Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndanefnda og umsókna um þjónustu Barnaverndarstofu fyrir árin 2014 og 2015.  

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði um rúmlega 4% milli áranna og umsóknum um meðferð fækkaði um 15,2% á árinu 2015 miðað við árið á undan.

1 mar. 2016

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu nefndanna á árunum 2014 og 2015. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í ársskýrslu Barnaverndarstofu. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2014 og 2015. Tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði um rúmlega 4% milli áranna 2014 og 2015. Fjöldi tilkynninga á árinu 2015 var 8.519 tilkynningar, en 8.893 árið á undan. Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði lítið en fækkunin var 12,5% á landsbyggðinni. Þess ber að geta að tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningarinnar.

Flestar tilkynningar á árinu 2015 voru vegna vanrækslu eða 37,9% tilkynninga. Hlutfall tilkynningar á árinu 2014 vegna vanrækslu var 39,7%. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis var 25,6% á árinu 2015, en 22,4% árið á undan. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 35,9% á árinu 2015, en 37,3% árið á undan. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var 0,6% bæði árin. Tilkynningum um vanrækslu fækkaði um 8,5%, tilkynningum um áhættuhegðun barna fækkaði um 7,9%, en tilkynningum um ofbeldi fjölgaði um 9,5%. Hlutfall tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var 11,5% á árinu 2015, en 11,0%  árið á undan. Í tilkynningum um ofbeldi var hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða 7,3% á árinu 2015 en 5,6% árið á undan. Fjöldi tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var svipaður bæði tímabilin, en tilkynningum um ofbeldi þar sem um heimilisofbeldi var að ræða fjölgaði um tæplega 26%.

Umsóknum um meðferð fækkaði um 15,2% á árinu 2015 miðað við árið á undan. Umsóknum um Stuðla fækkaði úr 46 umsóknum í 36 umsóknir, umsóknir um önnur meðferðarheimili (Laugaland, Lækjarbakka og Háholt) fækkaði úr 30 umsóknum í 23 umsóknir og umsóknum um MST fækkaði úr 95 umsóknum í 86 umsóknir. Fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan heimilis er talin koma til greina. Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Frá því í febrúar 2015 hefur þjónusta MST náð til alls landsins, en áður var þjónustusvæðið miðað við 60 min. akstursfjarlægð frá Reykjavík. Fleiri umsóknir um Stuðla og MST voru vegna drengja á árinu 2015 en um langtímameðferðarheimili voru umsóknir fyrir stúlkur fleiri. Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði um 16,7% eða úr 120 í 140 milli áranna 2014 og 2015. Beiðnum fjölgaði mest um styrkt fóstur. Flestar beiðnir voru frá Reykjavík bæði árin og fjölgaði beiðnum mest þar. Fleiri beiðnir bárust fyrir drengi á árinu  2015.

Í Barnahúsi fjölgaði rannsóknarviðtölum úr 221 á árinu 2014 í 240 á árinu 2015 eða um 8,6%. Skýrslutökum fjölgaði úr 77 í 126 milli ára en könnunarviðtölum fækkaði úr 144 í 114. Greiningar- og meðferðarviðtölum fækkaði úr 141 viðtali í 115 viðtöl. Stúlkur voru í meirihluta þeirra barna sem komu í rannsóknarviðtöl, 68,3% á árinu 2015, en 67,4% árið á undan. Frá því í mars 2015 hefur Barnahús einnig sinnt skýrslutökum og meðferð barna sem hafa upplifað líkamlegt ofbeldi og/eða heimilisofbeldi.

Vistanir á lokaðri deild Stuðla voru 176 á árinu 2015 en 163 árið á undan. Vistunum fjölgaði því um 8,0% milli ára. Vistunardögum fjölgaði úr 1.102 í 1.59 eða um rúmlega 5%. Fjöldi einstaklinga var 84 börn á árinu 2015 en 81 barn árið á undan og voru fleiri drengir bæði árin.

Umsóknir um leyfi til að gerast fósturforeldrar voru 59 á árinu 2015 en 61 árið á undan. Flestar umsóknir voru frá Reykjavík og nágrenni.

Hér er hægt að skoða samanburðarskýrsluna í heild sinni.


Nýjustu fréttir

Hjólabrettastelpa

24. nóv. 2022 : Barnavernd á Covidtímum - kynferðisofbeldi gegn börnum

Barna-og fjölskyldustofa fer af stað með röð málstofa undir yfirskriftinni “Barnavernd á Covidtímum”.

Lesa meira

10. nóv. 2022 : Morgunverðarfundur Náum áttum 16. nóvember n.k.

Börn sem beita ofbeldi

Lesa meira

17. okt. 2022 : Morgunverðarfundur Náum áttum 19. október 2022

Ungmenni og vímuefni - áhrifaþættir í uppeldi

Lesa meira
Hjólabrettastelpa

06. okt. 2022 : Barnavernd á Covid tímum - málstofa 7. október n.k.

Þann 7. október 2022 er fyrsti fundur af fjórum þar sem fjallað verður sérstaklega um líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn börnum á Covidtímum. Einstaklingar frá Barna- og fjölskyldustofu, Barnahúsi, Barnavernd Reykjavíkur og Kvennaathvarfinu koma til okkar og halda stutt erindi.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica