Barnaverndarstofa biður konur afsökunar sem voru vistaðar á Laugalandi (áður Varpholt)

5 mar. 2021

Hópur kvenna, sem vistaður var á meðferðarheimilinu á Laugalandi (áður Varpholt), steig nýverið fram og lýsti slæmri reynslu sinni af heimilinu undir stjórn fyrri rekstraraðila á árunum 1997 – 2007. Barnaverndarstofa biður þær konur, sem vistaðar voru á heimilinu, afsökunar á að ekki hafi verið brugðist betur við þeim upplýsingum sem stofunni bárust varðandi starfsemi heimilisins.

Barnaverndarstofa hefur farið í gegnum öll þau gögn sem til eru um starfsemina á Laugalandi. Sú skoðun hefur leitt í ljós að á starfstíma heimilisins komu fram vísbendingar um óeðlilegar starfsaðferðir. Þessum vísbendingum hefði verið hægt að fylgja eftir og bregðast við með markvissari hætti en gert var. Gögnin sýna einnig að á heimilinu var unnið út frá hugmyndafræði sem þótti góð og gild á sínum tíma en samstaða er á meðal sérfræðinga í dag að sé úrelt og eigi alls ekki við þegar unnið er með börnum sem glíma við margþættan vanda og þurfa umfram allt stuðning og aðstoð.

Miklar breytingar hafa orðið á faglegu starfi meðferðarheimila hér á landi, sem og eftirliti með þeim, á síðustu 10-15 árum. Engu að síður telur Barnaverndarstofa rétt, í framhaldi af þeim upplýsingum sem fram hafa komið varðandi starfsemi Laugalands, að yfirfara verkferla er varðar eftirlit með börnum sem vistuð eru á meðferðarheimilum og er sú vinna hafin. Mikilvægt er að tryggja að börn treysti sér til að greina frá upplifun sinni og aðbúnaði þar á meðan vistun stendur og að brugðist sé við þeim upplýsingum með fullnægjandi hætti.

Heiða Björg Pálmadóttir,
forstjóri Barnaverndarstofu


Nýjustu fréttir

Hjólabrettastelpa

23. ágú. 2021 : Samanburður á fjölda tilkynninga fyrstu 6 mánuði 2019-2021

Tilkynningum vegna kynferðislegs ofbeldis fjölgar

Lesa meira

27. apr. 2021 : Aðgerðir stjórnvalda gegn stafrænu ofbeldi gegn börnum

Miðvikudaginn 28. apríl n.k. verður haldinn fundur þar sem farið verður yfir aðgerðir stjórnvalda til að vinna gegn kynferðislegu / stafrænu ofbeldi gegn börnum hér á landi. Aðgerðirnar fela m.a. í sér aldursmiðaða fræðslu og forvarnir, þjálfun starfsmanna innan réttargæslukerfisins, endurskoðun á verklagi og úrbætur í upplýsingamiðlun. 

Hér má nálgast tengil á viðburðinn sem verður á facebook.

https://www.facebook.com/events/476350143687436/

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica