Fréttir


Sylvia drottning heimsækir Barnahús

8.9.2004

Við undirbúning opinberrar heimsóknar sænsku konungshjónanna til Íslands kom fram að hennar hátign Sylvía drottning Svíþjóðar óskaði sérstaklega eftir að heimsækja Barnahúsið og kynnast starfsemi þess. Í þessu er fólginn mikill heiður því Sylvía hefur um árabil unnið mikið starf á alþjóðlegum vettvangi í þágu barna, ekki síst á sviði kynferðisofbeldis. Drottningin stofnaði m.a. World Childhood Foundation, sem hefur aflað fjár til ýmissa stórra verkefna í þágu barna í heiminum á liðnum árum.

Í för með Sylviu drottningu var forsetafrúin Dorit Moussaieff, ásamt föruneyti. Forstjóri Barnaverndarstofu, forstöðumaður hússins og starfsfólk þess ásamt fulltrúum frá Landspítala, Ríkissaksóknara, Ríkislögreglustjóra og dómsstjóra Héraðsdóms Reykjaness voru viðstaddir og veittu drottningunni upplýsingar um stofnun og starfsemi Barnahúss. Í heimsókninni kom glögglega í ljós hin yfirgripsmikla þekking og áhugi drottningarinnar á málefnum barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi. Lauk hún miklu lofsorði á þeirri hugmyndafræði sem liggur til grundvallar Barnahúss.

Þess má geta að áhugi drottningar kom ekki allskostar að óvörum því á ráðstefnu sænsku Polis Akademiunnar í Stokkhólmi haustið 2002, en drottningin var verndari hennar, óskaði Sylvia eftir viðræðum við forstjóra Barnaverndarstofu um Barnahúsið, en hann flutti erindi á ráðstefnunni.

Það er mikið ánægjuefni hvað Barnahús hefur fengið mikla alþjóðlega athygli. Á þessu ári hafa margir erlendir gestir komið í vettvangsskoðun í Barnahúsið og má þar til dæmis nefna dómsmálaráðherra Svíþjóðar og Noregs. Þá hafa forstjóri Barnaverndarstofu og forstöðumaður Barnahúss flutt fyrirlestra á námskeiðum og ráðstefnum í Svíþjóð og Danmörk um stofnun og starfsemi hússins, að beiðni opinberra aðila og félagasamtaka, svo sem verið hefur undanfarin ár.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica