Starfsálag í barnavernd

19 maí 2009

Í byrjun ársins bárust félags- og tryggingamálaráðherra ábendingar um hættu á vaxandi álagi á barnaverndarnefndir og barnaverndarstarfsmenn í kjölfar efnahagsvanda þjóðarinnar. Af því tilefni ákvað ráðherra í samráði við forstjóra Barnaverndarstofu að fela stofunni að heimsækja hverja og eina barnaverndarnefnd í landinu og eiga með nefndunum samræður vegna þeirra aðstæðna sem nú ríkja. Tilgangur heimsóknanna var einkum sá að leggja mat á starfskilyrði, verkefni og úrræði nefndanna, þ.m.t. starfsmannahald, í ljósi vaxandi fjölda barnaverndartilkynninga. Jafnframt var leitast við að leiða í ljós möguleika nefndanna til að bregðast við enn meira álagi sem ætla má að óhjákvæmilega verði í kjölfar efnahagshrunsins og með hvaða hætti Barnaverndarstofa geti best liðsinnt nefndunum við þær aðstæður.

Barnaverndarstofa hefur nú þegar fundað með 27 barnaverndarnefndum en alls eru nefndirnar 30. Fram kom að almennt hefur orðið umtalsverð fjölgun tilkynninga í barnaverndarmálum hjá nefndunum á undanförnum árum og einkum fyrstu mánuði þessa árs. Undanfarið hefur tilkynningum fjölgað lang mest í Reykjavík eða um 40% en algengt er að aukning hafi numið á bilinu 10 til 20% fyrstu þrjá mánuði ársins. Víða um landið hafa barnaverndarnefndir brugðist við þessu aukna umfangi með fjölgun starfsmanna á allra síðustu árum og mánuðum og eru því sæmilega vel settar til að mæta auknu starfsálagi. Það er þó ekki í öllum tilvikum auk þess sem sums staðar á landsbyggðinni hefur reynst torvelt að ráða fagfólk til starfa.

Hjá barnaverndarnefndum landsins starfa ríflega 100 starfsmenn sem sinna móttöku tilkynninga og könnun mála. Erfitt er að bera sveitarfélögin saman þar sem skipulag er ólíkt milli sveitarfélaga og víða um samþætta þjónustu að ræða sem eykur samlegðaráhrif milli málaflokka og auðveldara verður að bregðast við sveiflum varðandi álag. Þá má segja að enginn einn mælikvarði sé til sem gerir kleift að bera saman ástand mála í ólíkum umdæmum barnaverndarnefndanna. Á hinn bóginn má bera saman ólíkar vísitölur sem varpað geta ljósi á álag á barnaverndarnefndirnar. Ein leiðin er sú að meta fjölda barnaverndarstarfsmanna í hlutfalli við barnafjölda innan umdæmis. Félagsleg samsetning íbúa getur þó verið ólík svo slíkur samanburður gefur einn og sér ekki rétta mynd. Fjöldi barnaverndartilkynninga annar vegar og fjöldi þeirra mála sem er til meðferðar hjá nefndunum eru ekki síðri vísbendingar um það álag sem hvílir á þeim. Þá getur hlutfall þeirra tilkynninga sem fara í könnun skv. barnaverndarlögum gefið mikilvægar vísbendingar. Þannig má t.d. ætla að lágt hlutfall tilkynninga sem teknar eru könnunar endurspegli takmarkaða getu nefndanna til að anna málafjölda og öfugt.

Í meðfylgjandi yfirliti sem kynnt var á fundi borgarráðs 14. maí sl. má sjá samanburð sem gefur mikilsverðar vísbendingar um starfsálag á nokkrum barnaverndarnefndum í stærstu sveitarfélögum landsins. Af töflunni má ráða að barnafjöldi á stöðugildi í barnavernd er mestur í Reykjavík, eða um 1.300 börn, sem er umtalsvert hærri en annars staðar. Þá er árlegur fjöldi mála á hvern barnaverndarstarfsmann mestur í Reykjavík borið saman við önnur sveitarfélög. Loks er fjöldi barnaverndartilkynninga á hvern barnaverndarstarfsmann mestur í Reykjavík, en tveir síðarnefndu þættirnir segja nokkuð um áhrif félagsgerðar samfélagsins á barnaverndarstarf. Tölurnar sem stuðst er við í samanburði á barnaverndartilkynningum og málafjölda eru frá árinu 2007 eða áður en efnahagsþrengingar þjóðarinnar komu til sögunnar. Frá þeim tíma hafa þessar tölur hækkað umtalsvert, Reykjavík í óhag.

Samanburðurinn gefur til kynna að álag á barnavernverndarstarfsmenn í höfuðborginni sé meira en góðu hófu gegnir að mati Barnaverndarstofu og að æskilegt sé að grípa til ráðstafana af því tilefni. Barnaverndarstofa telur þó rétt að fram komi að í þessari niðurstöðu felst ekki mat á gæðum barnaverndarstarfsins í Reykjavík en þar starfar reynslumikið og gott starfsfólk.

Frekari upplýsingar eru væntanlegar þegar Barnaverndarstofa hefur fundað með öllum barnaverndarnefndum landsins.

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica