Fréttir


Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og Barnaverndastofa efla samstarf um kennslu og rannsóknir

29.5.2020

Barnaverndarstofa og Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands hafa um áratugaskeið átt gott samstarf um nám og kennslu sem tengist barnavernd og markmið nýs samnings er að efla það enn frekar í þágu barnaverndarstarfs á landinu öllu.

Samkvæmt samningnum munu sérfræðingar Barnaverndarstofu sinna að kennslu í Félagsráðgjafardeild eins og kostur er og jafnframt veita ráðgjöf vegna kennslu á sviði barnaverndar í bæði grunn- og framhaldsnámi í félagsráðgjöf. Þar er aðallega horft til barnaverndarlaga, skipulagra vinnubragða, notkunar gagnreyndra aðferða og mælitækja. Aðilarnir tveir munu jafnframt vinna að því að nemendur í félagsráðgjöf fái starfsþjálfun á vinnustöðum barnaverndar.

Barnaverndarstofa mun skipa fulltrúa í starfshóp Félagsráðgjafardeildar sem ætlað er að skoða hvernig efla má rannsóknir á barnaverndarstarfi og nýta þær í þágu samfélagsins. Starfshópnum er einnig ætlað að veita ráðgjöf og gera tillögur um kennslu á sviði barnaverndar við deildina.

Barnaverndarstofa og Félagsráðgjafardeild munu vinna sameiglega að stefnumótun um rannsóknir og þróunarverkefni á sviði barnaverndar, en hún tekur m.a. til rannsóknarverkefna framhaldsnema í starfsréttindanámi, vísindarannsókna og vísindamiðlunar á sviði barnaverndar og ritunar sögu barnaverndar hér á landi.

Samningurinn tekur þegar gildi en þess má geta að fyrsta verkefnið sem unnið verður í tengslum við hann er greining á stöðu þekkingar á sviði barnaverndar hér á landi. Hana vinnur nemandi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands í sumar fyrir tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna og undir leiðsögn fulltrúa Barnaverndarstofu og Félagsráðgjafardeildar.

BG_barnaverndarstofa_hi_200526_001-minnst-

Guðný Björk Eydal, prófessor og deildarforseti Félagsráðgjafardeildar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, handsala samninginn nýja í takt við sóttvarnakröfur samtímans.

 

BG_barnaverndarstofa_hi_200526_004-minnst

Fulltrúar Háskóla Íslands og Barnaverndastofu glaðbeitt að lokinni undirritun samningsins.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica