Upplýsingar fyrir fósturforeldra

Til að fyrirbyggja ruslpóst:

Hverjir geta orðið fósturforeldrar?

Fósturforeldrar þurfa að geta veitt barni trygga umönnun og öryggi og mætt þörfum barns sem búið hefur við ótryggar aðstæður eða átt við erfiðleika að etja. Fósturforeldrar þurfa að vera við góða almenna heilsu, búa við stöðugleika auk fjárhagslegs og félagslegs öryggis sem stuðlað getur að jákvæðum þroska barns. Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi en hjón eða sambúðarfólk skulu sækja um leyfi saman. Þeim sem brotið hafa gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot er óheimilt að taka barn í fóstur.

Börn sem þurfa á fóstri að halda eru á öllum aldri og eiga það sameiginlegt að hafa gengið í gegnum erfiðleika og áföll. Þau þurfa mismikinn stuðning og utanumhald. Það getur verið gefandi en jafnframt krefjandi að sinna fósturbarni.

Ólíkar tegundir fósturs

Tímabundið fóstur: getur verið allt frá þremur mánuðum til tveggja ára. Þegar börn eru í tímabundnu fóstri er oftast stefnt að því að þau fari aftur heim til foreldra að fóstri loknu. Umgengni við kynforeldra er mikil og oftast aukin þegar nær dregur fósturlokum.

Varanlegt fóstur: er ætlað að vara fram til 18 ára aldurs og þá er ekki ætlunin að barnið fari aftur heim til kynforeldra. Umgengi við kynforeldra er minni en í tímabundnu fóstri.

Styrkt fóstur: á við þegar barn þarf sérstaka umönnun og þjálfun á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Oft eiga börnin við mikinn tilfinninga- eða hegðunarvanda að etja. Gengið er út frá því að annað eða báðir foreldrar séu til staðar til að sinna þörfum barnsins.

Mat á hæfni fósturforeldra

Við mat á hæfni væntanlegra fósturforeldra skulu könnuð almenn viðhorf, væntingar og reynsla auk viðhorf til barna. Allar aðstæður væntanlegra fósturforeldra eru kannaðar, s.s. heimilishagir, heilsa, fjárhagslegt öryggi og félagsleg staða. Þegar sótt er um til Gæða- og eftirlitsstofnunar þarf að leggja fram sakavottorð, heilbrigðisvottorð, búsetuvottorða ásamt afritum af skattaframtölum. Jafnframt er beðið um meðmæli vinnuveitenda og umsagnir ættingja og/eða vina. Jafnframt skulu þeir skila greinargerð þar sem umsækjendur tilgreina ástæður þess að óskað sé eftir leyfi til að taka barn í fóstur. Barna- og fjölskyldustofa getur jafnframt aflað frekari ganga ef þörf er talin á.

Umsækjendum ber að sækja námskeið fyrir fósturforeldra sem haldið er á vegum Barna- og fjölskyldustofu. Námskeiðið er fimm heilir dagar, yfirleitt haldið yfir þriggja mánaða tímabil. Ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða þurfa báðir aðilar að sækja námskeiðið. Samhliða námskeiðinu eru tekin ítarleg viðtöl við þátttakendur og farið í heimsókn til þeirra.

Í reglugerð kemur fram að fósturforeldrar þurfi að standast eftirfarandi fimm hæfniviðmið.

  1. Hæfni til að annast og ala upp barn.
  2. Hæfni til að koma til móts við þarfir barns og taka á misfellum í þroskaferli þess.
  3. Hæfni til að styðja við tengsl milli barnsins og fjölskyldu þess eftir því sem við á.
  4. Hæfni til að geta stuðlað að því að barn geti myndað traust, varanleg og þroskandi tengsl.
  5. Hæfni til samvinnu við starfsmenn barnaverndar, kynforeldra og aðra aðila sem koma að umönnun barns.

Barna- og fjölskyldustofa skilar skriflegu hæfnimati til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sem í framhaldinu ákveðið hvort að umsækjandi fái leyfi eða ekki.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica