Áhrif áfengisneyslu á börn

4 des. 2012

N8-page-001Samstarfshópurinn Náum áttum hefur undanfarin misseri beint sjónum að börnum sem búa við erfiðar aðstæður, s.s. börn foreldra í neyslu. Á fræðslufundi sem haldinn var 17. október sl. var umfjöllunarefnið „Óbein áhrif áfengisneyslu“  og á fræðslufundi Náum áttum þann 14. nóvember sl. hélt þessi umræða áfram með þremur fyrirlestrum um málefnið ,,Hvernig getur samfélagið stutt við börn í erfiðum aðstæðum".

Á fundinum 17 október benti Rafn Jónsson verkefnastjóri áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis t.d. á að ekkert vímuefni valdi ein miklum skaða og áfengið og þótt áfengi sé notað til að „deyfa sársauka“ þá færist vandinn einfaldlega yfir á aðra. Þá benti hann á að skaðinn sé oft tengdur því magni sem neytt er þannig að því meira sem drukkið er því alvarlegri verði afleiðingarnar. Neyslan hafi áhrif á fjölskyldu, vini og atvinnu en einnig fleiri þætti eins og fæðingarþyngd barns, erfiðleika í samskiptum, ofbeldi, skemmdarverk og óöryggi borgaranna.

Á fundinum sagði ung stúlka sögu sína en hún bjó hjá foreldrum til 11 ára aldurs og hefði viljað fá meiri hjálp á þeim tíma. Sagði hún aðstoðina fyrst og fremst hafa beinst að foreldrum hennar. Hún sagðist hafa fengið hjálp frá ýmsum aðilum s.s. læknum og ráðgjöfum en það hafi hjálpað mest að fá tækifæri til að hitta önnur börn í svipaðri stöðu og að fá tækifæri til að vera hluti af félagahóp. Hún ræddi um að hafa skammast sín fyrir foreldra sína og ekki viljað að þeir tæku þátt í skólastarfinu.

Lárus Blöndal sálfræðingur hjá SÁÁ fjallaði einnig um skömmina sem er innifalin í alkóhólismann að börnin þora ekki að segja frá og fá þjálfun í að segja ekki frá vandamálinu heima. Sagði hann að um 80% af sjúklingum sem leggjast inn á geðdeild séu börn alkóhólista. Börn búa við flókið umhverfi þar sem áfengisneysla umlykur allt, s.s. skemmtanir og helstu viðburði. Rannsóknir í Noregi sýna að börn kvíða sumarfrísins, s.s. sólarlandaferða vegna áfengisneyslu foreldra. Börn eru ofurnæm fyrir umhverfi sínu og ættu foreldrar og aðrir fullorðnir að virða það að neyta ekki áfengis þegar börn eru á staðnum.

Fræðslufundur Náum áttum 14. nóvember hélt áfram með þessa umræðu undir yfirskriftinni „Stuðningur við börn í erfiðum aðstæðum“ þar sem Steinunn Bergmann félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu ræddi m.a. um rétt barna til öruggrar umönnunar og verndar gegn hvers kyns vanrækslu og ofbeldi. Barnaverndarnefndum landsins berast árlega 8-9 þúsund tilkynningar er varða um 5 þúsund börn. Þegar árið 2010 er skoðað voru málefni 3.121 barna könnuð í kjölfar tilkynningar, tæplega helmingi mála var lokað í kjölfar tilkynningar en 1.664 börn og fjölskyldur þeirra fengu stuðning inn á heimili. Þá voru 359 börn vistuð utan heimilis árið 2010 og var það í flestum tilvikum í samstarfi við foreldra og börn en barnaverndarnefndir úrskurðuðu um vistun 44 barna í allt að 2 mánuði en dómstólar úrskurðuðu um vistun 16 barna í allt að 12 mánuði. Þá gerðu barnaverndarnefndir kröfu fyrir dómi um sviptingu forsjár 15 barna og náðist sátt fyrir dómi í málum 9 barna en dómstólar úrskurðuðu um sviptingu forsjár 6 barna. Mikilvægt er að hafa í huga að börn foreldra sem eru í neyslu og foreldra sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma eru í áhættu hvað varðar vanrækslu og ofbeldi.

Á fundinum fjallaði Gunnlaug Thorlacius félagsráðgjafi á geðsviði Landspítalans um „Fjölskyldubrúnna“ sem er tilboð til foreldra sem ekki treysta sér sjálfir til að ræða um veikindi sín við börnin. Þverfaglegur hópur á nokkrum deildum Landspítalans hefur fengið þjálfun og handleiðslu til að beita þessari aðferð en erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á góðan árangur þessarar aðferðar. „Fjölskyldubrúin“ byggist á 4-6 vikna íhlutun sem felur í sér vikuleg viðtöl þar sem farið er yfir málin í samstarfi við foreldra og börn.

Hákon Sigursteinsson sálfræðingur á Þjónustumiðstöð Breiðholts ræddi um ávinninginn af samvinnu kerfa. Á þjónustumiðstöðinni er veitt félags- og skólaþjónusta og fá 27% leikskólabarna og 26% grunnskólabarna í hverfinu þjónustu en um er að ræða ráðgjöf til skóla, greiningar á vanda barna og úrræði. Í boði eru fjölbreytt úrræði s.s. ráðgjafinn heim, morgunhani, liðveisla og sértæk námskeið s.s. PMT og kvíðanámskeið HAM. Allir grunnskólar í Breiðholti skima fyrir tilfinningavanda í 9. bekk og hefur það verið gert meðal árganga 1995, 1996, 1997 og 1998 eða meðal 2000 unglinga. Skimun gefur tækifæri til snemmtækrar íhlutunar sem hefur leitt til fækkunar tilvísana skóla til þjónustumiðstöðvarinnar.

Hér er hægt að sjá nánar um fundinn á heimasíðu Náum áttum


Nýjustu fréttir

09. ágú. 2022 : Störf laus til umsóknar

Barna- og fjölskyldustofa auglýsir eftir MST meðferðaraðilum og rekstrarstjóra á Stuðla

Lesa meira
Merki BOFS

13. júl. 2022 : Ráðning forstöðumanns í Barnahúsi

Margrét Kristín Magnúsdóttir hefur verið ráðin í stöðu forstöðumanns í Barnahúsi. 

Lesa meira

20. jún. 2022 : Barna- og fjölskyldustofa gerði samstarfssamning við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands um ritun sögu barnaverndar hérlendis.

Barna- og fjölskyldustofa gerði samstarfssamning við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands um ritun sögu barnaverndar hérlendis en þetta er tileinkað þeim tímamótum að liðin eru 90 ár frá setningu fyrstu barnaverndarlaga hér á landi og rúmlega 25 ár síðan Barnaverndarstofa nú Barna- og fjölskyldustofa var sett á laggirnar. Sigrún Harðardóttir skrifaði undir samninginn fyrir hönd Háskóla Íslands og Ólöf Ásta Farestveit fyrir hönd Barna- og fjölskyldustofu. Skipuð verður 6-8 manna ritnefnd. Áætlað er að fræðiritið komi út fyrri hluta ársins 2024. 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica