Eftirfarandi upplýsingar gilda til 1.mars 2022.

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn hefur það hlutverk að stýra daglegum rekstri Barnaverndarstofu og bera ábyrgð á að móta og innleiða stefnu í málefnum stofunnar og fylgja eftir mælingum tengdum innleiðingu stefnu. Framkvæmdastjórn tekur stefnumótandi ákvarðanir sem varða rekstur, stjórnun, stefumótun og þróun þjónustu Barnaverndarstofu til að forstjóri og stjórnendur hafi heildarsýn á afgreiðslu mála og þá þjónustu sem Barnaverndarstofa ber ábyrgð á. Einnig hefur framkvæmdastjórn það hlutverk að samhæfa starfsemi Barnaverndarstofu þvert á starfseiningar.

Skrifstofa forstjóra

Undir skrifstofu forstjóra heyra ýmis verkefni sem tengjast mannauðsmálum og rekstri, launamálum, bókhaldi og fjármálastjórn Barnaverndarstofu í heild, auk daglegs reksturs skrifstofunnar í Borgartúni. Að auki fer skrifstofa forstjóra með ýms sérfræðileg mál sem ekki falla beint undir ákveðin fagsvið, s.s. tæknimál, skjalavörslu, gæðamál, persónuvernd, útgáfumál, móttaka og úrvinnsla tölfræðiupplýsinga, umsjón með heimasíðu, og upplýsinga- og kynningarmál Barnaverndarstofu. Yfirstjórn og þróun starfsmannamála, samhæfing og þróun sem og yfirstjórn varðandi fjármál og rekstur allra starfseininga heyra undir skrifstofu forstjóra.

Lögfræðisvið

Lögfræðisvið Barnaverndarstofu fer með og ber ábyrgð á öllum lögfræðitengdum verkefnum Barnaverndarstofu. Hér er um að ræða aðkomu að afgreiðslu flóknari stjórnsýslumála, samningagerð og eftirfylgd samninga. Lögfræðisvið sinnir einnig lögfræðilegri ráðgjöf innan stofnunar og utan. Jafnframt tekur lögfræðisvið ákvarðanir um lögsögu barnaverndarmála og ber ábyrgð á hagsmunagæslu fylgdarlausra barna. Lögfræðisvið ber einnig ábyrgð á samskiptum við eftirlitsaðila og æðri stjórnvöld og gerð umsagna og álitsgerða stofunnar. Lögfræðisvið sér um eftirlit með barnaverndarnefndum (afgreiðsla kvartana og frumkvæðismála).

Meðferðar- og fóstursvið (MOFS)

MOFS fer með fósturmál; afgreiðslu umsókna um leyfi til fósturforeldra og þá þjálfun og fræðslu sem þeim leyfum fylgja, afgreiðslu á beiðnum um fósturmál og leiðbeiningar til barnaverndarnefnda tengdar þeim. Afgreiðir umsóknir um styrkt fóstur og vistúrræði skv. 91. gr. bvl. Innra eftirlit tengt fósturmálum liggur jafnframt á MOFS. Umsóknir um meðferð, bæði meðferðarheimili og fjölkerfameðferð (MST) heyra undir MOFS sem og umsóknir um sálfræðimeðferð vegna óviðeigandi kynferðislegrar hegðunar. Einnig fer MOFS með yfirstjórn meðferðarmála og ber ábyrgð á samhæfingu og þróun meðferðarstarfs Barnaverndarstofu í umboði forstjóra og að tryggja að þar séu innleiddar gagnreyndar aðferðir og unnið í samræmi við bestu vitneskju hverju sinni. Fjölkerfameðferð (MST) er hluti af MOFS en teymisstjórar MST fara formlega með faglega og starfsmannalega stjórn á þeim teymum sem þau stýra. Teymisstjórar bera í sameiningu ábyrgð á starfsstöð MST.

Ráðgjafar- og fræðslusvið (ROFS)

ROFS fer með ráðgjöf til barnaverndarnefnda, samstarfsaðila og almennings, ber ábyrgð á að skipuleggja og framkvæma fræðslu á vegum Barnaverndarstofu. Einnig hefur ROFS það hlutverk að bera ábyrgð á samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs sveitarfélaga, s.s. með gerð verklags, handbókar um vinnslu barnaverndarmála og leiðbeininga. Einnig ber ROFS ábyrgð á innleiðingu gagnreyndra úrræða og aðferða hjá sveitarfélögum. ROFS afgreiðir einnig leyfi um vistunarúrræði skv. 84. gr. bvl. Hefur ROFS jafnframt það hlutverk að hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknastarf á sviði barnaverndar. Starfsemi PMTO miðstöðvar heyrir undir ROFS. Einnig fer ROFS með faglega yfirstjórn Barnahúss í umboði forstjóra.

Stuðlar

Stuðlar hafa það hlutverk að taka á móti börnum í bráðatilvikum og tryggja öryggi þeirra. Fer það starf fram á lokaðri deild Stuðla. Einnig hafa Stuðlar það hlutverk að greina vanda barna og veita sérhæfða meðferð vegna alvarlegrar áhættuhegðunar. Því er hlutverki sinnt á meðferðardeild Stuðla. Einnig er sérhæfð meðferð veitt á Lækjarbakka, sem er rekinn sem deild undir Stuðlum. Stuðlar bera einnig ábyrgð á vistheimili þar sem börn geta búið í kjölfar meðferðar þegar slíkt úrræði er talið nauðsynlegt fyrir áframhaldandi árangur meðferðar (tilraunaverkefni til tveggja ára). Stuðlar bera ábyrgð á faglegu starfi auk þess að bera ábyrgð á daglegum rekstri einingarinnar og starfsstöðinni.

Barnahús

Barnahús hefur það hlutverk að aðstoða barnaverndarnefndir, lögreglu og dómstóla við könnun mála þar sem grunur leikur á um að börn hafi verið beitt ofbeldi með framkvæmd rannsóknarviðtala. Einnig veitir Barnahús börnum, sem greint hafa frá ofbeldi, áfallameðferð. Barnahús stýrir jafnframt starfsemi útibús Barnahúss á Akureyri, þar sem framkvæmd eru rannsóknarviðtöl og veitt meðferð. Barnahús ber ábyrgð á faglegu starfi auk þess að bera ábyrgð á daglegum rekstri einingarinnar og starfsstöðinni.

Teymi um afmörkuð verkefni

Mögulegt er að stofna formleg samstarfsteymi um afmörkuð verkefni sem starfa þvert á starfseiningar og jafnvel með aðkomu samstarfsaðila, ef við á. Teymin geta ýmist verið um föst/viðvarandi verkefni eða tímabundin verkefni sem stofan sinnir eða vinnur að og verður skipaður verkefnisstjóri um hvert og eitt teymi/verkefni.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica