Fréttir


Stuðningur við seinfæra foreldra

31.5.2012

Barnaverndarstofa stendur fyrir námskeiði dagana 30 og 31 maí í fundarsal BHM að Borgartúni 6 í samstarfi við fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd og rannsóknarsetur í fötlunarfræðum. Námskeiðið er ætlað fagfólki sem starfar í barnavernd og félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga og ríkis og miðar að því að styrkja það í starfi með seinfærum foreldrum og börnum þeirra. Markmiðið er að kenna leiðir til að efla foreldra í hlutverki sínu, fyrirbyggja vanrækslu barna, stuðla að heilbrigði og öryggi barna og mæta líkamlegum og tilfiningalegum þörfum þeirra. Sérstök áhersla er lögð á styrkleikamiðað mat, íhlutun og gátlista sem eru notaðir til að kanna færni foreldra, meta árangur, sjá hvar eru framfarir og hvaða þætti þarf að styrkja. Um er að ræða gagnreyndar aðferðirnar en rannsóknir hafa sýnt að beiting þeirra stuðlar að velferð og öryggi barna seinfærra foreldra, dregur úr forsjársviptingum og styrkir fagfólk í starfi sínu.

Námskeiðið er byggt upp með fyrirlestrum, umræðum og verkefnum. Leiðbeinandi er dr. Maurice Feldman prófessor í sálfræði en hann hefur þróað stuðningsaðferðir, gátlista og styrkleikamiðaðar matsaðferðir fyrir fagfólk á þessu sviði. Hann er leiðandi fræðimaður á alþjóðavettvangi, sjá nánar hér. Hanna Björg Sigurjónsdóttir lektor við fötlunarfræði í Háskóla Íslands skipulagði námskeiðið og leiðbeinir ásamt dr. Feldman.

Fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd hefur beint sjónum sínum að þessu efni en á starfsdegi barnaverndarstarfsmanna 11. mars 2011 var fjallað um "Barnavernd-seinfærra foreldra, hvernig tryggjum við hagsmuni barnanna". Í kjölfarið var skipaður vinnuhópur sem hafði það hlutverk að koma með tillögur að bættu verklagi varðandi vinnu með seinfærum foreldrum í barnavernd.

Dr. Feldman hefur áður komið til Íslands en hann var með málstofu hjá Barnaverndarstofu 31. maí 2011 þar sem hann kynnti aðferðir sínar.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica