Art er smart

29 mar. 2007

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Stuðla og þriggja meðferðarheimila Barnaverndarstofu sótt námskeið í ART-þjálfun. ART stendur fyrir Aggression Replacement Training og miðar að því að draga úr og fyrirbyggja óæskilega hegðun með því að kenna félagsvæna hegðun. ART tekur til hegðunar, hugsunar og tilfinninga og byggir á lögmálum hugrænnar atferlismeðferðar. Þjálfuð er félagsfærni (Skillstreaming), reiðistjórnun (Anger Control Training) og umræða um siðferðileg álitamál (Moral Reasoning).

Það er vissulega ekki nýjung að slíkir þættir séu þjálfaðir í meðferð unglinga á Íslandi en innleiðsla ART tryggir kerfisbundnari og samræmdari vinnubrögð. ART höfðar hnitmiðað til helstu áhættuþátta í hegðunar- og vímuefnavanda og eykur hæfni barna í að hugsa um og takast á við aðstæður sem geta leitt þau í vandræði og átta sig á hvaða tilfinningar fylgja því. Reynt er að breyta andfélagslegum gildum og viðhorfum, draga úr andfélagslegum jafningjatengslum, auka sjálfstjórn og styðja við samskipti í fjölskyldunni.

ART uppfyllir svokallaða móttækileikareglu í meðferð barna og unglinga því í þjálfuninni sýna fyrirmyndir (starfsmenn og önnur börn) hvernig á að framkvæma færnina, færnin er æfð stig af stigi, notaðir eru hlutverkaleikir og ýmsar aðrar aðferðir við að auka færnina. Þjálfunin fer fram í litlum hópum með tveimur þjálfurum og tekur að jafnaði um 12 vikur en fyrirkomulag þjálfunar getur þó verið með mismunandi hætti eftir aðstæðum. Árangur er metinn á markvissan og reglubundinn hátt, m.a. með gátlistum.

Þjálfun starfsmanna Stuðla og meðferðarheimila var í höndum þeirra Knut Gundersen aðstoðarprófessors við kennaraháskólann í Rogaland í Noregi (Diakonhjemmet) og Tutte Michell Olsen. Bæði hafa stundað ART-þjálfun um gervallan Noreg, einkum fyrir starfsmenn á nýjum stofnunum sem verið er að koma á fót fyrir unglinga með alvarlegan hegðunarvanda . Uppbygging þessara stofnana Í Noregi og raunar einnig Svíþjóð, byggir á þekkingu sem safnast hefur saman um sambærilegar stofnanir í heiminum, sbr. yfirlitsrannsókn frá árinu 2003 sem komið hefur út í bókarformi (Tore Andreassen: Behandling af ungdom i institutioner. Hva sier forskningen? Oslo: Kommunalforlaget.). Þar var sérstaklega mælt með ART þjálfun.

Barnaverndarstofa hefur væntingar til þess að þjálfun starfsmanna meðferðarheimila í ART-komi að miklu gagni. Á Stuðlum undirgengust allir starfsmenn stofnunarinnar, um 25 að tölu, fjögurra daga grunnþjálfun. Að auki mun stór hluti þeirra einnig fá fimm daga framhaldsþjálfun til að gerast ART-leiðbeinendur. Með þessu móti er þess vænst að á Stuðlum nái að myndast eins konar miðstöð fyrir ART-þjálfun sem nýta má á ýmsan hátt, jafnvel einnig utan stofnunarinnar. Með því mætti hugsa sér að draga mætti úr þörf fyrir sólahringsvistun barna.

ART var upphaflega þróað af Arnold Goldstein og félögum við Syracuse háskólann í Bandaríkjunum fyrir unglinga með alvarlegan hegðunarvanda. ART hefur á seinni árum náð til breiðari hóps og er í dag útbreytt í Norður Ameríku og víða í Evrópu, ekki síst Noregi og Svíþjóð. Þjálfunin er notuð á meðferðarstofnunum, í leik- og grunnskólum, á sjúkrastofnunum og hefur einnig verið aðlöguð að fullorðnum. Starfandi eru alþjóðasamtökin ICART, International Center for Agression Replacement Training (sjá heimasíðu hér).

Nýjustu fréttir

19. okt. 2021 : Samanburður á fjölda tilkynninga fyrstu 9 mánuði 2019-2021

Tilkynningum vegna kynferðislegs ofbeldis fjölgar

Lesa meira

12. okt. 2021 : Náum áttum - morgunverðarfundur miðvikudaginn 13. október 2021 kl. 8:30-10:00 á Zoom

Náum áttum er samstarfshópur um fræðslu- og forvarnarmál eftirfarinna aðila: Barnaheill-Save the Children á Íslandi, Barnaverndastofa, Embætti landlæknis, Félag fagfólks í frístundaþjónustu, FRÆ Fræðsla og forvarnir, Heimili og skóli, IOGT á Íslandi, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umboðsmaður barna, Vímulaus æska/Foreldrahús og Þjóðkirkjan.

 

Yfirskift fundarins er: Leiðir að félagsfærni og vellíðan barna í skólum og er fundurinn opinn öllum sem hafa áhuga. Nánari upplýsingar um fundinn má nálgast hér .

Skráning fer fram á naumattum.is

Hjólabrettastelpa

23. ágú. 2021 : Samanburður á fjölda tilkynninga fyrstu 6 mánuði 2019-2021

Tilkynningum vegna kynferðislegs ofbeldis fjölgar

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica