Fréttir


Barnahús opnar í Svíþjóð!

28.9.2005

Á morgun, föstudaginn 30. sept. verður fyrsta Barnahúsið í Svíþjóð opnað í Linköping með formlegri athöfn, að viðstaddri Silvíu drottningu. Svíar hafa sótt fyrirmyndina til Íslands og sýna okkur sérstaka viðurkenningu og heiður með því að bjóða Braga Guðbrandssyni forstjóra Barnaverndarstofu ásamt sendiherra Íslands í Stokkhólmi að vera viðstadda opnunarathöfnina. Þá er gert ráð fyrir því að forstjóri stofunnar haldi ræðu við athöfnina og taki þátti í fréttamannafundi af þessu tilefni, sbr. meðfylgjandi dagsskrá.

Svo sem kunnugt er hefur íslenska Barnahúsið vakið mikla athygli á erlendum vettvangi, einkum á Norðurlöndunum. Í Linköping hefur verið miðstöð Svía í rannsóknum og meðferð kynferðisbrota á börnum, sem nefnd er BUB-Elefanten. Sérfræðingar stöðvarinnar hafa lengi haft áhuga á að setja á laggirnar Barnahús að íslenskri fyrirmynd. Það er nú orðið að veruleika - einkum fyrir frumkvæði Silvíu drottningar.

Eins og kunnugt er komu sænsku konungshjónin í opinbera heimsókn haustið 2004 og heimsótti Silvía þá Barnahúsið. Óhætt er að segja að drottningin hafi hrifist af þeirri hugmyndafræði sem starfsemin grundvallast á því í kjölfarið beitti hún sér sérstaklega fyrir stofnun hússins í Svíþjóð. Silvía drottning er stofnandi World Childhood Foundation, sem hefur að markmiði að bæta réttindi og aðstæður barna í heiminum (sjá http://www.childhood.org/). Fékk hún því framgengt að veitt var sérstöku fjármagni úr sjóðnum til þess að Barnahús gæti orðið að raunveruleika í Svíþjóð sem fyrst.

Þess má geta að uppi eru áform um að setja á laggirnar fleiri Barnahús í Svíþjóð. Þá hefur norska dómsmálaráðuneytið sett á laggirnar vinnuhóp sem ætlað er að skoða það fyrirkomulag sem Barnahúsið byggir á við rannsókn og meðferð kynferðisbrota gegn börnum og hefur verið leitað liðsinnis Barnaverndarstofu í þeirri vinnu.

Boðskort

Dagskrá

Þetta vefsvæði byggir á Eplica