Yfirlýsing vegna afhendingar þriggja barna til Danmerkur nýlega

13 júl. 2012

Með yfirlýsingu þessari vill Barnaverndarstofa svara þeim erindum sem stofunni hafa borist vegna afhendingar þriggja barna til Danmerkur nýlega

Með vísan til þeirra upplýsinga sem ítrekað hafa komið fram opinberlega af hálfu aðila málsins er um að ræða forsjárdeilu sem hefur verið til meðferðar hjá íslenskum og dönskum dómstólum. Upplýst hefur verið að niðurstaða dómstóla í Danmörku hafi verið sú að foreldrar skyldu sameiginlega fara með forsjá dætra sinna og jafnframt að lögheimili barnanna skyldi vera hjá föður í Danmörku. Eftir að móðir nam dæturnar á brott hafi faðir gert kröfu fyrir íslenskum dómstólum um að fá dætur sínar afhentar í samræmi við ákvæði Haagsamningsins frá 1980 um brottnám barna sem Ísland er aðili að. Í niðurstöðu Héraðsdóms Austurlands, sem staðfest var í Hæstarétti í fyrra, hafi ekki verið fallist á málflutning móður barnanna þess efnis að börnunum stafaði hætta af föður sínum.

Barnaverndarstofa tekur skýrt fram að ákvörðun um innsetningu og framkvæmd hennar í máli þessu er alfarið á ábyrgð sýslumanns með tilvísun til dómsniðurstöðu Hæstaréttar. Í íslenskum lögum er ekki að finna lagaheimildir til þess að íslensk barnaverndaryfirvöld geti gripið inn í ferli sem varðar úrlausn forsjármáls eða ákvarðana er lúta að framkvæmd Haagsamningsins. Í réttarríki ber mönnum að fara að lögum og í því felst að lúta lögmætum úrskurðum dómstóla. Barnaverndarstarfsmenn geta ekki látið mál til sín taka af geðþótta og án lagaheimilda, jafnvel þótt þeir hafi ríka samúð með þeim sem hlut eiga að máli.

Barnaverndarnefndir hafa skyldu til að bregðast við leiki grunur á um að börn hér á landi sæti illri meðferð samkvæmt barnaverndarlögum. Í því máli sem um ræðir hefur móðir haldið því fram að faðir hafi beitt börnin ofbeldi í Danmörku. Það er því skylda barnaverndaryfirvalda í Danmörku, og þarlendrar lögreglu eftir atvikum, að rannsaka þær ásakanir og að bregðast við með viðeigandi hætti. Barnavernd á Íslandi hefur hvorki lögsögu né valdheimildir í málum þegar meintur brotavettvangur er á erlendri grundu og meintur gerandi er erlendur ríkisborgari sem býr í öðru sjálfstæðu ríki. Þannig hafa barnaverndaryfirvöld hér á landi ekki heimildir til könnunar máls, t.d. með öflun upplýsinga frá stofnunum í Danmörku svo sem skóla eða sjúkrahúsi, eða að leggja mat á foreldrafærni og heimilsaðstæður föður barnanna eins og öllum hlýtur að vera ljóst. Barnaverndarstofa gerir hins vegar fastlega ráð fyrir því að dönsk barnaverndaryfirvöld rannsaki ásakanir um ofbeldi og illa meðferð föður á dætrum sínum sem hafa verið bornar fram nú þegar börnin eru komin á danska grund. Áður hefur komið fram í fjölmiðlum að íslensk barnaverndaryfirvöld hafi verið í samvinnu við barnaverndaryfirvöld í Danmörku og sent til þeirra gögn og ábendingar varðandi málið sem hafa svo heimildir til þess að tryggja öryggi barnanna, gerist þess þörf. Ekki er ástæða til að ætla annað en yfirvöldum þar sé treystandi fyrir því verkefni.

Í málum sem þessum bera allir sem koma að þeim hag barnanna fyrir brjósti og vilja tryggja öryggi þeirra, velferð og vellíðan. Það verður ekki gert með því að sniðganga lög og rétt og alþjóðlegar skuldbindingar sem þjóðríki hafa gengist undir með það að leiðarljósi að treysta málsmeðferð í þessum erfiðu málum. Og allra síst gerist það með því að stofnanir samfélagsins grípi til einhverra örþrifaráða sem þær verða síðar gerðar afturreka með á kostnað barnanna sem augljóslega bera mestan skaða af slíku.

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica