Fréttir


Styrkt fóstur -nýtt úrræði í barnavernd

10.4.2003

Í barnaverndarlögum nr. 80/2002 (bvl.) sem tóku gildi sl. sumar er að finna nýtt ákvæði í 4. mgr. 65. gr. þeirra sem varðar nýtt meðferðarúrræði sem nefnt hefur verið styrkt fóstur. Þar kveður á um að unnt sé að veita barni sem fara þarf af heimili sínu um stundarsakir sérstaka umönnun og þjálfun á einkaheimili (fósturheimili) í stað þess að vista það á stofnun.

Barnaverndarstofa veitir leyfi til að taka barn í styrkt fóstur. Skilyrði fyrir styrktu fóstri er að uppfyllt sé viðmið um „sérhæfða meðferð” skv. c. lið 79. gr bvl. Hér er um að ræða að barn eigi við verulega hegðunarerfiðleika að stríða, uppfyllt séu skilyrði um að vista barnið á heimili eða stofnun skv. 79. gr. bvl. og nauðsynlegt þyki að koma barni í fóstur í stað þess að vista það á meðferðarstofnun.

Mat á þörf er byggt á gögnum frá barnaverndarnefndum, þ. á m. um tilraunir þeirra til að beita vægari úrræðum (sjá m.a. 24. gr. laganna) og niðurstöðum rannsóknaraðila svo sem meðferðarstöðvar ríkisins, Stuðla.

Barnaverndarstofa hefur sett sérstakar verklagsreglur um styrkt fóstur og er þær að finna á heimasíðu stofunnar. Þar má lesa nánar um mat á hæfni fósturforeldra og þjálfun þeirra, leyfi til að taka barna í styrkt fóstur, val á fósturforeldrum, fóstursamninga, greiðslur, ráðgjöf og eftirlit, undirbúning o.fl.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica