Hlutverk Barnaverndarstofu

Barnaverndarstofa er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra. Barnaverndarstofa annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlög ná til. Ráðherra ákveður aðsetur Barnaverndarstofu og skipar forstjóra. Barnaverndarstofa skal vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum. Hún skal hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknastarf á sviði barnaverndar. Barnaverndarstofa skal hafa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu.  Barnaverndarstofa annast leyfisveitingar til fósturforeldra, tekur ákvarðanir og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum. Barnaverndarstofa fer með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk og skal hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót. Stofan hefur yfirumsjón með vistun barna á þessum heimilum og stofnunum. Barnaverndarstofa annast enn fremur leyfisveitingar skv. XIII. og XIV. kafla barnaverndarlaga.

Meginverkefni Barnaverndarstofu greinast í tvö svið. Annars vegar margvísleg viðfangsefni sem lúta að starfsemi barnaverndarnefnda sveitarfélaga. Hins vegar yfirumsjón og eftirlit með rekstri sérhæfðra meðferðarheimila fyrir börn. Stjórnsýsluhlutverk Barnaverndarstofu felst einkum í eftirliti með störfum barnaverndarnefnda, afgreiðslu kæra og kvartana vegna starfa þeirra ásamt því að heimta frá þeim ársskýrslur. Þá veitir stofan barnaverndarnefndum ráðgjöf við úrlausn mála og fræðslu um barna- og fjölskylduvernd. Barnaverndarstofu er ætlað að koma á framfæri upplýsingum og fræðslu til almennings og fagfólks. Fræðsluhlutverkið rækir stofan með því að halda ráðstefnur, með fyrirlestrahaldi, með sérstökum námskeiðum og útgáfu handbókar fyrir barnaverndarnefndir, með námskeiðum fyrir verðandi fósturforeldra og starfsfólk meðferðarheimila og útgáfu skýrslu um starfsemi Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda. Þá liðsinnir stofan barnaverndarnefndum við öflun hæfra fósturforeldra og veitir ráðgjöf á því sviði. Barnaverndarstofa hefur rannsóknar- og þróunarhlutverki að gegna, auk þess að sinna erlendum samstarfsverkefnum og afla þekkingar að utan á sviði barnaverndar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica