Reynsla af tilraunaverkefni vegna heimilisofbeldis

31 maí 2013

Sem kunnugt er hófst tilraunaverkefni vegna heimilisofbeldis 15. september 2011, fyrst til sex mánaða, verkefninu var síðan framlengt til 31. desember 2012 og aftur til 1. júní 2013. Samstarfsaðilar Barnaverndarstofu eru lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og barnaverndarnefndir á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes. Verkefninu lýkur 1. júní nk. og færast bakvaktir vegna heimilisofbeldismála því alfarið til barnaverndarnefnda á ný.

Barnaverndarstofa hefur undanfarin ár haft til athugunar málefni barna sem hafa orðið vitni af heimilisofbeldi og hvernig hægt væri að bæta stöðu þeirra. Í þeirri vinnu hefur verið gefið út fræðsluefni eins og bókin Illi kall og komið á samstarfi við mismunandi aðila. Farið var af stað með tilraunaverkefnið „Hópmeðferð fyrir börn sem búið hafa við ofbeldi á heimili“ og var það starfrækt á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2012. Umræðan í þjóðfélaginu hefur einnig kallað á aukin úrræði fyrir þann hóp barna sem verða vitni af ofbeldi á heimilum sínum. Auk þessa hafa rannsóknir erlendis frá bent á að þar sem lögregla hefur afskipti af heimilisofbeldi verði börn oft útundan í þeirri þjónustu sem veitt er á staðnum. Engin formleg áfallahjálp er í boði fyrir börnin né áframhaldandi aðstoð. Barnaverndarstofa ákvað því að stofna undirbúningshóp til að kanna nánar grunn að samstarfi til að vinna að frekari úrbótum í þessum málaflokki. Í þessum hóp vour aðilar frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu LRH, Barnavernd Reykjavíkur BR, fagdeild félagsráðgjafa í Barnavernd og tveir starfsmenn Barnaverndarstofu. Í framhaldinu var stofnaður faglegur vinnuhópur til að koma verkefninu í framkvæmd. Í þessum hópi voru aðilar frá Barnavernd Reykjavíkur, barnaverndarnefnd Kópavogs og Álftaness og tveir starfsmenn Barnaverndarstofu.   Tilraunaverkefni vegna heimilisofbeldis hófst 15. september 2011 og var áætlað í hálft ár en síðan framlengt til 31. desember 2012 og aftur til 1. júní 2013. Barnaverndarstofa hefur haldið utan um verkefnið en samstarfsaðilar eru Barnaverd Reykjavíkur, barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Kópavogs, Seltjarnaness og Mosfellsbæjar ásamt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Sérfræðingur verkefnisins er Ragna Björg Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi, MSW og sérfræðingur í áfallavinnu með börn. Sérfræðingur verkefnisins starfaði samkvæmt umboði viðkomandi barnaverndarnefnda með vísan í 6. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga nr.80/2002.

Markmið verkefnisins var að veita sérhæfða þjónustu fyrir börn sem búa við þær aðstæður að ofbeldi hefur verið þáttur í heimilislífi þeirra. Verkefninu var ætlað að leiða í ljós líðan og sjónarmið barnanna í því skyni að treysta öryggi þeirra og velferð. Verkefnið náði til barna 18 ára og yngri eins og barnaverndarlög nr.80/2002 kveða á um. Ef barn var of ungt til að tjá sig fengu foreldrar ráðgjöf og stuðning.

Fólst verkefnið í því að sérhæfður starfsmaður á vegum Banaverndarstofu brást við tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eftir k. 16:00 virka daga og um helgar í þeim tilvikum sem lögregla fór í útkall vegna heimilisofbeldis og barn/börn voru á staðnum. Starfssvið sérfræðings var að ræða við barnið/börnin og kanna líðan þeirra, upplifun og viðhorf til þeirra atburðarrásar sem leiddi til lögregluafskipta. Lagði sérfræðingur mat á þörf barnanna fyrir áfallahjálp í kjölfar lögregluafskiptanna og veitti þeim meðferðarviðtöl eins fljótt og við var komið. Meðferðarviðtölin fóru fram í húsnæði samtakanna Drekaslóð, Borgartúni 3, 105 Reykjavík eða eftir samkomulagi ef annar staður hentaði betur. Voru mál barnanna unnin sem hluti af barnaverdarúrræði og gerði sérfræðingur áætlun um meðferðarþörf barnanna og kynnti hana viðkomandi barnaverndarnefnd og forsjáraðilum barns eftir atvikum. Sérfræðingur skilaði greinargerð um hvert barn sem þjónustan tók til og kynnti hana viðkomandi barnaverndarnefnd og eftir atvikum forsjáraðilum barnsins. Hélt sérfræðingur utan um tölulegar upplýsingar í samvinnu við Barnaverndarstofu.

Á þessu eina og hálfa ári hefur sérfræðingur á vegum Barnaverndarstofu fylgt lögreglu á heimili um tvö hundruð barna vegna heimilisofbeldis. Barnaverndarstofa vonast til að með stækkun Barnahúss verði hægt að bjóða upp á meðferð fyrir börn sem búið hafa við heimilisofbeldi. Sérfræðingur Barnaverndarstofu var kallaður til á heimili þrjátíu og fimm barna fyrstu þrjá mánuði verkefnisins. Allt árið í fyrra voru útköllin sextíu og níu á heimilum hundrað og fjórtán barna. Það sem af er þessu ári hefur sérfræðingurinn fylgt lögreglu á heimili sextíu og sjö barna.

Reynslan af verkefninu sýnir fram á mikilvægi þess að brugðist sé við þegar lögregla fer á heimili vegna heimilisofbeldismála og að fjölskyldur eru mótækilegri fyrir aðstoð í kjölfarið.

Barnaverndarstofa fundar með starfsmönnum barnaverndarnefnda og lögreglu á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 5. júní nk. kl. 14-16 í fundarsal Barnaverndarstofu til að fara yfir reynsluna af verkefninu og ræða hvað læra má af því. Fyrirlesari er Ragna Björg Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi MSW og sérfræðingur í meðferð vegna áfalla hjá börnum. Skráning er á netfangið bvs@bvs.is

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica