Fréttir


Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu fyrstu sex mánuði áranna 2009 og 2010

7.10.2010

Barnaverndarstofa birtir nú samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu nefndanna fyrir fyrstu sex mánuði áranna 2009 og 2010. Einnig kemur fram fjöldi umsókna um þjónustu þeirra úrræða sem rekin eru á vegum Barnaverndarstofu, fyrstu sex mánuði áranna 2009 og 2010.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um rúmlega 3% fyrstu sex mánuði ársins 2010 samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2009. Þetta er svipuð fjölgun og var í samanburði fyrstu þrjá mánuði áranna 2009 og 2010, en fjölgunin þá var um 3%. Nokkur munur er eftir landsvæðum, en tilkynningum fjölgaði lítillega á höfuðborgarsvæðinu, en fjölgunina á landsbyggðinni var tæplega 10%.

Flestar tilkynningar voru vegna áhættuhegðunar barna eða 46,7% tilkynninga fyrstu sex mánuði ársins 2010, en 47,1% fyrstu sex mánuði ársins 2009. Alls voru 31,7% tilkynninga vegna vanrækslu fyrstu sex mánuði ársins 2010, en 33,9% fyrstu sex mánuði ársins 2009. Hlutfall tilkynninga um ofbeldi var 21,2% fyrstu sex mánuði ársins 2010, en 18,7% fyrstu sex mánuði ársins 2009. Hlutfall tilkynninga vegna þess að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var 0,5% fyrstu sex mánuði ársins 2010, en 0,3% fyrstu sex mánuði ársins 2009. Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um fyrstu sex mánuði ársins 2010 var 4.075 börn, en sambærileg tala fyrir árið 2009 var 3.987 börn. Tilkynnt var því um rúmlega 2% fleiri börn fyrstu sex mánuði ársins 2010 en fyrstu sex mánuði ársins 2009.
Þess ber að geta að tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningar.

Alls bárust 42 umsóknir fyrstu sex mánuði ársins 2010 um Fjölkerfameðferð (MST), en 28 umsóknir fyrstu sex mánuði ársins 2009. Fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan heimilis er talin koma til greina. Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Nýtt MST meðferðarteymi tók til starfa í mars sl. og fjölgaði þerapistum þá úr fjórum í sex.

Umsóknum um meðferðarheimili fækkaði fyrstu sex mánuði ársins 2010 miðað við sama tímabil árið á undan. Umsóknir voru 75 fyrstu sex mánuði ársins 2010 en 78 fyrstu sex mánuði ársins 2009. Umsóknum um fósturheimili fyrir börn fjölgaði úr 55 í 63 á umræddu tímabili.

Hér má sjá skýrsluna í heild og sundurliðun á samanburði vegna tilkynninga til barnaverndarnefnda og upplýsingar varðandi umsóknir um þjónustu á vegum Barnaverndarstofu fyrir umrætt tímabil.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica