Leiðbeiningar fyrir sveitarfélög

Hér eru dæmi um hvað sveitarfélög geta gert til að stuðla að farsælli innleiðingu laganna.


Sveitarfélög fara yfir og skrá þjónustu fyrir börn og barnafjölskyldur í sveitarfélaginu, bæði á vegum sveitarfélaga og annarra stofnana, s.s. heilbrigðisþjónustu ofl. Barna- og fjölskyldustofa heldur utan um skrá yfir úrræði í hverju sveitarfélagi eða landssvæði.

Sveitarfélög tilnefna tengiliði og málstjóra í sveitarfélaginu fyrir börn og foreldra á hverju þjónustustigi; félagsþjónusta, heilbrigðisþjónusta, skólaþjónusta, önnur þjónusta.

Skoða hvernig þjónustuveitendur í sveitarfélaginu geti unnið sem best saman með áherslu á snemmtæka nálgun og stutt þannig við hlutverk tengiliða og málstjóra. Skýra hlutverk tengiliða, málstjóra og hugmyndafræði samþættingar.

Ávallt þarf að leggja mat á tilgang og nauðsyn á miðlun upplýsinga á grundvelli samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna. Þetta á m.a. við um trúnað og miðlun upplýsinga milli kerfa. Því er mikilvægt að persónuverndarfulltrúi sveitarfélagsins sé með í verkefninu sem er einnig í höndum Barna- og fjölskyldustofu.

Gert er ráð fyrir að þar sem lögin hafa þegar tekið gildi séu sveitarfélög þegar farin að vinna á grundvelli samþættingar, taka á málum snemma, þjónustuveitendur vinni saman að lausn mála osfrv.

Tryggja upplýsingar, fræðslu og aðgang fyrir börn og foreldra að tengiliðum og málstjórum í sveitarfélaginu, upplýsingar séu aðgengilegar á heimasíðum, í skólum barna og skrá yfir úrræði á 1., 2. og 3. stigi sé birt á heimasíðu sveitarfélagsins t.d. undir farsældarsíðu. Kortleggja jafnframt þörf fyrir fræðslu til tengiliða og málstjóra í samvinnu við Barna- og fjölskyldustofu.

Huga að skipun svæðisbundins farsældarráðs í samvinnu við önnur sveitarfélög á svæðinu sbr. 5.gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þar kemur fram að sveitarfélög skipa svæðisbundin farsældarráð sem eru vettvangur fyrir samráð um farsæld barna. Þar eiga sæti fulltrúar svæðisbundinna þjónustuveitenda á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Sveitarfélögum er heimilt að hafa samvinnu um ofangreind verkefni. Sveitarfélögum er heimilt að mynda sérstök þjónustusvæði um verkefnin að gættum ákvæðum sveitarstjórnarlaga.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica