Barnaverndarstofa og Barnahús vekja athygli í Strasbourg

Ögmundur Jónasson alþingismaður og fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins fjallar um áhrifi Barnaverndarstofu og Barnahúss á barnaverndarstarf í Evrópu.

14 okt. 2015

Ögmundur Jónasson alþingismaður og fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins fjallar í grein sinni í Morgunblaðinu 12. október 2015 um áhrif Barnaverndarstofu og Barnahúss á barnaverndarstarf í Evrópu þar sem íslenska Barnahúsið hefur orðið fyrirmynd annarra þjóða. Bendir hann jafnframt á að forstjóri Barnaverndarstofu, Bragi Guðbrandsson, sem jafnframt er formaður Lanzarote-nefndar Evrópuráðsins hafi leiðandi hlutverk á vettvangi Evrópuráðsins á sviði barnaverndarmála.

Sjá nánar á slóðinni http://ogmundur.is/annad/nr/7686/

Heldur er ég feimnari við það nú en fyrir hrun, þegar Íslendingar berja sér á brjóst og miklast af eigin ágæti. Hins  vegar er ástæða til að hafa orð á því þegar aðrir hrósa okkur fyrir það sem talið er hafa verið vel gert hér á landi og þeim sjálfum mikilvæg fyrirmynd.
Í starfi mínu sem ráðherra og alþingismaður hef ég ítrekað hlustað á það þegar farið er  lofsamlegum orðum um framlag Íslendinga til réttinda barna. Er þá einkum horft til starfs Barnaverndarstofu og Barnahússins sérstaklega.

Íslands jafnan getið

Nú síðast á þingi Evrópuráðsins í Strasbourg, sem fram fór um síðustu mánaðamót var framlag Íslands gert að umræðuefni á fundi félagsmálanefndar Evrópuráðsins. Þingkona frá Kýpur sagði stolt frá því að ákvörðun hefði nú verið tekin um að opna Barnahús „að íslenskri fyrirmynd" á Kýpur. Leitað hefði verið ráða hjá forstjóra Barnaverndarstofu, Braga Guðbrandssyni en hann væri jafnframt formaður svokallaðrar Lanzerote nefndar Evrópuráðsins.
Nefndin er kennd við Lanzerote, sem er austust Kanaríeyja og tilheyrir Spáni. Þar var haustið 2007 gengið frá samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðisofbeldi. Samningurinn tók gildi árið 2010 og hafa 38 aðildarríki Evrópuráðsins þegar fullgilt hann en þau níu sem eftir standa hafa öll undirritað samninginn. Ísland undirritaði samninginn árið 2008 en fullgilti hann síðan í ársbyrjun 2013. Fyrrnefnd Lanzerote nefnd fylgist síðan  með framkvæmd þessa samnings og er mjög horft til hennar um leiðsögn og álit á þessu sviði.

Afstaða til barna að breytast

Viðhorf til réttinda barna hafa verið að þróast og breytast á undanförnum árum og áratugum. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er nú orðinn rúmlega aldarfjórðungs gamall en hann var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989. Við fullgiltum hann 1992 og lögleiddum síðan 2013.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna byggir á réttindum barna; það eigi að hlusta á börn og að þau eigi sjálfstæðan rétt sem beri að virða.
Fram til þessa hafði í alþjóðlegum sáttmálum fyrst og fremst verið horft til verndar barna, hvernig þau yrðu best vernduð.
Segja má að íslenska Barnahúsið byggi á þessu tvennu, að vernda barnið og hlusta á það. Þetta er hugmyndafræðin sem Barnahúsið íslenska er reist á. Þar er framast öllu leitast við að sýna barninu fulla tillitssemi og  virðingu sem einstaklingi. Í stað þess að barn, sem grunur leikur á að hafi verið misnotað, undirgangist rannsóknir og yfirheyrslur á aðskiljanlegum stöðum með tilheyrandi áhyggjum og kvöl, fer öll rannsóknarvinna nú fram undir þaki Barnahúss í vinsamlegu umhverfi og undir leiðsögn sérhæfðs fólks.

Kýpur og Litháen bætast í hópinn

Þarna voru Íslendingar frumkvöðlar sem áður segir. Við stofnsettum okkar Barnahús 1998, þremur árum eftir að Barnaverndarstofa var sett á laggirnar, en aðrar þjóðir komu í kjölfarið. Svíar opnuðu sitt fyrsta Barnahús 2005, þau eru nú 30 talsins Í Svíþjóð, Norðmenn 2007, þau eru nú tíu talsins í Noregi, Danir 2013, í Danmörku eru nú fimm Barnahús, Finnar áætla að opna sitt fyrsta á næsta ári. Grænlendingar, Færeyingar og Álandseyjar eru einnig komnir með sitt Barnahús. Kýpur og Litháen bætast síðan í hópinn á þessu ári - allt undir íslenskum ráðleggingum og ráðgjöf.

Fylgst með Íslendingum í aðildarríkjum Evrópuráðsins

Íslendingar veita ómældu fé til aðskiljanlegs fjölþjóðlegs starfs á vegum ESB, NATÓ, OECD, SÞ og fleiri stofnana. Deila má um gagnsemi ýmislegs sem við tökum okkur fyrir hendur á alþjóðavettvangi. En hvað varðar starf er lýtur að réttindum barna á vegum Evrópuráðsins er um að ræða mannréttindastarf sem hefur sýnt sig að hafa skilað árangri. Ástæða er til að gleðjast yfir því, jafnframt sem vakin er athygli á mikilvægi þess að styðja af alefli við þennan mikilvæga málaflokk, að sjálfsögðu fyrst og fremst barnanna vegna.
Vert er að hafa í huga að augu annarra hvíla á okkur.
Ögmundur Jónasson,
fulltrúi á þingi Evrópuráðsins í Strasbourg


Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica