• Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

16 feb. 2024

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Umsóknum um meðferð fjölgar

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fjölgaði töluvert á árinu 2023 ef miðað er við árin á undan. Árið 2023 32,7% fleiri umsóknir í öll úrræði samanlagt, en bárust árið 2022. Munar þar mest um umsóknir í MST en þeim fjölgaði um 38% á milli ára. Alls bárust 32 umsóknir um Stuðla árið 2023, sem er sami fjöldi og árið 2022. Þá fjölgaði umsóknum einnig um önnur meðferðarheimili á milli ára. Árið 2023 bárust 23 umsóknir um önnur meðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu, eða slíkar umsóknir voru á bilinu 13-16 á árunum 2020-2022. Ólíkt fyrri árum bárust flestar umsóknir um meðferð frá Reykjavík, eða 42,2%. Tveimur fleiri umsóknir um meðferð bárust vegna drengja en stúlkna, en miðað við fyrri ár fjölgar umsóknum vegna stúlkna að meðaltali meira en vegna drengja.

Beiðnum um tímabundið og varanlegt fóstur fækkar, umsóknum um styrkt fóstur fjölgar

Beiðnir til Barna- og fjölskyldustofu um fósturheimili voru 141 á árinu 2023, tveimur færri en árið á undan. Líkt og fyrri ár voru flestar beiðnir vegna tímabundins fósturs, en voru samt nokkuð færri en árið á undan. Beiðnum um varanlegt fóstur fækkaði einnig töluvert og voru einungis 9 árið 2023, samanborið við 19-41 á árunum 2020-2022. Umsóknum um styrkt fóstur fjölgaði um 39,5% á milli ára, en slíkar umsóknir voru 53 árið 2023. Slíkum beiðnum hefur farið fjölgandi undanfarin ár. Jafn margar beiðnir bárust vegna drengja og stúlkna.

Í byrjun árs 2022 færðust umsóknir fósturforeldra yfir til Gæða- og eftirlitsstofnunar en Barna- og fjölskyldustofu var falið að veita umsóknum umsagnir áður en leyfi væri veitt.

Beiðnir um umsagnir við umsóknum einstaklinga til að gerast fósturforeldrar voru 69 á árinu 2023. Ekki er hægt að segja til um hvort Barna- og fjölskyldustofu hafi borist beiðni um umsagnir allra umsókna, en ljóst er að umsóknum hefur fjölgað, samanborið við 2020-2022.

Færri rannsóknarviðtöl í Barnahúsi

Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir barnaverndarþjónustur hins vegar. Rannsóknarviðtölum fækkaði úr 378 á árinu 2022 í 291 árið 2023. Skýrslutökur fyrir dómi voru 157 á árinu 2023, en 218 árið á undan.

Yfir helmingur skýrslutaka vörðuðu kynferðislegt ofbeldi. Skýrslutökur er vörðuðu líkamlegt- og heimilisofbeldi árið 2023 voru 68, töluvert færri en á árunum 2020-2022. Hér ber að nefna að bæði skýrslutökum fjölgaði töluvert á milli áranna 2019-2020. Fjöldi slíkra skýrslutaka árið 2023 eru líkara því sem var árið 2019. Könnunarviðtöl fyrir barnaverndarþjónustur voru 134 á árinu 2023. Eru það færri könnunarviðtöl en síðustu ár. Fleiri stúlkur en drengir sóttu þjónustu á árinu 2023 og er það í takt við kynjaskiptingu síðustu ára. Raunar má sjá að sú fækkun sem má sjá á milli ára má að hluta til rekja til þess að færri drengir eru að sækja þjónustu Barnahúss árið 2023 en árin á undan. Stúlkum fækkar einnig, en ekki í sama mæli og drengjum.

Vistunum, vistunardögum og einstaklingum fjölgar á Stuðlum

Vistunum á lokaðri deild á Stuðlum fjölgaði úr 136 árið 2022 í 199 árið 2023. Fjöldi vistunardaga var 1.154 árið 2023 sem er töluverð aukning sé miðað við árin 2020-2022 eða aukning upp á 30,5% til 80,1%. Fjöldi einstaklinga sem voru á lokaðri deild Stuðla fjölgaði og voru drengir í meiri hluta líkt og fyrri ár. Aftur á móti má rekja aukninguna til þess að stúlkum fjölgaði á lokaðri deild Stuðla, sé miðað við fyrri ár. 

Hér má sjá skýsluna í heild:  Samanburður á úrræðum og umsóknum um þjónustu til Barna- og fjölskyldustofu á árunum 2020-2023.


Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica