Fréttir


Vísbendingar um áhrif efnahagshruns?

2.6.2009

Þegar fyrstu fjórir mánuðir áranna 2008 og 2009 eru bornir saman kemur í ljós að tilkynningum hefur fjölgað úr 2.524 í 3.076. Fjölgunin milli ára fyrir landið í heild er 21,9%.
Hlutfall tilkynninga er mest í Reykjavík, en fjölgunin þar er tæp 40% ef bornir eru saman fyrstu fjórir mánuðir áranna 2008 og 2009.

Flestar tilkynningar fyrstu fjóra mánuði ársins 2009 voru vegna áhættuhegðunar barna eða 48,1% allra tilkynninga. 32,2% tilkynninga voru vegna vanrækslu á börnum, 19,4% vegna ofbeldis gegn börnum og 0,3% vegna þess að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu.

Umsóknum um meðferð og greiningu hefur fjölgað á þessu tímabili. Umsóknir voru 49 á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2008 en 55 á sama tímabili árið 2009. Umsóknum um Stuðla fjölgaði úr 22 í 30. Umsóknum um langtímameðferð fækkaði hins vegar úr 13 fyrstu fjóra mánuði ársins 2008 í 9 fyrstu fjóra mánuði ársins 2009.

Á neyðarvistun Stuðla voru fyrstu fjóra mánuði ársins 2009 108 vistanir, en vistunardagar samtals 562. Fyrstu fjóra mánuði ársins 2008 var ekki hægt að fullnýta neyðarvistun vegna bruna sem þar hafði átt sér stað. Raunhæfast er því að bera saman við árið 2007 og kemur þá í ljós mikil aukning, en fyrstu fjóra mánuði ársins 2007 voru 69 vistanir og vistunardagar samtals 435 dagar. Innlögnum á neyðarvistun Stuðla hefur því fjölgað verulega á fyrstu mánuðum þessa árs samanborið við fyrstu fjóra mánuði ársins 2007.

Umsóknir um MST fyrstu fjóra mánuði ársins 2009 voru 24. MST er gagnreynd aðferð til að meðhöndla alvarlegan hegðunarvanda unglinga á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimili fjölskyldunnar. Byrjað var að bjóða upp á MST meðferð um miðjan nóvember sl.

Umsóknum um fósturheimili fyrir börn fjölgaði úr 18 í 37 á umræddu tímabili. Mest var fjölgunin í umsóknum um tímabundið fóstur eða úr 12 í 30 á umræddu tímabili.
Umsóknum fólks sem óskar eftir að gerast fósturforeldrar hefur fjölgað og voru umsóknir 19 á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2009, en voru 14 á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2008.

Hér má sjá sundurliðun á þessum samanburði.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica