Fréttir


Barnahúsið vekur enn alþjóðaathygli

18.7.2005

Eins og mörgum er kunnugt um hefur í tvígang verið efnt til Alheimsráðstefna um kynferðisofbeldi gegn börnum í verslunarskyni, sú fyrri í Stokkhólmi 1996 og sú síðari í Yokohama í desember 2001. Á þessum ráðstefnum hafa sendinefndir frá hátt á annað hundrað ríkja átt fulltrúa en tilgangur þeirra hefur verið að efla samstöðu og samhæfingu ríkja veraldar í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á börnum. Dagana 8-9. júlí sl. var efnt til ráðstefnunnar “Yokohama review combating Sexual Exploitation of Children” sem var svæðisbundinn samráðsfundur ríkja Evrópu og Mið Asíu”. Tilgangur ráðstefnunnar var einkum að skapa vettvang fyrir ríkin á þessu svæði til að bera saman bækur sínar um framkvæmd Yokohama samþykktarinnar og deila reynslu sinni um árangursríkar aðgerðir í þeim efnum. Ráðstefnan var skipulögð af ríkisstjórn Slóvaníu í samvinnu við Evrópuráðið og UNICEF.

Lagadeild Evrópuráðsins fór þess á leit við Braga Guðbrandsson, forstjóra Barnaverndarstofu, að hann flytti erindi á ráðstefnunni um Barnahúsið á Íslandi. Eins og svo oft áður á erlendum vettvangi vakti hugmyndafræðin að baki Barnahússins mikil viðbrögð fulltrúa á fundinum sem og fjölmiðla. Um niðurstöður fundarins má lesa á vefsíðu UNICEF: http://www.unicef.org/ceecis/media_2167.html

Þetta vefsvæði byggir á Eplica