Laugaland

Meðferðarheimilið Laugalandi, Eyjafjarðarsveit

Meðferðarheimilið LaugalandLaugaland
Póstfang: 601 Akureyri
Sími: 461 3910 - Bréfsími: 461 3911
Netfang: pbrodda@simnet.is

Staðsetning: 15 km frá Akureyri, í Eyjafjarðarsveit
Rekstraraðilar: Pétur Broddason
Fjöldi vistunglinga: 6 - 7
Starfsmenn: Tólf
Skóli: Kennsla er á vegum Hrafnagilsskóla og í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri

Myndir frá Laugalandi

Meðferðarheimilið að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit hóf starfsemi sína í byrjun júní 1997, en það var í upphafi staðsett í Varpholti í Hörgárbyggð. Að Laugalandi hefur starfsemin verið rekin síðan í september 2000. Forstöðumaður er Pétur Broddason.

Heimilið að Laugalandi er sérhæft meðferðarúrræði fyrir unglinga á aldrinum 13 til 18 ára með fjölþættan hegðunarvanda. Þar er gert ráð fyrir að vistist að jafnaði sex til átta unglingar í einu. Frá árinu 1998 hefur skapast sú hefð að vista einungis stúlkur á staðnum. Þannig næst meiri ró fyrir þær til að byggja upp og styrkja eigin sjálfsmynd.
____________________________

Meðferð að Laugalandi
Meðferðin að Laugalandi er þrepatengd (linkur í þrepin). Hún byggir á fjórum þrepum sem að jafnaði tekur um það bil eitt ár að ná árangri með. Vistunarsamningur er gerður við innskrift unglingsins. Að honum standa forsjáraðilar, barnaverndarnefndir, meðferðaraðilar og unglingurinn. Samningurinn er alltaf gerður til eins árs. Möguleiki er á því að gera styttri samning- sé unglingurinn á átjánda ári- eða innsæi og þroski unglingsins með þeim hætti að hann geti nýtt sér þrepin á skemmri tíma. Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að framlengja samninginn- sé það mat þeirra aðila sem að samningnum standa að það sé nauðsynlegt.
____________________________

Markmið meðferðar

  1. Að unglingurinn öðlist reynslu af heilbrigðum lífsháttum
  2. Að unglingurinn læri að fara eftir reglum, ganga vel um, taka tillit til annarra og að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.
  3. Að unglingurinn geti sett sér raunhæf markmið í framförum, námi og samskiptum og læri hvernig hægt er að ná þeim.
  4. Að unnið sé á faglegan hátt að góðum tengslum milli unglingsins annars vegar og fjölskyldu hans hins vegar.
  5. Að unglingurinn fái tækifæri til að vera virkur þátttakandi í þeirri “stórfjölskyldu” sem boðið er uppá á meðferðarheimilinu
  6. Að unglingurinn stundi skóla að vetri og vinnu við hæfi að sumri.

Í meðferðinni að Laugalandi er lögð áhersla á að unglingurinn sýni heiðarleika í orðum og gerðum og standi fyrir máli sínu. Þessu er fylgt eftir í öllu sem unglingurinn tekur sér fyrir hendur.
Gerðar eru kröfur um að unglingurinn standi við skuldbindingar sínar á heimilinu jafnt og í skóla. Jafnframt er leitast við að veita unglingnum jákvæðar upplifanir í leik og starfi. Liður í þeirri áherslu að unglingarnir tileinki sér heilbrigða lífshætti- er að hvorki þeir né heimilisfólk reyki.
_______________________________

Leiðir til að ná markmiðunum
Meðferðin er fer fram í samráði við barnaverndarnefnd og foreldra unglingsins. Haldnir eru reglulegir samráðsfundir með þessum aðilum. Einnig er boðið uppá fjölskylduvinna í tengslum við samráðsfundi. Til að tryggja að unglingurinn yfirfæri framfarir sínar í annað umhverfi er lögð rík áhersla á að skipuleggja helgarleyfi þeirra vel. Áætlað er að unglingurinn geti farið tvisvar til þrisvar á hvorri skólaönn í helgarfrí auk jóla- og páskafrís, en það er þó háð því hvernig hann stendur sig í meðferðinni. Ef unglingurinn misstígur sig í leyfinu er samkomulag um að hann komi strax aftur til baka. Staðsetning heimilisins virðist ákjósanleg til að styðja við markmið meðferðarinnar. Nálægðin við þjónustu Akureyrar er heppileg og býður upp á fjölbreytni í félagsstarfi. Fjarlægðin frá ljósum næturlífs bæjarins er á hinn bóginn nauðsynleg fyrir unglinginn til að ná þeirri ró sem þarf til að takast á við meðferðina.

Þrepakerfi Laugalands
____________________________

Fjölskylduráðgjafi
Kristján Már Magnússon sálfræðingur starfar við heimilið. Hlutverk hans er að halda utan um meðferðaráætlanir, hafa unglingana í viðtölum eftir þörfum, sitja fundi með skóla, sitja samráðsfundi með foreldrum, vistunaraðilum, unglingi og rekstraraðilum, taka þátt í hópfundum með unglingunum, sitja starfsmannafundi, vera í fjölskylduvinnu og sjá um fræðslu ásamt rekstraraðilum. Einnig sér hann ásamt rekstraraðilum um að senda barnaverndarnefnd og Barnaverndarstofu skýrslur um gang meðferðarinnar og lokaskýrslu um ungling fyrir útskrift. Þar kemur m.a. fram hvaða stuðning unglingurinn þarf að mati meðferðaraðila eftir að meðferð líkur.
____________________________

Útskrift
Í sameiningu meta forstöðumenn Laugalands, barnaverndarnefnd, foreldrar og Barnaverndarstofa hvenær skuli útskrifa unglinginn. Þegar útskrift er ákveðin er hún framkvæmd á þeim hraða sem hentar unglingnum best. Áhersla er lögð á að hafa umskiptin með sem lengstum fyrirvara þannig að unglingurinn nái að aðlagast áður en raunveruleg breyting verður.
_____________________________

Laugaland - skólastarf
Kennsla unglinganna fer fram í sérkennsludeild Hrafnagilsskóla. Hverjum unglingi er mætt þar sem hann er staddur námslega og er sérkennsla töluverð en reynt er að aðlaga unglingana inn í aðra bekki eftir því sem við á. Allar bóklegar greinar eru kenndar sér, en íþróttir, sund og ýmiss önnur fög eru kennd í hópkennslu með öðrum nemendum skólans. Stefnt er að því að nemendur verði á sama róli og jafnaldrar þeirra í kjarnafögum. Nemendur 10. bekkjar taka samræmd próf. Nokkuð er um að nemendur 10. bekkjar fái að stunda nám í almennu bekkjardeildinni, en þá verður að koma til sterk námsleg og meðferðarleg staða.
Nemendur á framhaldsskólaaldri taka áfanga í fjarkennslu við Verkmenntaskólann á Akureyri og fá stuðning og aðstöðu til námsins í Hrafnagilsskóla. Áhersla er lögð á hreyfingu, heilsurækt og útivist innan hefðbundins skólatíma. Unglingarnir taka þátt í félagslífi á vegum skólans.
____________________________

Íþróttastarf - tómstundir
Mikil útivera er stunduð í formi gönguferða, hjólreiða, sunds og fótbolta. Áhugi er mikill á líkamsrækt hjá unglingunum og hafa þeir flestir stundað einhverja líkamsrækt oft í viku hverri, synt, stundað skíði eftir því sem hægt er, gengið, hlaupið og hjólað reglulega. Jafnframt stunda flestir unglingarnir reglulegar æfingar með íþróttafélögum á Akureyri og taka þátt í keppnum á þeirra vegum. Heima við er mikið spilað, föndrað og spjallað. Þá er nálægðin við Akureyri notuð til að fara í leikhús, bíó, tónleika og fl. Þá er farið reglulega í skoðunar- og ævintýraferðir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica