Fréttir


Það sem af er ári hafa rúmlega 3.000 tilkynningar vegna 2.427 barna borist til barnaverndarnefnda landsins

7.4.2020

Mikið áhyggjuefni er að fjöldi barna sem fer í skýrslutöku í Barnahúsi hefur aukist. Alls fóru 64 börn í skýrslutöku og 31 barn í könnunarviðtal í Barnahúsi á fyrstu þremur mánuðum ársins sem er fjölgun um 46 börn frá árinu áður. Börn fara í skýrslutöku þegar grunur er um að þau hafi orðið fyrir kynferðislegu- eða líkamlegu ofbeldi eða vegna heimilisofbeldis. Börn fara í könnunarviðtöl þegar barnaverndarnefnd hefur grun um að barnið hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en telur sig þurfa að vita meira áður en óskað er eftir lögreglurannsókn.

Barnaverndarstofa fylgist áfram vel með þróun á fjölda og eðli tilkynninga og mun birta niðurstöður reglulega. Samfélagið verður að taka höndum saman til að vernda börn sem standa höllum fæti, þróun tilkynninga í kjölfar efnahagshrunsins 2008, þegar þeim fjölgaði um 40% á nokkrum mánuðum, er vísbending um að staða barna geti í mörgum tilvikum verið slæm í dag og að tilkynningum eigi eftir að fjölga á næstu mánuðum.

Við erum öll barnavernd hefur margoft verið sagt undanfarnar vikur og það er mikilvægt að taka það til sín. Það er til aðstoð fyrir foreldra sem eru að missa tökin, það er til hjálp fyrir þá sem beita ofbeldi, það er til aðstoð fyrir þá sem verða fyrir ofbeldi og það er á ábyrgð okkar allra að fylgjast með börnum, styðja börn og láta barnavernd vita ef grunur er um að aðstæður barns séu ekki góðar. Barnaverndarstofa ítrekar mikilvægi þess að tilkynna slíkt, annað hvort með því að hafa samband við barnaverndarnefnd beint eða með því að hafa samband við neyðarnúmerið 112.

 

Hér er hægt að lesa meira um samanburð á tilkynningum til barnaverndarnefnda á fyrstu þremur mánuðum áranna 2018 – 2020.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica