Fréttir


Norræn Barnaverndarráðstefna 2003

2.9.2003

Norræna barnaverndarráðstefnan var haldin í Reykjavík dagana 28.-31.ágúst sl. en ráðstefnur af þessu tagi eru haldnar til skiptis á Norðurlöndunum á þriggja ára fresti. Barnaverndarstofa, í samstarfi við Barnaheill - Save the Children Iceland, bar hitann og þungann af skipulagningu ráðstefnunnar í samvinnu við aðrar aðrar stofnanir er sinna barnavernd á Íslandi. Mikil og góð þátttaka var á ráðstefnunni að þessu sinni, alls tóku þátt um 560 manns. Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson ávarpaði gesti við setningu ráðstefnunnar fimmtudaginn 28. ágúst. Dagskráin samanstóð af fyrirlestrum í aðalsal, málstofum sem þátttakendur völdu á milli og heimsóknum til fjölmargra stofnana er sinna barnavernd. Meðal fyrirlesara var prófessor Nigel Parton frá háskólanum
í Huddersfield á Englandi sem talaði um "The challenge of child abuse in late modern societies". Hann fjallaði um þá þætti sem hafa haft áhrif á þróun barnaverndar og samspil þess að vernda börn fyrir hættum og virða börn sem sjálfstæða einstaklinga. Turid Vogt Grinde, fræðimaður hjá NOVA (Norsk institutt for forskning om oppvekst, velferd og aldring) talaði um "Nordisk barnevern: Terskelen for barnevernstiltak og beslutningsprosessen ved bruk av tvang" og gerði grein fyrir norrænni rannsókn um þetta efni sem Barnaverndarstofa hefur m.a. tekið þátt í og mun væntanlega ljúka á þessu ári. Prófessor Guðrún Kristinsdóttir gerði grein fyrir bráðabirgðaniðurstöðum rannsóknar sem hún vinnur að fyrir Barnaverndarstofu um reynslu þeirra sem verið hafa í varanlegu fóstri og vonir standa til að varpi ljósi á þá þætti sem líklegastir eru til að hafa áhrif á það hvenær fóstur heppnast best. Mona Sandbæk frá NOVA talaði um "Klientbarn sem kompetente og saarbare aktörer" og lagði áherslu á réttindi og þátttöku barna og athyglisverð sjónarmið á svipuðum nótum komu einnig fram hjá Bente Nielsen forstöðumanni Baglandet Aarhus og Henrik Egelund Nielsen frá Dansk Socialraadgiverforening í erindi þeirra "Hvad siger tidligere anbragte om inddragelse, information og höring af barnet i anbringelseprocessens forskellige faser". Prófessor Tom Erik Arnkil sem starfar hjá Stakes (National Research and Development Centre for Welfare and Health) í Finnlandi hélt fyrirlestur sem hann kallaði "Anticipation dialogues in the grey zone of worry" og varpaði mjög áhugaverðu ljósi á sjónarhorn mismunandi aðila er sinna barnavernd og skipulagi á samstarfi ólíkra aðila er að málum koma. Aðrir fyrirlestrar voru í boði auk þess sem þátttakendur gátu valið 4 af 28 málstofum um fjölbreytileg viðfangsefni tengd barnavernd, t.d. ýmis rannsóknarverkefni, úrræði fyrir börn í vanda, sértæk vandamál, skipulag barnaverndar og vinnslu barnaverndarmála. Boðið var upp á heimsóknir á hinar ýmsu stofnanir, s.s. Barnaverndarstofu, Barnahús, Torfastaði, Hvítárbakka, Árvelli og Stuðla sem eru meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu, og stofnanir eða úrræði á vegum Reykjavíkurborgar og Kópavogs. Félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, sleit svo ráðstefnunni með ávarpi sunnudaginn 31.ágúst.
Aðalfyrirlestrar ráðstefnunnar munu birtast heimasíðu Barnaverndarstofu um leið og þeir berast okkur.
Smellið hér til að sjá fyrirlestrana.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica