Hlutverk Barnaverndarstofu
Barnaverndarstofa er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra. Barnaverndarstofa annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlög ná til. Ráðherra ákveður aðsetur Barnaverndarstofu og skipar forstjóra. Barnaverndarstofa skal vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum. Hún skal hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknastarf á sviði barnaverndar. Barnaverndarstofa skal hafa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu. Barnaverndarstofa annast leyfisveitingar til fósturforeldra, tekur ákvarðanir og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum. Barnaverndarstofa fer með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk og skal hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót. Stofan hefur yfirumsjón með vistun barna á þessum heimilum og stofnunum. Barnaverndarstofa annast enn fremur leyfisveitingar skv. XIII. og XIV. kafla barnaverndarlaga.