Fréttir


Greining á tölulegum upplýsingum fyrir árið 2020

5.2.2021

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:

 

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgar, hlutfallslega mest vegna ofbeldis

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 15,8% á árinu 2020 miðað við árið á undan en alls bárust 13.142 tilkynningar. Tilkynningum fjölgaði í öllum landshlutum en hlutfallslega fjölgaði tilkynningum mest á landsbyggðinni, eða 17,9% á milli ára. Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um árið 2020 var 10.400 börn en er það samanlagður heildarfjöldi barna í hverjum mánuði fyrir sig.

Flestar tilkynningar árið 2020 bárust vegna vanrækslu, eða 43,1% allra tilkynninga. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 27,1% árið 2020 og er það lægra hlutfall en síðustu tvö ár. Tilkynningum vegna ofbeldis fjölgar um 25,9% á milli ára eða alls 3.765 tilkynningar árið 2020. Þá er hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis árið 2020 stærri hluti af heildartilkynningum en árin tvö á undan, eða 28,6%.

Fjöldi tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu voru 2.114 og er það 16,1% allra tilkynninga árið 2020. Er það hærra hlutfall en árin á undan.Tilkynningum fjölgaði í öllum flokkum ofbeldis á milli ára. Flestar tilkynningar sem bárust vegna ofbeldis vörðuðu tilfinningalegt ofbeldi en hlutfall þeirra af heildarfjölda tilkynninga árið 2020 var 18,6%.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 38,8% tilkynninga árið 2020 líkt og fyrri ár. Þá hefur verið mikil fjölgun tilkynninga frá nágrönnum á milli ára. Árið 2020 bárust 1.032 tilkynningar frá nágrönnum, er það 37.2% fleiri tilkynningar en bárust árið 2019.

Umsóknum um meðferðarúrræði Barnaverndarstofu fjölgar

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fjölgaði árið 2020 miðað við árið á undan eða 168 umsóknir miðað við 154 árið á undan.

Flestar umsóknir bárust um fjölkerfameðferð (MST). Fjölgun hefur verið á umsóknum á Stuðla á milli ára, en fækkun vegna annarra meðferðarheimila en Stuðla.

Beiðnir um tímabundið fóstur árið 2020 voru svipað margar og árið á undan en fjölgun hefur verið á beiðnum um varanlegt fóstur á milli ára.

Veruleg fjölgun skýrslutaka í Barnahúsi

Rannsóknarviðtölum árið 2020 fjölgaði um 30% miðað við árið á undan og voru 334 árið 2020.

Má skýra stóran hluta þessarar aukningu vegna aukins fjölda skýrslutaka en skýrslutökur fyrir dómi voru 220 árið 2020, samanborið við 150 árið á undan. Fjöldi barna sem fór í greiningar- og meðferðarviðtöl í árið 2020 var 133 börn. Er það fjölgun frá árunum á undan.

Vistunum og vistunardögum á lokaðri deild Stuðla fækkar

Vistunum á lokaðri deild á Stuðlum fækkaði úr 220 í 152 árið 2020 samanborið við árið á undan. Þá fækkaði vistunardögum úr 1.157 dögum árið 2019 í 754 daga árið 2020. Alls komu 69 börn á lokaða deild árið 2020, en þau voru 82 árið á undan.

Skýrsluna má nángast hér


Þetta vefsvæði byggir á Eplica