Eyðublöð og leiðbeiningar

Leiðbeiningar vegna samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna

Formularze i informacjePólska/Polski
Forms and Instructions Enska/English 

Ef þjónustuveitandi, eða sá sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barns tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og að barnið þurfi frekari þjónustu en þegar er veitt skal hann veita foreldrum og/eða barni leiðbeiningar um samþættingu þjónustu.

Að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns er jafnframt eitt af hlutverkum tengiliðar.

Þegar þjónustuveitanda, þeim sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barna, tengilið eða öðrum ber að veita leiðbeiningar um samþættingu þjónustu skal veita eftirfarandi upplýsingar:

Hvað er samþætt þjónusta? Skipulögð og samfelld þjónusta með það að markmiði að stuðla að farsæld barns, og að börn og foreldrar sem á þurfa að halda, hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi og aðstoð við að halda utan um þjónustuna.

Hver veitir samþætta þjónustu? Þeir þjónustuveitendur sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni.

Hvað er þjónustuveitandi? Allir sem veita farsældarþjónustu á vegum ríkis eða sveitarfélags, þ.m.t. einkaaðili sem veitir slíka þjónustu á grundvelli þjónustusamnings. Þetta eru t.d. leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, sérhæfð heilbriðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd.

Hvað er farsældarþjónusta? Öll þjónusta sem lög segja að eigi að veita á vegum ríkis eða sveitarfélaga og á þátt í eða tryggir farsæld barns. Þetta er allt frá grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum börnum til frekari einstaklingsbundinnar þjónustu.

Hvað er fyrsta skrefið? Fyrsta skrefið er að tengiliður fái upplýsingar um aðstæður barns. Það getur átt sér stað þannig að þjónustuveitandi sem tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti ræði við foreldra og leiðbeini þeim og aðstoðar við að fylla út beiðni um miðlun gagna til tengiliðar. Það þýðir að viðkomandi þjónustuveitandi hefur þá heimild til að upplýsa tengilið um aðstæður. Tengiliður getur jafnframt fengið upplýsingar beint frá foreldrum og/eða barni, enda eiga allir að vita hver tengiliður sinn eða síns barns er að vera og hafa aðgengi að viðkomandi.

Hvað er tengiliður? Einstaklingur í nærumhverfi barns sem tekur við upplýsingum frá þjónustuveitendurm, þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna eða foreldrum/barni. Tengiliður styður við samþættingu þjónustu á fyrsta stigi. Með tengilið er foreldrum og börnum gert kleift að leita til eins aðila sem hefur yfirsýn yfir þjónustu í stað þess að þurfa að fara á marga staði til að leita að slíkum upplýsingum.

Hvað er beiðni um miðlun upplýsinga? Það er eyðublað sem foreldri og/eða barn útfyllir sem heimilar þjónustuveitanda eða þeim sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barns, að taka saman upplýsingar um aðstæður barns og miðla þeim til tengiliðar. Beiðnin heimilar eingöngu þessa tilteknu miðlun til þessa tiltekna tengiliðar. Tengiliður hefur ekki heimild til að hafa samband við aðra þegar hann hefur móttekið upplýsingarnar, heldur skal tengiliður hafa samband við foreldra og/eða barn.

Hvað er næsta skref? Næsta skref er að tengiliður vinnur með þessar upplýsingar sem hann hefur fengið. Tengiliður ræðir við foreldra og/eða barn og metur hvort þörf sé á samþættingu þjónustu. Tengiliður hefur einungis heimild til að skoða þær upplýsingar sem hann hefur fengið frá þessum eina þjónustuveitanda og skal svo hafa samband við foreldra og/eða barn.

- Ef tengiliður telur að barn sé að fá alla þá þjónustu sem það þarf og ekki þörf á samþættingu heldur tengiliður samt áfram að aðstoða fjölskylduna og metur aftur síðar sé þess þörf hvort þörf sé á samþættingu.

- Telji tengiliður að samþætting þjónustu sé barninu fyrir bestu leiðbeinir hann foreldrum og eða barni í hverju samþætting þjónustu felst og leiðbeinir um beiðni um samþættingu þjónustu.

Hvað er beiðni um samþættingu þjónustu? Það er eyðublað sem foreldrar og/eða barn fyllir út þar sem óskað er eftir að þjónusta við barn verði samþætt. Beiðnin heimilar tengiliðum, málstjórum, þjónustuveitendum og þeim sem veita þjónustu í þágu farsældar barns að vinna upplýsingar um barn til að tryggja því skipulagða og samfellda þjónustu.

Hvað er málstjóri? Málstjóri tekur við af tengilið ef barn þarfnast þjónustu á öðru eða þriðja stigi. Málstjóri kemur yfirleitt frá félagsþjónustunni.

Hvað er fyrsta, annað og þriðja stig þjónustu?

- Fyrsta stigs þjónustu skiptist í tvennt. Tengiliður heldur utan um samþættingu þjónustu á þessu stigi.

 Grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum – t.d. almenn þjónusta leik-, grunn- og framhaldsskóla, þar á meðal almenn menntun, forvarnir og starfshættir gegn einelti og ofbeldi o.s.frv. Almenn heilsugæsla, meðgöngueftirlit, fæðingarnámskeið og almenn félagsþjónusta, t.d. þjónusta dagforeldra er einnig grunnþjónusta.

  • Einstaklingsbundinn og snemmtækur stuðningur. Úrræði sem svara þörf fyrir þjónustu sem er umfram grunnþjónustu. Þetta er t.a.m. aukin aðstoð eða liðsinni, t.d. þegar barn hefur afmarkaða þörf fyrir skólaþjónustu vegna sérþarfa, námsörðugleika, hegðuanrvanda eða afleiðinga eineltis o.s.frv.

 - Annars stigs þjónusta eru úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur en á fyrsta stigi. Þetta eru úrræði þar sem þörf er á sérhæfðari eða fjölbreyttari þjónustu en veitt er á fyrsta stigi. Börn, sem þjónusta á þessu stigi nær til, hafa þörf á sérhæfðari og fjölbreytilegri þjónustu. Hér er stuðningur við barn orðinn það umfangsmikill að líklegt að þörfum barnsins sé ekki mætt nema þjónusta sé samþætt. Dæmi um slíka þjónustu er t.d. ýmis stuðningsþjónusta á vegum félags- og skólaþjónustu sveitarfélaga, sérdeildir eða starfsbrautir í skólum.

- Þriðja stigs þjónusta eru úrræði þar sem veittur er sérhæfður stuðningur til að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin. Barn sem nýtur þjónustu á þessu stigi hefur að jafnaði flókinn og fjölþættan vanda og mikla ummönunarþörf. Barn er þá í aðstæðum þar sem skortur á viðeigandi stuðningu og úrræðum getur haft alvarlegar afleiðingar og ógnað heilsu barns og þroska. Dæmi um þjónustu á þriðja stigi eru ýmis vistunarúrræði á grundvelli barnaverndarlaga, fjölþættur stuðningur við fötluð börn og langvarandi sjúkrahúsdvöl barna.

Getur barn hlotið þjónustu á fleiri en einu stigi í einu? Já.

Hvernig fara allir þessir aðilar með persónuupplýsingar barns? Allir sem vinna á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna ber að vinna með persónuupplýsingar í samræmi við lög um persónuvernd. Þá er unnið með persónuupplýsingar í samræmi við viðmið um vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli laganna, sem útgefin verða af barna- og menntamálaráðuneytinu. Þetta þýðir að öllum sem vinna með persónuupplýsingar ber skylda til að vinna einungis með upplýsingar sé lögmætur tilgangur fyrir vinnslunni, vinna einungis með þær upplýsingar sem þörf er á og miðla einungis til þeirra sem heimild er fyrir. Gæta ber öryggis persónuupplýsinganna í hvívetna.

Þjónustuveitandi, sá sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barna, tengiliðir, málstjórar og aðrir sem vinna með persónuupplýsingar á grundvelli farsældarlaga skulu upplýsa foreldra og/eða barn hvernig miðlun persónuupplýsinga fer fram í því einstaka tilviki. Upplýsa skal um það hvaða gögnum verði miðlað og hvert og hvaða öryggisráðstafana gripið er til, til þess að gæta öryggis persónuupplýsinganna.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica